25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í C-deild Alþingistíðinda. (1294)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Jóhann Jósefsson:

Í þeim umr., sem hér hafa farið fram, hafa menn komizt inn á margt, sem snertir forsögu þessa banka, sem hér er verið að ræða um, og þá líka inn á margt, sem snertir frv. það, sem hér liggur fyrir, og þá einkanlega 4. gr. þess. Hefir mér heyrzt á sumum ræðum, að ekki væri vel tekið í það, að ríkið taki ábyrgð á Útvegsbankanum, og hann sé þannig settur á bekk með Landsbankanum og Búnaðarbanka Íslands að því er sparisjóðsfé snertir.

En það, sem ég vildi, að kæmi fram við 1. umr. málsins, er það, hver sé atstaða hæstv. stj., og þá einkum hæstv. fjmrh., til 4. gr. frv., vegna þess, að það verður að teljast mikilsvert atriði í þessu máli. Ég hefi tekið eftir því, sem komið hefir frá hæstv. stj. í umr. um þetta mál, og hefi ég ekki heyrt, að neitt hafi verið sagt í þessa átt í ræðum þeim, sem hér hafa verið haldnar.

Ég vil því beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh., hver sé skoðun hans á 4. gr. frv. og hvers megi vænta, að hæstv. stj. leggi til málanna í því efni, að ríkið taki að sér ábyrgð á sparisjóðsinnstæðu manna í Útvegsbankanum, á sama hátt og nú er í þeim tveimur bönkum, sem ég nefndi áðan.