21.02.1931
Neðri deild: 6. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í C-deild Alþingistíðinda. (1285)

1. mál, fjárlög 1932

Magnús Jónsson:

Ég legg enga áherzlu á, að útvarpað sé frá þinginu, en ef það er gert, verður að ráða þar fullkomið hlutleysi, þannig að öllu sé útvarpað um hvert mál. Og hæstv. forseta Sþ. þekki ég ekki rétt, ef hann álítur, að maður eigi að vera við hendina, sem tekur úr sambandi, eftir því sem honum sýnist. (BSt.: Þetta var gert í tíð fyrrv. stjórnar). Það er ekki alveg sama, hvort lög eru brotin eða ekki. Meðan ekki voru til nein lög um þetta efni, varð að fara eftir því, sem hver hafði á tilfinningunni. En þegar búið er að setja lög um hlutleysi útvarpsins, og þau eru tvíbrotin hér í þinginu, þá er ekki við það unandi. Í tvö skipti hefir verið útvarpað úr þinginu, í bæði skiptin er því misbeitt. Ég skil ekki þá menn, sem undrast það, að þm. reiðist út af slíku framferði. (Dómsmrh.: Þær eru svo merkilegar þessar umr.). Ó-já, þær eru harla merkileg mynd af því stjórnarfarssiðleysi, sem ríkir nú í þessu landi.

Svar hæstv. forseta þessarar deildar gladdi mig. Hann tók vel í málið og virðist vilja vera skeleggur og ráðríkur í því, að þingið ákveði skýlaust um þetta mál.