23.03.1931
Neðri deild: 31. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1021 í C-deild Alþingistíðinda. (1223)

158. mál, loftskeytanotkun íslenskra veiðiskipa

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég ætla ekki að þessu sinni að svara hv. 2. þm. G.-K., því að hann mun hafa haldið sínar tvær ræður. En örfá orð vildi ég mæla til hv. 1. þm. Skagf.

Hann heldur áfram að reyna að sanna, að reglugerð geti gert allt það sama gagn sem þetta frv. Hann er mér samdóma um, að sjálfsagt sé að reyna að hindra þennan ránskap í landhelginni, og ég er honum þakklátur fyrir það. En nú vil ég spyrja hv. þm. að þessu: Hann hefir tvívegis verið ráðherra; þá var varðskipaeignin minni en nú er og landhelgisgæzlan var af leiðandi veikari, og því ennþá meiri nauðsyn til að verjast lögbrjótunum. Ef honum er nú alvara með, að þetta sé þjóðarböl, hvers vegna gaf hann þá aldrei út þessa reglugerð? Hann viðurkennir misnotkunina, og ef hann hefði haft nokkra löngun til þess að spyrna gegn henni, hefði hann auðvitað gefið út stóra reglugerð um þetta efni. En það gerði hann ekki. Það getur komið af tvennu: Að hann hafi engan áhuga haft á málinu, og þykir mér það ólíklegra. Hin ástæðan er sú, að hann hafi vitað og viðurkennt þá, að ekki væri hægt að komast nógu langt með þeim lögum, sem til eru, en hafi ekki lagt út í að fara löggjafarleiðina. Nei, þegar hv. þm. tekur næst til máls, þá mun það koma í ljós, hvort ég geri honum upp of skemmilegar hugsanir í þessum efnum, eða hvort það er eitthvað annað, sem liggur til grundvallar hjá hv. þm. Annars er það allt, sem þessir hv. þm. segja, að hér sé böl, sem bæta þurfi úr, en að það megi gera með reglugerð, og öll ákvæði þessa frv. megi setja í reglugerð, og þess vegna berjist þeir á móti því, að lög verði sett um þetta. En reglugerðina settu þeir ekki þegar þeir höfðu aðstöðu til þess.

Hv. þm. vitnaði í lög frá 1917 um það, að landstjórnin geti bannað skipum að nota loftskeytatæki. En það er nú einmitt það, sem stj. langar ekki til að gera. Það er engin ástæða til þess að hindra eigendur og útgerðarmenn skipa í því að hafa samband við skipin vegna atvinnurekstrarins, og því síður vegna skipshafnanna og björgunarstarfseminnar. Þess vegna er ekkert gagn að þessari heimild í lögunum frá 1917, um það að geta bannað skipum að hafa loftskeytatæki, því að slík heimild verður vitanlega aldrei notuð. Það þarf á hinn bóginn miklu fremur að stuðla að því, að skipin hafi loftskeytatæki, en girða fyrir misnotkun þeirra, eftir því sem unnt er. Það er þetta, sem vakað hefir fyrir flm. þessa máls frá upphafi. Hinsvegar er dálítið einkennilegt það ofurkapp, sem eigendur togaranna og áhrifamenn stórútgerðarinnar í landinu hafa jafnan lagt á það að hindra framgang þessa máls, ef þeir virkilega tryðu því með sjálfum sér, að hinum sama árangri væri hægt að ná með reglugerð. Hvers vegna má þá ekki alveg eins setja lög um þetta? Og vill hv. 1. þm. Skagf. gera svo vel og upplýsa, hvers vegna hann setti ekki reglugerð um þetta efni, meðan hann var ráðherra, úr því að hann og flokksbræður hans viðurkenna, að þörf sé á ráðstöfunum í þá átt, og að reglugerð mundi nægja til þess að girða fyrir misnotkun loftskeytanna.