11.04.1931
Neðri deild: 44. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í C-deild Alþingistíðinda. (1339)

35. mál, lendingarbætur á Eyrarbakka

Frsm. meiri hl. (Benedikt Sveinsson):

Máli því, sem hér liggur fyrir, var vísað til sjútvn. á sínum tíma. Var það tekið til umr. á mörgum fundum n. og rætt og athugað gaumgæfilega. Svo var og um þau skjöl, er fyrir lágu, en að auki var ýmissa þeirra upplýsinga leitað, er búast mátti við, að orðið gætu til fyllri skilnings á málinu. Þau einu skjöl, er fyrir lágu, eru öll viðvíkjandi fyrirhleðslugarði, sem ætlazt er til, að hlaðinn verði austan mynnis Ölfusár. Á sá garður að bægja því, að sandframburður úr ánni berist austur með landi og valdi skemmdum á lendingum Eyrarbakka. Verkfræðingur sá, er fyrir réð um mælinguna, Thorvald Krabbe vitamálastjóri, kom á fund nefndarinnar. Skýrði hann málið út í hörgul og uppdrátt þann, er hann hafði gera látið af þessum stað. Benti hann n. á og sagði berum orðum, að hann vildi alls eigi ábyrgjast, að þessi garður mundi nægja til að bægja sandframburði frá skipalegunni á Eyrarbakka, heldur væri þetta eingöngu tilraun, sem gera mætti sér meiri eða minni vonir um, að næði tilgangi sínum. En hann benti n. skilmerkilega á það, að í frv. væri farið fram á miklu víðtækari mannvirki en hleðslu þessa garðs. Um það kvaðst hann ekkert geta sagt, þar sem með öllu væri órannsakað allt, er að slíkum mannvirkjum lyti. Um það verk hefir engin áætlun verið gerð. Eftir þeim skjölum, er fyrir lágu, er það ljóst, að einungis hefir verið gerð athugun um þann fyrirhleðslugarð, sem bægja á straumnum að bera sand úr Ölfusá austur með landinu. En um víðtækari hafnarbót, sem þó er gert ráð fyrir í frv., hefir engin athugun verið gerð, svo sem þegar er sagt. N. leit því svo á, að þar sem frv. færi fram á miklu víðtækari umbætur en gerð hefði verið athugun um, þá væri málið ekki svo undirbúið, að hægt væri að ráða hv. d. til að samþykkja það að þessu sinni.

Það er engin ástæða til að spá neinu um það, hvort áætlun sú, sem gerð hefir verið um þennan garð, muni reynast rétt. Reynslan ein getur sýnt, hvort hann kemur að tilætluðum notum. Strönd þessi liggur fyrir opnu reginhafi. Er því augIjóst, að garðurinn þarf að vera ákaflega traustur til að standast hið sterka hafrót og straum árinnar. Ætlazt er til, að garðurinn verði mjög lágur og með miklum fláa. Gengur því sjór og vatn auðveldlega yfir hann í flóðum. Er því harla ósýnt, hversu hann hamli sandburði. Verkfræðingur segir að vísu að hækka megi garðinn síðar, en engin áætlun liggur fyrir um það, hvað hækkun sú muni kosta. — Enda er það skýrt tekið fram af vitamálastjóra, að engar áætlanir um frekari aðgerðir hafi gerðar verið. Eigi að síður var það ætlan hans, að dýpka mætti leguna á Eyrarbakka, svo að smáskip og bátar geti legið þar. Þykir n. rétt, að þetta allt sé betur athugað.

N. athugaði í sambandi við undirbúning þessa máls lög þau, sem sett voru um lendingarbætur í Þorlákshöfn fyrir þremur árum. Við samanburð á undirbúningi þessara mála varð n. það ljósara, hve mjög nú skortir á undirbúning þessa máls. Þar höfðu um fjallað verkfræðingar, hvor af öðrum, nefnd Fiskifélags Íslands, sýslunefnd Árnessýslu, landsstjórn vor og allir þessir aðiljar, ýmist hver um sig eða í meiri eða minni samvinnu, eftir því sem verða mátti. En hér brestur allt slíkt. Er því rétt að láta fram fara nánari athugun og undirbúning á þessum hafnarbótum og samþ. ekki lög um það efni fyrr en lokið er þeirri athugun.

Sá undirbúningur, er ég nú gat um, mun hafa hafizt 1913, og þá voru veittar 1000 kr. til þess að gerðar yrðu mælingar og áætlanir um það, hvað mannvirki þau mundu kosta, sem þar yrði í ráðizt. Fiskifélag Íslands hafði þá þetta mál með höndum, og var Jón Þorláksson verkfræðingur fenginn til þess að athuga þetta verk. Gerði hann um það áætlun 1914 og gaf Fiskifélaginu skýrslu. Félagið hafði svo þetta mál með höndum um mörg ár, og einkum var mikill áhugi fyrir því þar eystra, enda hefir Þorlákshöfn verið talin nokkurskonar þrautalending fyrir þá, er sjó sækja frá Stokkseyri og Eyrarbakka og öðrum verstöðvum austur þar. Fyrir því voru færð mikil gögn, að brýna nauðsyn bæri til þess, að lending þar yrði bætt sem bráðast. Það mun jafnvel hafa verið fyrr, eða 1909, að sýslunefndir Árnes- og Rangárvallasýslna gerðu kröfu um, að mælingar færi fram um lendingabætur í Þorlákshöfn, og sama ár athugaði Thorvald Krabbe hafnarstæði á þeim stað.

Þessum rannsóknum hefir svo verið haldið áfram síðan, meira og minna. Jón Þorláksson gerði áætlun um, hvað vélbátastöð í Þorlákshöfn mundi kosta, og 1919 var málið enn vakið upp og fenginn nýr verkfræðingur útlendur, Kirk að nafni; gerði hann áætlun um fullkomna höfn þar, sein hlyti að verða dýrari en eftir áætlun Jóns Þorlákssonar, enda sniðin eftir öðrum mælikvarða. — Árið 1921 gefur svo Thorvald Krabbe skýrslur um mannvirkin 1920–21 og skýrir frá báðum þessum áætlunum, sem gerðar höfðu verið.

Sérstök nefnd hafði tekið þetta mál í sínar hendur og athugað það, og hélt hún fastlega fram, að undirbúningur væri framinn svo vel, að hægt væri að hefja verkið sem fyrst.

Nú leið nokkur tími og Jón Þorláksson var enn fenginn til þess að gera endurskoðun á sínum fyrri verkum í þessum efnum, og eftir allar þessar mörgu kostnaðaráætlanir, sem hver verkfræðingurinn af öðrum hafði í 20 ár fengizt við, var loks borið fram frv., er náði fram að ganga á Alþingi 1929.

Við þennan samanburð gat nefndinni ekki annað sýnzt, en að hér væri æði mikill munur á. Hér liggur aðeins fyrir álit og áætlun um þennan eina fyrirhleðslugarð, en ekki minnsta áætlun um, hvað lendingarbætur á Eyrarbakka skyldu ella kosta. — Nú er n. í sjálfu sér mjög hlynnt því, að þetta fyrirtæki komist á, svo framarlega sem gagngerður undirbúningur fer fram, er sýni, hve mikið verkið muni kosta og að hve miklum notum það muni koma.

Það liggur heldur ekki ljóst fyrir, hvort þetta skuli réttara nefnast hafnarbætur eða lendingarbætur, en þó veltur einmitt á því, hversu veita skuli mikið fé hlutfallslega úr ríkissjóði, því að til hafnarbóta er venjulega lagt meira fé að hlutfalli en til lendingarbóta.

N. skilst, að ekki sé tilætlun flm., að þetta mannvirki komist í framkvæmd svo brátt, að lagt verði út í neinar verklegar framkvæmdir á þessu ári. Og þar sem, hvort eð er, virðist ekki ætlazt til neinna bráðra framkvæmda, þá óskar n. heldur eftir því, að málið sé ekki afgr. á þessu þingi, heldur sé nú gerðar frekari rannsóknir, til þess að málið í heild sinni liggi sem skýrast fyrir, ekki einungis sýslubúum allrar Árnessýslu, sem hér eiga að takast á hendur stórar ábyrgðir og útgjöld, heldur og sjálfu Alþingi, svo að það renni eigi blint í sjóinn með fjárveiting sinni.

Á þennan hátt ber að skilja þá rökstuddu dagskrá, sem n. hefir leyft sér að bera fram og er svo hljóðandi:

„Þar sem deildin telur þetta mál eigi nægilega undirbúið til fullnaðarúrslita, tekur hún fyrir næsta mál á dagskrá“.

En eins og ég hefi ljóslega tekið fram, er þetta ekki til þess að hnekkja framgangi málsins til frambúðar, heldur til þess að þingið geti með betri samvizku ráðizt í að setja slík lög.