25.03.1931
Efri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í C-deild Alþingistíðinda. (1192)

8. mál, vitagjald

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Ég skal hlaupa í skarðið fyrir hv. frsm, af því hann er ekki viðstaddur.

Fjhn. hefir klofnað í þessu máli, þó — ekki komi fram nema eitt nál. Erum við hv. frsm. í meiri hl., og leggjum við til, að frv. verði samþ. með litlum breyt.

Tvær brtt. höfum við borið fram sameiginlega á þskj. 239. Sú fyrri er við 1. gr. frv. og er um að fella niður ákvæðið um það, að vitagjaldið skuli aldrei vera minna en kr. 12.50. Samkv. því ákvæði ættu allir bátar innan 10 smál. að greiða sama iðgjald og 10 smál. skip. Kæmi vitagjaldið þá tiltölulega harðast niður á minnstu mótorbátunum. Teljum við það alls ekki rétmætt. — Hin brtt. er um fyrirsögn frv., að það skuli nefnt aðeins „frv. til l. um vitagjald“, en orðin „o. fl.“ felld niður. Frv. fjallar ekki um annað en vitagjaldið, og er því óþarft að bæta þessu „o. fl.“ aftan við fyrirsögnina.

Nú er hv. frsm. kominn, og getur hann því bætt um það, sem ég hefi sagt, ef hann álítur þess þörf.

En af því að ég er nú staðinn upp, vil ég nota tækifærið til að gera grein fyrir brtt., sem ég flyt einn á þskj. 238. Legg ég þar til, að fyrir orðin „gjald til vita, sjómerkja og til mælinga siglingaleiðum“ komi vitagjald. Tilgangurinn með orðalagi frv. er sennilega sá, að lögleiða, að vitagjaldinu skuli ekki varið til annars en vita, sjómerkja og uppmælinga. Þó ég áliti það gott, ef hægt er að nota vitagjaldið eingöngu til þessara hluta, þá tel ég ekki rétt að binda hendur fjárveitingavaldsins með því að ráðstafa þannig þessari tekjugrein í eitt skipti fyrir öll. Auk þess sem ég tel yfirleitt varhugavert að binda tekjugr. ríkissjóðs til sérstakra framkvæmda, er sérstök ástæða til þess, að mér finnst við ættum siður að binda þannig vitagjaldið heldur en aðrar tekjugreinar. Hún er sú, að vitagjaldið kemur að nokkru leyti niður á útlendum skipum, og sá skilningur hefir komið fram hjá útlendum mönnum, að íslenzka ríkið sé skyldugt til að verja því eingöngu til vitamálanna. Á þessum skilningi bólaði að mig minnir árið 1925 eða 1926, og var honum þá vísað á bug með þeim rökum, að slíkur skilningur ætti sér enga stoð í íslenzkum lögum, að á vitagjaldið bæri að líta sem skatt til ríkisins, sem það hefir heimild til að ráðstafa eftir eigin geðþótta. Það álít ég rétt, enda var því ekki frekar mótmælt.

Ég veit ekki, hvernig sú hugsun hefir myndazt, að ekki megi nota vitagjöldin til annars en vitamalanna. Söguleg drög þessa máls styðja ekki þá skoðun, heldur þvert á móti. Fyrsti vitinn hér á landi var byggður fyrir beint framlag úr ríkisjóði, áður en vitagjald var lögleitt. Síðan var vitagjaldið lagt á, er skipin voru farin að hafa not af vitunum. Það er þannig ekki komið til sem framlag til vitabygginga, heldur sem afnotagjald af vitunum, sem ríkið getur þá vitanlega ráðið, hvað er hátt. Ef nú er sett ákvæði í íslenzk lög um það, að ekki megi nota vitagjaldið nema til ákveðinna þarfa, gæti það gefið útlendingum betri aðstöðu til að skipta sér af þessum málum hér.

Frá sjónarmiði hvers fjmrh. er það mjög hæpin leið að binda tekjugreinar til ákveðinna framkvæmda. Í fjárlogum síðasta árs voru vitagj. áætluð 375 þús. kr., en eftir skýrslu fjmrh. urðu þau 500 þús. Nú mundi ákvæði frv. ekki gilda um áætlun vitagjaldsins, heldur yrði eftir því að láta allar hinar raunverulegu tekjur af vitagjaldinu renna til vitamálanna.

Í þessu í jarl. frv. eru, eins og kunnugt er, felldar niður að miklu eða mestu leyti allar nýjar verklegar framkvæmdir, ekki aðeins til vita, heldur líka á öðrum sviðum. Hin eiginlegu útgjöld til vita eru áætluð tæp 200 þús. Ef þetta ákvæði er lögfest, ætti að verja 300 þús. kr. til nýrra verklegra framkvæmda á þessu sviði, til vitabygginga, þó að ekki þyki fært að stinga upp á framkvæmdum á öðrum sviðum. Ég álít ekki rétt að binda þannig hendur fjárveitingavaldsins.

Ég hefi þá gert grein fyrir ástæðum mínum fyrir brtt. og legg það á vald hv. d., hvort hún fellst á hana.