14.03.1931
Neðri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

77. mál, fiskimat

Ólafur Thors:

mér skilst á ræðu hv. frsm., að brtt. sjútvn. sé fram komin fyrir ráðleggingu Jóns Krabbe. Ég hefi nú ekki mikið að segja um málið eins og það liggur fyrir frá hendi ríkisstj. samkv. bráðabirgðalögunum 21. sept. 1930. Ástæðan til þess, að lög þessi voru út gefin, er sú, að fiskkaupendur á Spáni sneru sér til íslenzka fiskifulltrúans á Spáni og fóru fram á, að slík fyrirmæli yrðu lögfest, en hann sneri sér til ísl. ríkisstj. Hafði hún málið til athugunar um hríð, en lagði það svo fyrir stjórn Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda og Fiskifélags Íslands, og báðar þessar stofnanir tóku afstöðu til málsins og létu álit sitt í ljós. Síðan hafa svo aftur komið umkvartanir frá Spáni vegna þessarar lagasetningar. Var það eitt af minnstu innflytjendafélögunum, sem hafið hafði undirróður og síðan leitað á náðir spánskra yfirvalda, sem af ókunnugleika tóku upp þykkjuna og fóru fram á, að þessi ákvæði í bráðabirgalögunum yrðu afnumin, en þau hnigu að því, að allur fiskur, er til Barcelona er fluttur frá Íslandi, skuli vera pakkaður. Ríkisstj. sneri sér aftur til áðurnefndra félaga, og sé ég ekki ástæðu til að hverfa frá því, er þau hafa lagt til malanna. En þau svöruðu líkt og áður. Ég álít, að það sé til hagsmuna fyrir Ísland, að þetta ákvæði í bráðabirgðalögunum haldist, meðfram með tilliti til þess, að það eru minni líkur til þess, að fiskurinn skemmist við útskipun eftir að hann er metinn. ef hann er pakkaður á þann hátt, sem ráð er fyrir gert í lögunum. En nú virðist mér meiningin með þessari brtt. sjútvn. vera sú, að fara í kringum þau ákvæði, er ríkisstj. hefir sett, og draga þannig úr áhrifum þess aðila, sem bezt vit hefir á þessum málum, nefnil. Fél. ísl. botnvörpuskipaeigenda og Fiskifélags Íslands. Ég fyrir mitt leyti sé alls enga ástæðu til þess að samþykkja þessa tillögu sjútvn. Það getur og ekki komið til mala, að spönsk stjórnarvöld taki upp nokkra þykkju gegn ísl. stjórnarvöldum út af þessum ákvæðum, vegna þess að krafan er frá Spánverjum sjálfum, og legg ég því til, að frv. verði samþ. óbr.