27.03.1931
Neðri deild: 35. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í C-deild Alþingistíðinda. (1187)

155. mál, verksmiðja til bræðslu síldar

Flm. (Ólafur Thors):

Ég hefi með hv. þm. Borgf. og hv. þm. Vestm. flutt frv. um breyt. á 1. nr. 42 frá 1929 um rekstur verksmiðju til bræðslu síldar. Breytingar, sem farið er fram á, eru tvær. Önnur er smávægileg breyt. á 5. gr. laganna, sem lýtur að því, að bændur, sem óska að fá frá verksmiðjunni mjöl, þurfi ekki að segja til þess fyrr en 1. sept., í stað 1. ágúst. Ég tel, að þetta sé bændum nauðsynlegt ákvæði, en að það þurfi ekki að verða verksmiðjunni til baga. Ég hygg, að ekki séu líkur til, að verksmiðjan hljóti skaða af þessum breyt. á l. og skal færa að því rök, ef þörf gerist.

Önnur og aðalbreyt. þessa frv. liggur í breytingunni á 7. gr. nefndra laga. Og fyrir þeirri breyt. ætla ég að leyfa mér að gera nokkra grein.

Eins og segir í grg. þessa frv., var lagt fyrir Alþingi 1928 lagafrv. um stofnun síldarbræðslustöðvar ríkisins, sem þá var samþ. Á þinginu 1929 voru enn lögð fram 1. um rekstur þessarar verksmiðju. Um bæði þessi frv. urðu verulegar deilur. og þá einkum að því er viðvék starfrækslunni, og var sú deila snörpust á þinginu l929.

Eitt af þeim atriðum, sem þá var einna mest deilt um. var það, hvernig skyldi fyrir komið stj. fyrirtækisins. Sú till. kom frá hæstv. atvmrh. og náði lögfestu, að stj. þess skyldi skipuð 3 mönnum. Átti atvmrh. að tilnefna einn, Siglufjarðarkaupstaður annan og Síldareinkasalan þann þriðja.

Andmælendur þessarar till. vildu þá þegar í stað, að hinum raunverulegu viðskiptavinum verksmiðjunnar væri veittur annar og meiri íhlutunarréttur um stj. hennar. Þeir bentu á, að ef þeir, sem allt ættu undir afkomu fyrirtækisins, væru sviptir íhlutunarrétti um stj. verksmiðjunnar, leiddi af því a. m. k. mjög mikið öryggisleysi, um að hæfustu menn veldust til þess að stjórna verksmiðjunni. Þessar till., sem voru bornar fram í mjög hóflegu formi til samkomulags, þar sem aðeins var farið fram á, að eigendur síldarinnar fengju ráðið einum manni í stj., náðu illu heilli ekki fram að ganga. En þær till., sem hæstv. atvmrh. og hinn ríkjandi meiri hl. Alþingis stóð að, voru lögfestar, og þær hafa nú með reynslunni sannað nokkuð um ágæti sitt.

Áður en þessi verksmiðja var reist, var gerð allítarleg áætlun um kostnaðinn af stofnun hennar. Ég hygg, að dómbærum mönnum í þessum efnum geti komið saman um, að sú áætlun var ekki á litlum rökum reist Nú hafa staðreyndirnar andmælt þeirri áætlun, þar sem komið er í ljós, að stofnkostnaður verksmiðjunnar hefir farið verulega fram úr henni. Mig minnir, að sá, sem áætlunina gerði, hv. 1. landsk., teldi kostnaðinn 800 þús. til 1 millj. kr.; en nú vil ég spyrja hæstv. atvmrh., hvort þessi kostnaður sé kominn upp í 1½ millj. kr. (SE: Eru lóðirnar taldar þar með?). Já, lóðirnar eru taldar með í báðum tilfellum. — Ég skal ekkert fullyrða um tölurnar; en hitt get ég fullyrt, að kostnaðurinn hefir farið mikið fram úr áætlun, og það er af þeirri eðlilegu ástæðu, að við þetta fyrirtæki hefir ríkt hin mesta óstjórn, frá hinu fyrsta handtaki og til þess síðasta, sem unnið hefir verið. Þetta skal ég rökstyðja betur, ef því verður andmælt. Ég hefi hér kunnugra manna umsögn, enda er þetta í almæli.

Á þinginu 1928 var helzt búizt við, að verksmiðjan tæki til starfa á árinu 1929. En svo aumlega hefir tekizt til um framkvæmdir á þeirri hlið málsins, að verksmiðjan gat ekki einu sinni verið reiðubúin til starfa í vertíðarbyrjun 1930, heldur var komið langt fram á sumar, er hún gat hafið starfsemi sína. Það er eitthvað ekki með felldu, þegar slíkur dráttur verður á ekki margbrotnari framkvæmdum en byggingu verksmiðjunnar, án þess að fyrir þeim drætti sé gerð nokkur grein, önnur en óeðlilegt hirðuleysi um allar framkvæmdir málsins. Hér eru margir skipherrar á sama skipi og allt í fullu stjórnleysi.

Ég held því, að sú hliðin, sem veit að stofnun verksmiðjunnar, sé h. u. b. eins háborin og nokkur þurfti að óttast, jafnvel þeir, sem svartsýnastir voru á hæfileika þeirra manna, sem valizt hafa til þess að stjórna þessu landi. En svo ömurleg sem þessi hlið málsins er, þá er rekstrarhliðin þó ennþá sorglegri.

Að vísu liggja ennþá engin reikningsskil fyrir frá þessari verksmiðju. Hinsvegar er rekstur slíks fyrirtækis ekki margbrotnari en svo, að þeir, sem kunnugleika hafa á þessum málum, ættu að hafa sæmilega aðstöðu til þess að gera sér örugga grein fyrir niðurstöðunni. Og ég skal þá leyfa mér að skýra hv. d. frá því, að hvaða niðurstöðu ég hefi komizt um rekstur þessarar verksmiðju. Ég hefi þar fulla hliðsjón af svipaðri verksmiðju, sem félag það, er ég starfa við, er eigandi að, og hefi ég því allgóða aðstöðu til þess að fara nærri um rekstrarhliðina.

Ég reikna þá með í rekstrarkostnaði verksmiðjunnar þau gjöld, sem samkv. 4. gr. 1. nr. 42 frá 1929 er ætlazt til, að leggist á framleiðsluna og dragist frá andvirði hennar. Verksmiðjan hefir unnið úr 63400 síldarmálum. Sá kostnaður, sem leggst á þessa vinnslu, er 5% af stofnkostnaði verksmiðjunnar samkv. 2. lið 4. gr. nefndra laga. Þann stofnkostnað áætla ég 1½ millj. kr. Ennfremur á að taka 5% samkv. 3. lið þessarar greinar, og önnur 5% samkv. 4. lið, en þau 10% þurfa ekki að reiknast af hærri upphæð en 1,3 millj., og nemur þá þessi kostnaður alls 205 þús. kr. Vinnslukostnað, þ. e. kostnað við að breyta síldinni í síldarmjöl og síldarolíu, þar í innifalið kol, koks og ýmsir aðrir hlutir til starfrækslunnar, salt, vinna, uppskipun, stjórn, skrifstofukostnaður, efnarannsóknir o. fl., reikna ég í allt 3 kr. á hvert síldarmál, og er það til samans 190200 kr. Auk þess hefir verksmiðjan þurft að kaupa 7 þús. olíuföt á 12 kr. hvert og 11500 mjölsekki á 1,10 kr., og það nemur 96650 kr. — Þá eru vextir, 8% af stofnkostnaðinum, 1½ millj., sem verksmiðjan á að greiða samkv. 4. gr., 120 þús. kr. á ári. Auk þess eru vextir af rekstrarkostnaði, en ég ætla, að verksmiðjan muni hafa þurft 400–500 þús. kr. í 4 mánuði, sem er lágt reiknað, en þá verða þeir vextir 13 þús. kr. Auk þess hefir verksmiðjan greitt framleiðendum út á hvert síldarmál 4,40 kr., eða alls 278960 kr. Ég ætla ekki að reikna til útgjalda vátrygingar; ég veit ekki fyrir víst, hverjar þær eru, enda geta þær ekki raskað höfuðniðurstöðunni.

Með þessu telst mér allur kostnaður, ef reiknuð eru þau raunverulegu gjöld og kostnaður, sem lögin frá 1929 mæla fyrir um 903810 kr. Ef svo er athugað, hvað verksmiðjan hefir fengið fyrir þær afurðir, sem hún hefir selt, þá er hægt að gera sér skýra grein fyrir rekstrarniðurstöðunni, og skal ég leyfa mér líka að skýra frá því.

Verksmiðjan hefir haft í bræðslu 63400 mál af síld, og ef 135 kg. eru í máli, verða þetta 85599 smál. af síld. Af olíu hefir fengizt 14,1%, eða alls 1208 smál., sem jafngildir 7000 fötum, og af mjöli 13,43% eða 1150 smál. 11500 sekkir.

Þessar afurðir voru seldar á þennan hátt:

3500 sekkir af mjöli fob. Siglufjörð til innlendra manna á 27,25 kr. sekkurinn. alls 95375 kr.

Fyrir þær 800 smál., sem verksmiðjan hefir selt til útflutnings, hefir hún fengið — og nefni ég hæsta verð sem komið hefir til greina — £ 13 cif. útlenda höfn, alls 239220 kr. Frá því á að draga þann kostnað, sem á það hefir lagzt, og mun hann láta nærri 34950 kr., og er þá nettóandvirði þessa hluta af mjölinu 204270 kr.

Um söluna á olíu er það að segja, að 170 smál. munu hafa verið seldar fyrir £16 cif. útlenda höfn.

3000 föt munu hafa verið seld á £10 10 sh. hver smál. og önnur 3000 föt á £10 hver smál., og hefir þannig alls fengizt fyrir olíuna brúttó 291383 kr. Á þetta leggst margvíslegur kostnaður, svo sem farmgjald, útflutningsgjald, sölulaun o. fl., og eru það nærri 40450 kr., og verður þá nettó 250933 kr. Nettó andvirði allrar seldrar framleiðsluvöru er því 550578 kr.

Nú var kostnaður, eins og ég gat um áðan, 903810 kr., og verður þá hallinn á rekstri verksmiðjunnar 353232 kr., og það þó því aðeins, að miðað sé við, að verksmiðjan greiði framleiðendum aðeins 4,40 kr. út á mál, en það er vitanlegt, að aðrar innlendar verksmiðjur hafa greitt 6–7 kr. út á mál. Ef gert er ráð fyrir, að þessi verksmiðja greiði 6 kr., verður hallinn 454000 kr., og ef hún greiðir 7 kr., verður hallinn 518000 kr.

Þessi afkoma sest bezt í því ljósi, að maður hugsi sér, að verksmiðjan fengi alla síldina gefins. Betri kjörum væri ekki hægt að komast að. En þá hefði rekstrarniðurstaðan orðið sú, að 75000 kr. tap hefði samt orðið á rekstrinum.

Nú vil ég segja frá mínu sjónarmiði, í réttu áframhaldi af því, sem sagt hefir verið á undanförnum þingum, að þess gerist engin þörf, ef verksmiðjan er rekin af þar til hæfum mönnum, að leggja á vöruna samkv. 4. lið 4. gr. Og ef ég hugsa mér, að þau gjöld ættu ekki að leggjast á, batnar niðurstaðan um 130 þús. kr. og þá verður niðurstaðan nánara tiltekið sú, að verksmiðjan getur skilað eigendum 90 aurum fyrir síldarmálið, ef ekki á að bíða hreinan halla af rekstrinum.

Ég býst við, að sumum hverjum komi þessi rekstrarniðurstaða nokkuð á óvart. En það er mála sannast, að þær skýrslur, sem ég hefi lagt fram, eru óhrekjanlegar í öllum verulegum atriðum.

Ef menn spyrja, af hverju þessi hörmulega niðurstaða stafar, þá verð ég að segja, á eftir minni reynslu af verksmiðju þess félags, er ég starfa við, hefir þetta verið örðugt ár, verðlag á mjöli og olíu furðanlega lágt. En það er þó ekki verra en svo, að aðrar verksmiðjur hafa greitt 6–7 kr. og ekki tapað. Ég get þess vegna ekki séð, að fundnar verði aðrar grundvallarástæður fyrir hinni lélegu afkomu verksmiðjunnar heldur en þær, að þeir menn, sem hafa valizt til stj. fyrirtækisins, eru ekki um það færir. Mér er að vísu kunnugt um, að í stj. er einn mjög greindur og dugandi maður, en ég hygg, að hann hafi á þessu sviði haft litla þekkingu, þegar hann tók við starfinu. Enda sannar niðurstaðan átakanlega þekkingarskort stjórnendanna á starfi sínu. Í öllum verulegum atriðum hafa orðið hin mestu mistök, afurðirnar slæmar, mjölið vont, olían vond og lítil, samanborið við síldarmagn, og verðið hið langlægsta allra verksmiðja hér á landi, af því að varan var seld á óheppilegasta tíma og þar að auki léleg.

Mér sýnist þessi árangur vera enn hörmulegri en þeir allra svartsýnustu töldu, að óttast þyrfti. Frá mínu sjónarmiði er þetta raunar ekki annað en eðlileg afleiðing af því, sem hæstv. atvmrh. barðist fyrir og kom til leiðar að lögfest yrði, þ. e. að láta stjórnmálaskoðanir ráða vali stjórnenda fyrirtækisins, en ekki sérþekkingu, að fara eftir atvinnuþörf umsækjendanna, með nokkurri hliðsjón af því, hvað notadrjúgir þeir yrðu hinum ríkjandi valdhöfum.

Frv. það, sem við berum fram, hnígur að því, að færa þetta í það horf, sem ég tel vera hið eina tiltækilega, úr því sem komið er, að þeir, sem allt eiga undir afkomu verksmiðjunnar, útgerðarmenn og sjómenn, sem síldina eiga, fái að skipa stj. hennar. Við leggjum til, að útgerðarmenn, sem skipta við verksmiðjuna, fái 4 fulltrúa og sjómenn 2, og úr þessum 6 fulltrúum velji atvmrh. 3 út þess að stjórna verksmiðjunni.

Með þessu er þeim, sem eiga allt í húfi, gefinn kostur á að vernda sína hagsmuni, og án hliðsjónar af því, hvorum megin þeir standa í stjórnmálum. Og það er staðreynd, að þegar þeir eiga að ráða, sem allt eiga í veði, þá er spurt um þekkingu.

En hinsvegar viljum við tryggja, að meðan ríkið á verksmiðjuna, verði atvmrh. fengið nokkurt vald til íhlutunar um stj. hennar, og þann íhlutunarrétt teljum við veittan í hæfilegum mæli með því að hann velji 3 og hafni 3. En í skiptingunni milli sjómanna og útgerðarmanna um útnefningarrétt höfum við farið eftir því, hve stóra hlutdeild hvor aðili á í síldinni, sem til verksmiðjunnar fer.

Ég þykist þá hafa sýnt fram á, hverjar afleiðingar í þessu tilfelli hafa orðið af því að láta stjórnmálin í stað þekkingar ráða um forustu þessa fyrirtækis. Ég vil aðeins upplýsa, áður en ég lýk þessari framsöguræðu, að ég hygg, að stj. hafi haft fé af bændum á þeirri vöru, sem þeim er látin í té. Lögin frá 1929 mæla svo fyrir, að bændur skuli fá síldarmjöl við kostnaðarverði. Nú hafa bændur keypt 3500 sekki, en 8000 sekkir hafa verið seldir til útflutnings. Fyrir þessa 3500 sekki hafa bændur orðið að greiða 27,25 kr. fyrir sekkinn, en meðalnettóandvirði af þessum 8000 sekkjum hefir orðið 25,53 kr. Þannig hefir verið haft af bændum hátt á aðra krónu fyrir hvern sekk, eða allt í allt 6000 kr. Þetta er ekki afskaplega stór upphæð, en eftir því sem látið er af hæstv. atvmrh., hvenær sem rætt er um hagsmunamál bænda, hefði mátt ætla, að stj. hans færi ekki að hafa verulega upphæð af bændum og brjóta þannig lög landsins.

Ég vil fara fram á, að frv. verði að lokinni umr. vísað til sjútvn., og ég ætlast til þess, að hún heimti af aðiljum þessa máls full reikningsskil um það, hvað kostað hefir stofnun þessarar verksmiðju og hvernig rekstur hennar hefir farið úr hendi, svo að það megi þá sannast, að ég hefi ekki staðhæft hér annað um þá hluti en sem á fullum rökum er bygt.