25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í C-deild Alþingistíðinda. (1264)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég get tekið undir það með hv. 3. þm. Reykv., að ég tel það illa farið, að umr. skyldu taka þá stefnu, sem þær hafa gert. Ég lít svo á, að hv. flm. frv. hafi ekki gefið neitt tilefni til þess, að svo hefir farið. Það er mjög óheppilegt að fara nú að ýfa upp gömul sár síðan í fyrra, sem hætt er við, að séu illa gróin ennþá. Það er hv. þm. Dal., sem á mesta sök á þessu, því að hann hefir leitt umr. inn á þetta svið.

Þetta mál er svo vaxið, að það er réttara að fara um það gætilegum orðum heldur en að rísa hér upp með ásakanir, sem byggðar eru á röngum grundvelli. Ég tel réttast að fara ekki langt út í Íslandsbankamálið í fyrra, en kemst þó ekki hjá því að minnast á það nokkrum orðum.

Skal ég þá byrja á byrjuninni, er komið var fyrirvaralaust til þingsins og farið fram á það, að ríkið tæki ábyrgð á bankanum rannsóknarlaust, að kalla mátti, því að reynslan sýndi það fullgreinilega, að ekkert var hægt að byggja á þeirri rannsóknarmynd, sem gerð hafði verið. Og það voru sumir þm., sem vildu ganga að þessu rannsóknarlaust. Síðan var sett rannsóknarnefnd í málið, og kom þá í ljós, að bankinn átti 3½ millj. kr. minna en ekki neitt.

Þegar álit nefndarinnar birtist, var því mótmælt bæði af ýmsum þm. og bankastjóranum, hv. þm. Dal., sem lýsti yfir því, að niðurstaða nefndarinnar væri röng og hagur bankans væri miklu betri en hún hefði sýnt. Nú hefir fengizt reysla um það, hvernig ástand bankans var í raun og veru, og verður þeirri reynslu ekki móti mælt.

Eins og ég hefi áður sagt, hefi ég enga löngun til þess að draga þessi mál inn í umr., en er neyddur til þess, vegna undangenginna umr.

Hæstv. forsrh. hefir nefnt upphæð, sem afskrifuð hefir verið árið sem leið. Annars koma reikningar bankans bráðlega út, og geta menn þá séð þetta með eigin augum.

Þó að þetta séu mjög miklar afskriftir, þá er engin ástæða til að álíta, að bankinn sé ekki traustur og að landsmenn geti ekki reitt sig á hann. Vil ég taka undir það með hv. 3. þm. Reykv., að góðar vonir má gera sér um, að bankinn rísi við og verði þjóð og landi til mikils gagns.

Ég vil segja það að mér þykir það óviðkunnanlegt, að hv. þm. séu að koma með órökstuddar staðhæfingar um það sem hefir verið gert á síðustu árum, hvað hafi verið rétt að gera og hvað ekki.

Hv. 2. þm. G.-K. for hörðum orðum um afskipti hæstv. forsrh. af Íslandsbanka. Var það helzt að heyra á honum, að hæstv. forsrh. hefði alltaf átt að vera í bankanum eins og fastur starfsmaður. (ÓTh: Hann var bankaráðsformaður). Já, en hv. þm. veit sjálfsagt, hvernig bankaráðið var byggt upp og hve vald þess var takmarkað. Bankaráðsmennirnir máttu vera sinn af hverju landshorni. Það var alls ekki ætlazt til þess, að bankaráðsformaðurinn væri á hverjum degi í bankanum eða hefði eftirlit með daglegri starfsemi bankastjóranna. Núverandi hæstv. forsrh. var ekki heldur lengi formaður bankaráðsins og töp bankans mynduðust ekki á þeim tíma, sem hann var í bankaráðinu. Allir vita, að 1921 varð bankinn í raun og veru gjaldþrota. Hverjum datt þá í hug að ásaka formann bankaráðsins eða forsætisráðherra? Engum.

Mér þætti réttara, að rætt væri um efni frv. sjálfs, og gamlar, dauðar væringar væru látnar liggja í þagnargildi.