25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í C-deild Alþingistíðinda. (1293)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Flm. (Jón Ólafsson):

Út af þeim ummælum hæstv. dómsmrh., að það væri alltaf að koma betur og betur í ljós, hve Íslandsbanki hafi verið illa staddar, vil ég geta þess, að það er álit mitt, að bankinn hafi verið metinn með mikilli nákvæmni af þeim mönnum, sem það gerðu, og að bankinn sé sízt verr á vegi staddur en þar getur. En það er eins með banka og aðrar verzlanir, sem lána, að ef hittist á vond árferði, getur allt gengið verr en ætlað er, en svo þvert á móti, ef gott árferði er.

Ég vil benda á það, að 1926 fór fram mat á bankanum og þó að það mat hafi eflaust verið rétt á sínum tíma, þá stendur nú ekki steinn yfir steini í því mati.

Ég vildi aðeins benda á þetta, af því að það getur gefið mönnum nokkra hugmynd um það, hve lítið er að byggja á mati banka þegar langur tími er liðinn frá því hann var metinn. Og einnig vildi ég benda á það, að öll möt á slíkum stofnunum byggjast svo mjög á árferði og útliti árferðis þau ár, sem mat fer fram, og því mjög háð verðsveiflum o. fl.