25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í C-deild Alþingistíðinda. (1257)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég ætla ekki að láta mig henda það, sem sumum verður á. Þótt hv. þm. Dal. hafi beint til mín ögrandi orðum, þá ætla ég ekki að láta mig henda það, að troða á föllnum manni. Hv. þm. Dal. er fallinn maður í þessu bankamáli.

Ég skal minna hv. 1. þm. Skagf. á það, að tvær tillögur lágu fyrir í fyrra um úrlausn bankamálsins. Önnur var till. þeirra hans og hv. 2. þm. G.-K. um það, eins og hv. 2. þm. G.-K. orðaði svo heppilega áðan, að ríkið skyldi eignast Íslandsbanka, þ. e. taka við hans 3½ millj. kr. þrotabúi, eins og þá var álitið. Hin var till. stj. um það, að ríkissjóður legði 4½ millj. til bankans sem forgangshlutafé, gegn því, að til kæmu 6 millj. kr. annarsstaðar frá, eins og lögin sýna. Það þýðir ekki fyrir hv. þm. að vera að slá því fram hér í hv. þd., að till. stj. í bankamálinu hafi orðið ríkinu til skaða. Mun ég óhræddur mæta frammi fyrir kjósendum þessa lands ásamt hv. þm. með samanburð á þessum tveimur till.