14.03.1931
Neðri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

77. mál, fiskimat

Sveinn Ólafsson:

Aðeins örfá orð út af ræðu hv. 2. þm. G -K. Hann lítur svo á, að með till. sjútvn. sé reynt að fara í kringum ákvæði frv., eða a. m. k. tilraun gerð til þess að draga úr þeim. Þess ber vandlega að gæta og minnast, að sú venja er löngu komin á, að flytja nærfellt allan fullverkaðan fisk til Spánar í umbúðum og hundinn í bagga og ég býst ekki við, að nein breyt yrði á þessu, þó öllum yrði heimilað að flytja út fisk umbúðalausan. Að það yrði óþægilegt fyrir stj. að grípa til fyrirmæla till., vegna þess að komin er á rótgróin venja um sendingar í umbúðum, get ég ekki fallizt á Það yrði blátt áfram hrein undantekning frá venjunni, ef farið væri að flytja út umbúðalausan fisk.

Hinsvegar viðurkenni ég, að það er rétt hjá hv. 2. þm. G.-K., að þetta ákvæði var upphaflega sett í lögin eftir ósk fiskkaupmanna á Spáni. Þeir hafa sennilega ekki haft fyrir augum þann möguleika, að risið gæti ágreiningur út af þessum umbúðaflutningi. En það er nú fyllilega upplýst, að kvartað hefir verið undan því af hafnarvinnumönnum á Spáni, þeim, sem flytja fiskinn í land, að pakkaður fiskur veitti þeim minni atvinnumöguleika en laus fiskur. En eftir því, sem Jón Krabbe stjórnarfulltrúi skýrir frá, þá er þó aðalástæðan fyrir mótmælunum frá Spáni eða mótspyrnan komin frá smásölunum þar, sem dreifa fiskinum, og er það skiljanlegt. Þá mun það og hafa valdið nokkurri tortryggni hjá spönskum stjórnarvöldum, að bráðabirgðal. miða bannið eingöngu við Spán, en ekki hin miðjarðarhafslöndin, þegar fiskur er fluttur þangað beint.

Ég sé ekki, að neinu sé í voða stefnt, þótt brtt. n. verði samþ. Hún ætti að fyrirbyggja alla tortryggni af hendi Spánverja og fyrirgirðir þó ekki útflutning á lausum fiski. — Finn ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta.