25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í C-deild Alþingistíðinda. (1260)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vildi aðeins benda hv. ræðumanni á það, að ef hann er óánægður með það, að forsaga Útvegsbankans, nefnilega afdrif Íslandsbanka, hefir verið dregin hér inn í umr., þá má hann snúa sinni reiði til sinna eigin flokksmanna, því að það voru þeir, og einkum hv. þm. Dal., sem áttu sökina á því. Þegar menn með aðra eins fortíð og hans í þessu máli dirfast að standa upp og tala með æsingu um þetta mál, þá er ekki að ætlast til þess, að menn, sem vita, hvernig sakir standa, geti hlustað þegjandi á.

Hv. þm. Dal. og hv. 2. þm. G.-K. bera ábyrgð á því, að umr. fóru hér inn á þessa braut. En hinsvegar var hér aðeins um að ræða gálgafrest fyrir hv. þm. Dal. Það er ekki af neinni tilviljun, að töp, sem stafa frá dögum Íslandsbanka, koma hér til umr. Innan skamms hefði að því komið. Hv. þm. hafa aðeins kallað það fram nokkrum dögum fyrr en annars hefði orðið. (MG: Er gamla hlutaféð innifalið í þessu tapi?). Já, það er það, þessu er innifalið afskrifað hlutafé Íslandsbanka og töp bankans samkv. síðara matinu, er fór fram á bankanum í fyrravetur, 3½ millj. kr., en þar framyfir er enn komið ¾ millj. kr. nýtt tap frá tíð Íslandsbanka.

Þá skal ég koma dálítið inn á forsögu Íslandsbankamálsins á síðasta þingi, í tilefni af ræðu hv. 2. þm. G.-K., þar sem hann var að tala um víðfrægan hringsnúning stj. Till. hans og hv. 1. þm. Skagf., sem fyrst komu fram í málinu, voru á þá leið, að ríkið tæki að sér þrotabú bankans. Snerust allir framsóknarþingmennirnir algerlega á móti þeim. En svo kemur sá þáttur málsins, að þvingað er fram fé frá þeim, sem hagsmuna áttu að gæta um bankann, til þess að það standi einnig undir tapinu. Og það fé er hvorki meira né minna en 6 millj. kr. Það sýnist nú svo, að þá væri nokkuð öðru máli að gegna fyrir ríkið, þó að það legði þá fram samhliða forgangshlutafé í bankann. Ég hygg, að margur sé á minni skoðun um, að það breyti dálítið afstöðunni, hvort fram á borðið koma 6 millj. til þess að standa ásamt ríkinu undir töpum bankans, eða að ríkið á að ábyrgjast bankann eitt. Hringsnúningur stj. er þá þessi, að hún telur ekki alveg sama, hvort fást 6 millj. kr. annarsstaðar að eða ekkert til þess að tryggja afkomu bankans. Árangurinn af starfi stj. með atbeina Framsóknarflokksins varð sá, að ríkið varð þó ekki eini eigandinn að því 3½ millj. kr. tapi, sem gefið var upp, og verð ég að telja, að þó að stj. hefði ekkert annað gert á þinginu en að útvega þessar 6 millj. kr., þá verð ég að telja það ærin afrek.

Þá hafa hv. þm. verið að tala um skyldur mínar sem bankaráðsformanns og lagt mikla áherzlu á þær. Ég skal ekki fjölyrða um þeirra aths. um það efni, en þó get ég sagt þeim það, að þar sem hagsmunir bankans og hins íslenzka ríkis rákust á, þá taldi ég, og tel það enn, skyldu mína að halda fast á rétti ríkisins.