25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1031 í C-deild Alþingistíðinda. (1237)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Haraldur Guðmundsson:

Ég skal ekki fara að rifja upp sorgarsögu Íslandsbanka, en verð þó í sambandi við nokkur orð, sem féllu hjá hv. þm. Dal., að henda á örfá atriði þess máls.

Hv. þm. tók svo til orða, að ef Íslandsbanki í fyrra hefði fengið 7½ millj. kr. hlutafé, þá hefði aldrei þurft að stöðva hann. Ég hygg þetta rétt mælt hjá hv. þm. En ég sé ekki, að unnt sé að álasa þinginu í því sambandi. Íslandsbanka var heimilt að afla sér alls þess fjár, sem honum var unnt. Bankastjórn og fulltrúaráð áttu að gera það. Þeir gerðu það ekki. En ég tel víst, að eins og hag bankans var komið, hafi þetta verið ómögulegt.

Hv. þm. endurtók nokkrum sinnum í ræðu sinni, að Íslandsbanki hefði verið stöðvaður, og það hafi Alþingi gert. Ég vil enn á ný mótmæla þessu. Alþingi hefir aldrei stöðvað Íslandsbanka. Stöðvun hans var bein afleiðing af því, hvernig komið var, vegna þeirrar stjórnar, sem bankinn laut.

Ástæðan til þess, að ég gerðist meðflm. þessa frv., er sú, að brýn nauðsyn er til þess, að setja fullkomin lög um Útvegsbankann. Eins og hv. dm. er kunnugt, voru lögin í fyrra stórgölluð fljótasmíð, og því er ekki nema eðlilegt, að fljótt komi í ljós þörfin á að gera þau fyllri og nákvæmari.

Um einstök atriði frv. hefi ég óbundnar hendur. Ég skal benda á 2 atriði, sem ég teldi betur leyst á annan veg en í frv. er gert ráð fyrir.

Ég tel það vandræðaráðstöfun, að tveir séu bankarnir um seðlaútgáfu. En eins og hagur Útvegsbankans stendur, fæ ég ekki séð, að honum sé unnt að leysa alla seðlana inn í einu. Ég vil biðja þá nefnd, sem fær málið til meðferðar, að athuga, hvort ekki sé hægt að leysa þennan vanda á annan hátt. Það er engin lausn, að Landsbankinn láti Útvegsbankanum í té fé með venjulegum útlánsvöxtum. Útvegsbankinn getur ekki haldið sér uppi á því. Þó að hann láni það út t. d. með ½% hærri vöxtum, þá er slíkur vaxtamunur ekki einu sinni fyrir kostnaði.

Annað atriði er það að vegna þess hvernig allt er í pottinn búið, tel ég alveg nauðsynlegt að setja nú þegar einhver ákvæði um, hvernig fara skuli að, ef varasjóður og gróði hrökkva ekki fyrir töpum. Þetta er bráðnauðsynlegt, sérstaklega vegna þess, að þegar Útvegsbankinn var stofnaður, var hann látinn taka við töpum, sem að mati þar til kvaddrar nefndar námu 3½ millj. kr. umfram allt hlutafé Íslandsbanka. Eftir því sem tímar hafa breytzt síðan, er sízt ástæða til þess að ætla, að tapið hafi verið áætlað of hátt; þvert á móti.

Ég vil vænta þess, að sú n., sem fær málið til athugunar, taki einnig þessa hlið málsins sérstaklega til yfirvegunar.