25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í C-deild Alþingistíðinda. (1251)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Ólafur Thors:

Ég ætla ekki að skipta mér verulega af þeim deilum, sem snúizt hafa um forsögu þessa máls. Þó þykir mér ástæða til að láta frá mér smávægilega aths. til af ræðu hv. þm. Ísaf., sem er meðflm. þessa frv. Hv. l. þm. Skagf. benti honum á, að ósamræmi væri milli framkomu hans nú og í fyrra, og hann svaraði, að það væri eðlilegt, því að sú breyting væri orðin á málinu, að ríkið hefði nú, eins og hann orðaði það, fyrir tilstuðlun Sjálfstæðisflokksins og mikils hluta Framsóknarflokksins tekið ábyrgð á þrotabúi Íslandsbanka, svo að ríkissjóður hefði orðið eigandi að 60% af Útvegsbankanum. Og af því, að ríkissjóður er orðinn eigandinn, segist hv. þm. ekki vera feiminn að koma til löggjafarvaldsins og biðja um ábyrgð á öllu sparifénu. Ég vil nú minna hann á það, að frv. okkar hv. l. þm. Skagf. í fyrra fór fram á ábyrgð sparifjár og jafnframt, að ríkið yrði eini eigandinn að bankanum. Úr því að það var höfuðsök þá að leita ábyrgðar, þá er eitthvað að athuga við það nú, þegar ríkið á aðeins 60% í bankanum. Í okkar frv. stendur berum orðum með leyfi hæstv. forseta: „Verð hinna eldri hlutabréfa skal ákveðið með mati og nafnverð þeirra fært niður í samræmi við það á næsta aðalfundi bankans“. Og bankinn var metinn af 2 mönnum, sem álitu, að bankinn ætti fyrir skuldum, ef hlutabréfin væru sett niður í núll. Síðar mátu aðrir, sem hv. þm. Ísaf. virðist treysta betur, og sögðu að bankinn ætti 3–1 millj. minna en ekki neitt. Hvort sem heldur var, hefði ríkið orðið eini eigandinn, með því að leggja fram 3 millj. kr. forgangshlutafé. Og ef það var þá höfusök að taka ábyrgð á þessum banka, sem ríkið átti allan, hvernig er það þá, þegar ríkissjóður á ekki nema 60% í honum?