11.03.1931
Neðri deild: 21. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í C-deild Alþingistíðinda. (1164)

8. mál, vitagjald

Jón Auðunn Jónsson:

Þessum tekjum er öðruvísi varið en öðrum tekjum ríkissjóðs. Þetta gjald höfum við einir, sem við sjóinn búum. Ef við ekki ættum land að sjó, þá hefðum við heldur ekkert vitagjald. Ég verð að segja, að upphaflega var ekki ætlun þings eða stj. að verja þessu gjaldi til annara þarfa ríksins. Þegar við lítum á þessa menn, sem hafa gagn af gjaldinu, þá finnst mér hart að gengið, ef þeir eiga að missa það. Ég held, að hv. 3. þm. Reykv. hafi ekki athugað, að við höfum sjóinn einmitt vegna vitaleysis. Ég get bent á tvö tilfelli, t. d. 1917 og 1923, þar sem vitanlegt er, að skipin fórust fyrir vitaleysi. (LH: Þau stranda stundum alveg hjá vitunum. — ÓTh: Kannske alveg á þeim!). Það er ekki alltaf hægt að ráða við veðrið. Skip geta strandað nálægt vita, þegar við ekkert verður ráðið vegna bilana eða ofveðurs. En það sem í okkar valdi er, er að byggja vita, og með því fækkum við slysunum við strendur Íslands. Fyndist mér einkennilegt, ef þingið vildi ekki samþykkja, að þessu gjaldi sé varið til hjálpar þeim, sem gjalda allt gjaldið í ríkissjóðinn. Ég gat hugsað, að íslenzka ríkið vildi leggja stein í vörðuna til að varða leiðir sjómanna, eða að minnsta kosti að leyfa þeim að byggja sér vörður, en þeir, sem standa á móti þessu, kippa þeim steini í burtu. Ég trúi ekki, að hv. dm. vilji leggja liðsinni sitt til þess. Ég trúi ekki, að hv. þdm. vilji taka peningana úr vasa þeirra manna, sem eru að byggja upp stóran gjaldstofn handa ríkissjóðnum í framtíðinni, til að fækka slysunum hjá sjómönnunum. Þetta gjald er alveg sérstakt gjald og við megum ekki gleyma, að það er goldið aðeins í þessu augnamiði. Þó að við getum tekið eitthvað af þessu gjaldi í aðrar þarfir ríkissjóðs síðar, þegar vitakerfið er komið í sæmilegt horf, þá verðum við að leggja það í þessar framkvæmdir nú, svo brýn sem nauðsynin er.