10.04.1931
Neðri deild: 43. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í C-deild Alþingistíðinda. (1325)

32. mál, ræktunarsamþykktir

Pétur Ottesen:

Ég verð að taka undir það, sem hv. 2 þm. Skagf. sagði við 2. umr. þessa máls, að það gæti brugðið til beggja vona, hvort nokkur verulegur árangur yrði af samþykkt slíks frv. sem þessa, og að það væri mjög undir hælinn lagt, hvort hinum góða tilgangi, er í frv. felst, yrði náð. Ég held einnig, að fullar horfur séu á því, að lítið verði úr jarðræktarframkvæmdum á þeim grundvelli, sem hér er lagt til.

Ég ætla ekki að fara að ræða einstakar gr. frv. Ég stóð aðallega upp til þess að vekja athygli hv. dm. á ákvæðum 11. gr. frv. Vildi ég gera fyrirspurn til hv. flm. og hv. frsm. um það, hvort þeir hafi athugað í þessu sambandi, að til eru gjafajarðir, gefnar í guðsþakkarskyni, hinar svonefndu kristfjárjarðir, sem svo er ákveðið um, að afgjaldi þeirra skuli varið til uppeldis munaðarlausra barna eða til fátækra ekkna o. s. frv. Mér skilst á frv., að þar sé gert ráð fyrir því, að leggja megi löghald á afgjald af slíkum jörðum upp í ræktunarkostnaðinn. Ég held, að með þessu sé verið að brjóta, í lengri eða skemmri tíma, á móti þeim ákvæðum gjafabréfanna, að munaðarlaus börn og ekkjur eða aðrir einstæðingar skuli hafa uppeldi af afgjaldi slíkra gjafajarða. Mér finnst mjög varhugavert að setja löggjöf, sem komi í veg fyrir, að hin lofsverða viðleitni þeirra manna, sem verja eigum sínum í svo góðum og göfugum tilgangi, geti náðst.

Ég vil mælast til þess, að þetta atriði sé tekið til rækilegrar athugunar.

Hvað brtt. hv. 1. þm. S.-M. viðvíkur, þá er ég sammála honum um það, að þau ákvæði 14. gr. frv. að ganga algerlega fram hjá jarðeigendum, séu alveg óhæf. Álít ég, að brtt. þessi sé nauðsynleg og sjálfsögð, ef frv. á að verða að lögum.