25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í C-deild Alþingistíðinda. (1261)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Jóhann Jósefsson:

Ég verð að segja það, að mig furðar að heyra hæstv. forsrh. stæra sig af því, að hafa þvingað fram 6 millj. kr. tillag til Útvegsbankans. Það er vitanlegt, að hluti af þessu fé hefir verið þvingaður út úr sparifjáreigendum Íslandsbanka víðsvegar á landinu. Ég verð að segja það, að mér finnst þetta tal hæstv. forsrh. vera furðulegt, að hann skuli dirfast að tala eins og hann talar í þessu máli. Að hann, forsrh., skuli hæla sér af því að hafa þvingað út úr fátækri alþýðu hátt á 2. millj. kr., eins og hann segist hafa gert. Hann segir, að þetta sé sitt verk og virðist allhróðugur yfir.

Mér virðist að það sé of langt gengið í leit að hrósi, er hæstv. forsrh. er að hrósa sér af því, að hann hafi getað kúgað helming sparifjárins út úr landsmönnum þeim, er inni áttu í Íslandsbanka, með þeim forsendum, að ef þeir legðu ekki fram sinn síðasta eyri, þá skyldu þeir tapa öllu, sem þeir áttu í bankanum, en það var vitanlega á þeim forsendum, að „agiterað“ var fyrir þessum framlögum til bankans. Ég öfunda ekki hæstv. forsrh. af þessum aðförum. Og almenningur, sem hann hefir pínt, mun ekki telja hæstv. ráðh. þetta til gildis.

Ef um það er að ræða að gefa Útvegsbankanum sömu réttindi og Landsbankanum og Búnaðarbankanum, að ríkið ábyrgist innieign sparifjáreigenda, sem hlýtur að vera óhjákvæmilegt, eigi bankinn ekki að vera olbogabarn, þá vildi ég skjóta því til þeirrar n., sem fær frv. til meðferðar, hvort hún álíti ekki rétt að sýna þeim landsmönnum eitthvert réttlæti, sem hæstv. stj. hefir þvingað með aðgerðum sínum á síðasta þingi til að leggja fram helming sparifjárins í bankanum. Ég verð að líta svo á, að þeir, sem lögðu fé í Útvegsbankann, eigi skilið sama réttlæti og sömu lögvernd og hinir, sem lagt hafa inn fé sitt á öðrum stöðum.