25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í C-deild Alþingistíðinda. (1253)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Hannes Jónsson:

Þegar rætt var um það á þinginu 1928, hvort ríkið ætti heldur að taka ábyrgð á Landsbankanum eða leggja fram meira stofnfé, sögðu þeir, sem voru á móti ábyrgðinni og vildu heldur bæta milljóninni meir í bankann, að ábyrgðarákvæðin drægju sparisjóðsfé frá Íslandsbanka og yrðu jafnvel hættuleg fyrir sparisjóði. Árin 1925–1927 höfðu innstæður í sparisjóðum verið nálega eins, eða alls kringum 7½ millj. En árið 1928, þegar lögin um Landsbankann gengu í gildi, hækkaði innstæðuféð í sparisjóðum um rúmlega hálfa milljón. Þó má kannske segja, að menn hafi ekki verið búnir að sjá þetta ríkisábyrgðarákvæði í Landsbankanum eða átta sig á þýðingu þess. En árið 1929 hækkar innstæðuféð aftur um rúmlega hálfa millj. hjá sparisjóðunum.

Á árunum 1926–1929 hefir innstæða sparifjár skipzt þannig milli sparisjóða og banka:

1926

1927

1928

1929

Sparisjóðir ...............

7543786

751563

8119743

8642667

Landsbanki Íslands ........

29807558

32919709

36114815

37484135

Íslandsbanki ...............

7447486

5941457

6627080

6691131

Á þessu verður ekki séð, að lögin um Landsbankann frá 1928 hafi haft nein sérstök áhrif í þá átt að draga spariféð til bankans á kostnað sparisjóðanna eða Íslandsbanka. Áður en lögin komu í gildi, var spariféð þegar farið að leita til bankans. Þannig eykst það á árinu 1927 um 3.1 millj. kr., en á sama tíma minnkar sparisjóðsfé Íslandsbanka um 1,5 millj. kr. Þetta sýnir, að Landsbankinn þurfti enga sérstaka lagavernd til að tryggja sér spariféð. Árið 1928, sem er fyrsta árið, sem lögin um ríkisábyrgð á Landsbankanum giltu, eykst sparifé Landsb. enn um rúmlega 3 millj. kr., og þá eykst einnig innstæðufé sparisjóðanna um rúmlega ½ millj. kr., eins og ég hefi áður tekið fram, og sparisjóðsfé Íslandsbanka eykst um 686 þús. kr. Aukning sparifjárins er hlutfallslega svipuð hjá öllum þessum stofnunum, þrátt fyrir lögin um Landsbankann, og sannar það að þau hafa ekki haft nein áhrif á að beina sparifénu frá sparisjóðunum eða Íslandsbanka til Landsbankans. Sýnist þvert á móti hafa orðið nokkur straumhvörf í þessu frá árinu áður, til óhagnaðar fyrir Landsbankann. Menn hafa yfirleitt litið svo á, að Landsbankinn væri stofnun ríkisins, og því bæri það siðferðislega ábyrgð á honum, jafnt meðan það var ekki orðin lagaleg ábyrgð. Hv. 1. þm. Skagf. sagðist ekki ætla að standa á móti ábyrgðarákvæðinu, þrátt fyrir hættuna á, að fé sparisjóðanna flyttist yfir í bankann. M. ö. o. hann hlífist ekki við, ef svo vill verkast, að veita fé sparisjóðanna til Útvegsbankans, þó að hann berist á sínum tíma gegn því, sem hann áleit, að gæti valdið því, að eitthvað rynni frá Íslandsbanka til Landsbankans. (MG: Þetta er rangt eftir mér haft). Hv. þm. sagði þetta beint, að þrátt fyrir hættuna mundi hann ekki standa móti þessu ákvæði.

Hv. 1. þm. Reykv. lét þess getið, að bankaráð Landsbankans hefði gefið þá yfirlýsingu gagnvart samskonar ákvæði og þessu í lögum Búnaðarbankans, að það mundi ekki hafa skaðvæn áhrif á Landsbankann. Og mér skildist hann vona, að bankaráðið liti eins á þetta gagnvart Útvegsbankanum. Og sé gengið til frá, að þetta sé rétt hjá bankaráðinu, er alls ekki nema um tvennt að ræða: Annaðhvort reynist þetta ákvæði svo, ef það kemur í gildi, að það dragi ekki fé neinstaðar frá í bankann, svo að hann standist ekkert betur en áður, eða þá að hann nái fé sparisjóðanna úti um land. Á þeim á þetta að bitna. Það gerir ekkert til, úr því að það eru bara sparisjóðir úti um land.

Þó að það hafi sýnt sig, að ábyrgðarákvæði frá 1928 hefir engu spillt fyrir sparisjóðunum, og fé sýnist ekki heldur hafa runnið frá Íslandsbanka eða Útvegsbankanum af þeim ástæðum, byggist það á þeirri skoðun manna, að Landsbankinn hafi verið jafntryggur áður, en ef gengið er inn á slíka ábyrgið fyrir Útvegsbankann, sem hefir talsvert aðra aðstöðu en Landsbankinn gagnvart ríkinu, geta sparisjóðirnir vel tapað meira og minna af innstæðufé sínu. Ég verð því á móti þessu ákvæði í 4. gr. frv.

Að öðru leyti vil ég ekki lengja umr., með því að eltast við ýms orð, sem hér hafa fallið, og þær fjarstæður, sem sagðar hafa verið um Íslandsbankamálið í fyrra. Þó get ég fallizt á það, sem hv. þm. Dal. sagði, að Íslandsbanki hefði ekki þurft að loka, ef þar hefðu ekki verið framin stórkostleg fjármálaafglöp, mestu fjármálaafglöp í voru landi og með þessari þjóð. Og ef til vill hefir hv. þm. Dal. drýgt mestu afglöpin sjálfur, þegar hann skipaði sig bankastjóra. Annars hefði bankinn ef til vill ekki stöðvazt. Og það er líka rétt í sjálfu sér hjá hv. þm., að ef alltaf hefði verið mokað nógu miklu fé í bankann, þá hefði auðvitað aldrei komið til neinna örðugleika fyrir hann. Hitt er annað mál, hvort hyggilegt var að halda áfram þeirri stefnu, því að einhversstaðar hljóta að vera takmörk fyrir því, hvað ríkið á að taka að sér af töpum, sem stafa af ógætilegri fjármálastjórn einkastofnunar eins og Íslandsbanki var.