23.03.1931
Neðri deild: 31. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1017 í C-deild Alþingistíðinda. (1221)

158. mál, loftskeytanotkun íslenskra veiðiskipa

Hákon Kristófersson:

Hæstv. ráðh. sagði, að hann byggist við því, að hv. 2. þm. G.-K. ætlaði að tefja framgang þessa máls og fá flokksbræður sína til slíkra hluta. Það má vel vera, að svo sé, en mér er ekki kunnugt um, að flokkurinn hafi gert nein flokkssamtök til að verða þessu máli að hana eða hefta framgang þess, svo að þetta eru óþarfa getsakir hjá hæstv. ráðh.

Þá hélt hæstv. ráðh. því fram, að þeir, sem væru þessu máli mótfallnir, vildu styðja að yfirgangi togaranna. Ég hefi verið andvígur þessu frv., en það er með öllu ósatt, að með því hafi ég viljað rétta þeim hjálparhönd, er gerast yfirgangsmenn í íslenzkri landhelgi. En það, að ég hefi ekki viljað greiða þessu frv. atkv., kemur til af því, að ég hefi trúað hæstv. ráðh. svo vel fyrir því að gæta þessa máls án frekari lagaheimilda, því að hann hefir sýnt, hve mikinn áhuga hann hefir á landhelgisvörnum.

Ég hefi bent á það hér í þinginu, að ísl. togarar færu í landhelgina; en ég er ekki jafnsannfærður um, að það sé með yfirlögðu ráði eigendanna, og ekki gæti ég sannað það, því að til þess vantar mig annað en grun.

Mér þótti furðu gegna, að hv. flm. taldi ekki þörf á, að þetta mál færi til nefndar. Ég hafði búizt við, að hann teldi frv. merkilegra en svo, að hann vildi láta það fara nefndarlaust gegnum þingið. því eru ýmis ákvæði, sem þarf að athuga. Ég vil t. d. benda á 6. gr., þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nú benda sterkar líkur til þess, að útgerðarstjóri ..... hafi notað loftskeyti í þeim tilgangi að fremja landhelgisbrot“ o. s. frv. Hver á að meta þessar líkur? Ef sterkar líkur benda til þess, að áliti þess, sem á að meta þær, þá má taka af skipinu rétt til að nota loftskeytatæki. — Ýmislegt er líka dálítið „humbugs“-legt í frv. Hvað á t. d. sjútvn. að gera við öll þessi skeyti til og frá veiðiskipunum? Ég held nú, að það færi að vefjast fyrir mér og hv. flm. (SvÓ), ef við ættum að fá allt það samsafn!

Svo er eitt enn, sem flm. virðist leggja mikið upp úr, og það eru þessi drengskaparheit, en þau þyrfti hv. n. að athuga.

Ég vænti þess nú, að þegar hv. flm. talar næst, þá geri hann það að till. sinni að frv. fari til sjútvn. Því er þá ekki í kot vísað, þar sem hann er sjálfur form. í þeirri n. (Rödd: Það er bezt að vísa því til menntmn.!). O ég tel það nú sjávarútvegsmál, og í þeirri n. tel ég höfnina bezta, þar sem við hv. flm. eigum setu til þess að gæta þess, að það reki ekki á hafið.

Hv. flm. lætur sér sæma í þessari örstuttu grg., sem er frá honum sjálfum, að fara þeim orðum um þá, sem hafa slíkt hugarfar að vera á móti þessu frv., að þeir hafi ekki möguleika til þess að átta sig á málinu. Hann segir auk þess, að ýmsir þm. hafi ánetjazt í einhverri villukenningu. Ég verð að segja, að mér finnst hann fara þarna mjög svo óviðurkvæmilegum orðum um þingbræður sína, og átti ég sízt von á slíku aðkasti frá þessum að mörgu leyti mæta manni og sessunaut mínum. Ég gæti þá með sama rétti sagt, að hv. þm. hefði látið ánetjast til þess að flytja þetta frv. En hann ætti þá ekki að láta staðar numið við sína kæru þingbræður, því að það er nú ekki óvirðulegri maður en landsímastjóri, sem hefir haldið hinu sama fram og við andstæðingar frv. á þingi.

Ég hefi litið svo á, að allt það, sem óskað er með frv., að undanteknum ákvæðum 1. gr., væri til í núgildandi lögum eða gæti náðst í samræmi við heimildir í þeim. Hinsvegar býst ég við, að þó að þetta frv. yrði að lögum, væri ekki neinn sérstakur skaði skeður, að því undanfelldu, að ákvæði 6. gr. geta verið mjög hættuleg í höndum óbilgjarns ráðherra. En þessa afstöðu til frv. hefi ég hvorki tekið af samhygð með hv. 2. þm. G.-K. né af fylgispekt við neinn, heldur hefi ég eingöngu litið svo á, að þessa væri ekki þörf.