21.02.1931
Neðri deild: 6. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í C-deild Alþingistíðinda. (1273)

1. mál, fjárlög 1932

Ásgeir Ásgeirsson:

Útvarpsráðið tekur ákvarðanir um það, hverju það vill útvarpa. Eftir gildandi lögum þarf það engan um það að spyrja, hverju það varpar út. Ég hygg þó, að þrátt fyrir þennan rétt, þá muni útvarpsráðið varpa út frá Alþ. í samráði við forseta, en þeir aftur leita samkomulags um það við flokkana. Um útvörpun fjárlagaræðunnar er það að segja, að nefnt hafði verið við mig, hvort ég sæi nokkuð til fyrirstöðu því, að svo yrði gert. Ég fyrir mitt leyti sá það ekki. Ég tel, að sú venja eigi að myndast, að henni verði ávallt varpað út, hver sem við stjórn situr. Sú ræða verður ávallt sérstaks eðlis og ég tel fyllsta hlutleysis gætt, ef það er alltaf gert, hvaða flokkur sem fer með völd.

Um að varpa út framhaldsumræðum um þetta mál hefir engin ákvörðun verið tekin og engar málaleitanir borizt um það enn. En æskilegt væri, að sem minnst væri um þetta talað nú. Þær umr. gætu valdið því, að erfiðara verði um að ná samkomulagi um það atriði síðar. (MG: Er þessu útvarpað? — ÓTh: Hver veit, hverju er útvarpað! — Margir tala). — Ég vil biðja hæstv. forseta að þagga niður í svona mönnum. Þetta er mál, sem ræðast þarf með stillingu og sanngirni. En það næst ekki, ef þrír eða fjórir tala í senn. — Það þarf að verða samkomulag um það á milli flokkanna, hvort útvarpa skuli öllu, sem sagt verður við framhaldsumr., eða ekki nema nokkru, og þá hvernig því skuli réttlátlega skipt á milli flokkanna. En til þess að fá heppilega lausn á því, verður að ræða þetta mál með stillingu og sanngirni.