25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í C-deild Alþingistíðinda. (1236)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Sigurður Eggerz:

Ég skal ekki við þessa umr. fara langt inn á þetta mál. Þó vil ég segja, að oft vill svo verða, að ein syndin býður annari heim. Þegar á sínum tíma var rætt um, hvort taka skyldi ábyrgð á Landsbankanum eða ekki, komu mjög ákveðnar raddir frá ýmsum þeim mönnum, sem bezt skyn bera á fjármál í þessu landi, um, að það væri ekki rétt leið, að ríkissjóður tæki ábyrgð á bankanum. Hitt væri rétta leiðin, að þessum banka, sem búið var að ákveða, að yrði þjóðbanki. yrði veitt ríflegt fé, þannig, að hann gæti staðið sem sterk og öflug stofnun.

Niðurstaðan varð þó sú, að tekin var ábyrgð á bankanum gegn mótmælum úr ýmsum áttum og það frá mönnum, sem vinveittir voru bankanum og vildu veita honum stuðning. En þegar þessi ábyrgð hafði verið tekin á bankanum, varð afleiðingin sú, að þeim, sem áttu fé í Íslandsbanka, þótti öruggara að eiga það í Landsbankanum, þar sem ríkissjóður stóð að baki. Með þessari ábyrgð á Landsbankanum var því verið að ráðast hart og ákveðið að Íslandsbanka. Ég skal þó ekki nú fara inn á forsögu Íslandsbankamálsins. En ég vil benda á það, að þessi ráðstöfun og sá órói, sem var reynt að skapa kringum Íslandsbanka, gerðu honum mjög erfitt fyrir.

Nú hefir þriðji bankinn verið stofnaður, Búnaðarbankinn, og hefir ríkissjóður tekið fulla ábyrgð á honum.

Ég vil nú við 1. umr. þessa máls leggja áherzlu á, að við erum algerlega á rangri braut, þegar búið er að setja ríkissjóð á bak við allar okkar bankastofnanir. En ein syndin býður annari heim. Nú kemur krafa fram um ábyrgð á sparisjóðsfé, sem er inni í Útvegsbankanum. Hinir nýju bankastjórar Útvegsbankans hafa nú lært af reynslunni, og reka sig á örðugleikana, og finna, hvað sem keppnin um sparsjóðsfé er örðug við þá banka, sem hafa ríkisábyrgið.

Aðstöðumunurinn milli Íslandsbanka og Útvegsbankans er þó sá, að allmikið kapital, 7½ millj. kr., stendur að þessum banka. Og þó kemst hann ekki af án ábyrgðar. Ég er þess fullviss, að ef Íslandsbanki hefði fengið ábyrgið á sparisjóðsfénu og ábyrgð á 1½ millj. í rekstrarfé, þá hefði verið hægt að forða þjóðinni frá þeirri ógæfu, sem af stöðvuninni leiddi. En afleiðingin af stöðvun hans var sú, að hann missti mikið af höfuðstarfsemi sinni, innheimtustarfseminni, sem fór út Landsbankans, og eins og hv. 2. þm. Árn. sagði, þá græddi Landsbankinn á því að fá þessa innheimtu til sín.

Með stöðvuninni var einnig lánstraust bankans og landsins fótum troðið. Við stöðvunina skeði það, að bankinn missti mikið af störfum sínum, glataði lánstrausti sínu og var þannig látinn halda áfram vængstýfður á ríkissjóðskostnað.

En þó að þessi mikli höfuðstóll sé settur í bankann, þá finnur bankastjórnin samt til þess, að það er erfitt að lifa í samkeppni við hina bankana, sem báðir hafa ríkissjóðsábyrgð.

Það eru tvö meginatriði, sem koma fram í þessu frv. Fyrst er það óskin um að fá ábyrgð á sparisjóðsfénu. Ef sú ósk hefði verið tekin til greina á því stigi, þegar farið var fram á þetta, hefði bankinn ekki þurft að stöðvast.

Hitt atriðið er það, að fá að draga inn seðlana á lengri tíma. Íslandsbanka var neitað um þetta. Magnús Kristjánsson sagði, að ekki væri til neins að koma oftar til þingsins og fá undanþágu frá inndrættinum, og þetta, ásamt því, að Íslandsbanki fékk ekki endurkeypta víxla hjá Landsbankanum, var orsök til stöðvunarinnar.

Ég ætla ekki langt inn á forsögu þessa máls. Það verður tækifæri til þess seinna. En þrátt fyrir mörg og mikil mistök, sem liggja úti í fortíðinni, þá er skoðun mín um það, hvernig á að standa að bönkunum, ekki breytt. Ég skil örðugleika peningastofnananna á hverjum tíma alveg eins nú og þegar ég var bankastjóri Íslandsbanka.

Ég vona, að þessu máli verði vísað til fjhn. Þar á ég sæti og mun taka mína afstöðu. Og þá mun ég, eftir því sem ég bezt get, taka tillit til þeirra erfiðleika, sem hvíla á bönkunum. Ýmsar þær syndir, sem hafa verið drýgðar gagnvart Íslandsbanka, munu frá minnu hálfu ekki hindra það, að ég reyni að taka sanngjarna afstöðu til þessarar annarar höfuð-peningastofnunar landsins.