10.04.1931
Neðri deild: 43. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í C-deild Alþingistíðinda. (1323)

32. mál, ræktunarsamþykktir

Halldór Stefánsson:

Það hefir að vísu verið minnzt á það áður í hv. d., að það væri gengið af nærri eignarréttinum með ákvæði 14. gr. frv., en ég held, að þetta ákvæði sé fullkomlega sambærilegt við önnur ákvæði, er sett hafa verið fyrr. Hér er ekki um það að ræða að taka eignarrétt af jarðeigendum og ekki umráðarétt heldur. Hér er aðeins ákveðið, að ábúendur jarða megi ganga að samkomulagi um ræktunarsamþykktir og annað ekki. Það er vitanlegt, að með öllum samþykktalögum er gengið að nokkru leyti á ráðstöfunarrétt þeirra, sem verða í minni hl.

Ég hefi ekkert, út af fyrir sig, á móti hinni skrifl. brtt hv. 1. þm. S.-M. Þó býst ég við, að hún yrði allerfið í framkvæmd. Yrði oft erfitt að ná til jarðeigenda, og gætu þeir, ef vildu, staðið í götu þess, að hægt væri að gera ræktunarsamþykktir. Hygg ég því, að það fyrirkomulag sé allmiklum annmörkum háð.

Ég hefi tekið eftir því, að í vatnalögunum eru ákvæði, sem mér finnst eigi síður ganga nærri stjskr. heldur en ákvæði 14. gr. þessa frv., er ég bar ákvæði þessi saman, og slíkar ráðstafanir má finna víða í lögum. Ég sé því enga þörf á að ganga að skrifl. brtt. þótt ég kjósi heldur að miðla málum en að frv. falli. í Ed. er líka tækifæri til þess að athuga þetta nánar.