25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1046 í C-deild Alþingistíðinda. (1258)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Ólafur Thors:

Hæstv. forsrh. reyndi að sýna fram á mun á till. okkar hv. 1. þm. Skagf. og till. stj. í Íslandsbankamálinu í fyrra eftir hinn víðfræga hringsnúning stj. í málinu. Ég vil minna á það, að við hv. 1. þm. Skagf. tókum það skýrt fram, bæði í grg. og umr., að við vildum ganga inn á hverja þá leið, er fundin yrði til lausnar þessu máli, aðeins með því eina skilyrði, að bankinn fengi að lifa, svo að við mættum halda lánstrausti okkar út á við og yrðum ekki opinberir vanskilamenn.

En hæstv. forsrh. veit vel, að hér er ekki deilt um úrslitatill. í bankamálinu. heldur um fyrstu till. stj. um gjaldþrotaskipti bankans.

Hæstv. forsrh. man vel öll höfuðrök þessa máls; hann man vel þá tilraun sína og nokkurra stuðningsmanna sinna til þess að leggja að velli bankann, þessa stofnun, sem hann var sjálfur æðsti maður fyrir, stofnun, þar sem 2 af 3 í stjórn bankans voru skipaðir af því opinbera, en sá þriðji af bankaráði, sem ríkið hafði skipað.

Hann hlaut að sjá það, að fyrir sjónum útlendinga gat þessi banki ekki litið öðruvísi út en sem ríkisstofnun, og að fall hans hlaut að hafa alvarleg áhrif á lánstraust landsins. Hann var minntur á það, að með gjaldþroti bankans mundu um 10 þús. fátækir sparifjáreigendur tapa innstæðum sínum, en eyru hans heyrðu ekki og augu hans sáu ekki. En þegar að því kom, að sumir af hans eigin mönnum snerust gegn honum í málinu, þegar um það varð að gera, hvort hv. þm. Str. átti að vera áfram forsrh. eða ekki, þá var ekki lengi verið að snúa við blaðinu.

Ég hefði ekki farið að rifja upp þessar minningar, ef hæstv. forsrh. hefði ekki sjálfur gefið tilefni til þess með áskorunum sínum. Mér hrýs hugur við því, ef grunnfærni og fljótræði hæstv. forsrh. á nú á sama hátt að verða tilraun til þess að hnekkja áliti þjóðarinnar á Útvegsbankanum, eins og blað hans í fyrra reyndi á allan hátt að ræna Íslandsbanka tiltrú. Mér finnst það í alla staði óviðeigandi af hæstv. ráðh. að fleipra hér um 10 millj. króna afskrift af eignum Útvegsbankans, eingöngu af því, að tilviljun leiðir umræður inn á þá braut, að hann telur sig geta notað slíkar upplýsingar sem rök. Ég vil vona, að þetta sé ekki satt, en ef það er satt, þá er það þó harla óviðeigandi að slá þessu fram í geðofsa eins og af tilviljun, til þess að skeyta skapi sínu á andstæðingum sínum. Hæstv. ráðh. verður einnig að athuga það, að ef þetta er satt, þá getur hann ekki sjálfur sloppið óskemmdur frá þessu máli. Ef ástandið er svo geigvænlegt, sem hæstv. ráðh. heldur fram, þá vil ég nú spyrja hann, hvort hann heldur, að hann. formaður bankans, sleppi alveg hjá sök; hvort hann heldur, að formaður bankans hafi engar skyldur gagnvart bankanum. Hvar í heiminum heldur hann, að þannig yrði litið á málið, að það yrði tekið gott og gilt, að hann kasti sökinni á hv. þm. Dal., en þvoi sínar eigin hendur hreinar?

Ég hefði gaman af, að hann færi til formanna bankaráða Landsbankans og Útvegsbankans og spyrði þá, hvaða hugmynd þeir hafi um hag bankanna á hverjum tíma. Ég veit, að þeir mundu svara, að þeir teldu sér skylt að hafa stöðugt eftirlit með hag bankanna. Hæstv. forsrh. notaði tækifærið til þess að hella úr skálum reiði sinnar yfir hv. þm. Dal. út af töpum Útvegsbankans, en hann mun komast að raun um það áður en lýkur, að hann stendur sjálfur í sökinni. Annars vil ég nú vona, að þessi töp séu ekki eins mikil og sagt hefir verið. Ég get vel skilið það, að ástand bankans sé ekki gott, og það er auðvitað rétt, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, að verzlunarárferðið er ógurlega óhagstætt, og þá er eðlilegt, að óvænt töp geti borið að höndum, en það er vitaskuld barnaskapur að varpa þeirri sök á hendur bankastjóra, er farinn er frá bankanum fyrir 1–2 árum.

Að lokum vildi ég aðeins taka það fram, að ég ætlast ekki til, að menn skilji orð mín svo, að ég sé að lýsa mig andvígan því frv., sem liggur fyrir um það, að ríkið taki ábyrgð á sparifé í Útvegsbankanum. Ég geymi mér allan rétt til ákvörðunar um afstöðu mína til þess.