11.04.1931
Neðri deild: 44. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í C-deild Alþingistíðinda. (1346)

35. mál, lendingarbætur á Eyrarbakka

Einar Jónsson:

Ég hefi venjulega álitið það skyldu mína að vera samtaka hv. þm. Arn. um öll hagsmuna- og nauðsynjamál Suðurlandsundirlendisins. En það er nokkuð vafasamt, að ég geti verið þeim sammála um þetta mál.

Þó að öllum hv. þm. sé það kunnugt, að hin mesta þörf er á að bæta samgöngur austanhéraðanna, þá er efasamt, hvort hægt er að fara þá leið, að bæta samgöngurnar jafnhliða á sjó og á landi. Hér hefir verið á ferðinni frv. um nýjan veg austur. Geti hæstv. stj. bæði gert lendingarbæturnar og lagt hinn nýja veg, þá er það auðvitað ágætt. En verði lendingarbæturnar á Eyrarbakka samþ., svo ótryggar sem þær eru, og þær kæmu í bága við lagningu vegarins, þá efast ég ekkert um, að betra væri að sleppa lendingarbótunum og fá veginn.

Get ég því helzt fellt mig við rökstuddu dagskrána á þskj. 225.

Hv. þm. eru mikið að tala um, að byggja þurfi mannvirki vegna sandburðarins austur frá ósnum. Ég fyrir mitt leyti er viss um, að það er skerjagarðurinn, sem mest háir á þessum stað og hann þyrfti því að sprengja. En það er mjög hæpið og dýrt verk, þó að það mætti takast með miklu fé að framkvæma það. Eins og hv. þm. N.-Þ. (BSv) hefir tekið eftir, þótt ekki sé hann kunnugur þar eystra, þá er brimið hættulegra öllum vörnum þar en sandburðurinn. Hamfarir brimrótsins eru þar svo stórkostlegar, að ekki er gott að segja, hverju þær megi áorka. Hafi ríkið efni á að reyna að gera þarna umbætur, þá er það ágætt, en eins og ég hefi áður sagt, mun ég halla mér að rökstuddu dagskránni, þangað til ég sé, hvernig umr. falla um málið.

Það hlýtur að vera öllum ljóst, að þörfin á bættum samgöngum við austursveitirnar er mjög brýn. Má í því sambandi benda á allt það fé, sem ríkið hefir lagt fram til Árnessýslu, til mjólkurbúa, áveita o. s. frv. Þessi fyrirtæki krefjast þess, að samgöngurnar verði bættar sem allra fyrst, annars er því fé, sem lagt hefir verið til þeirra, á glæ kastað. Skal ég þessu til stuðnings nefna átakanlegt dæmi frá því í vetur. Hinn 13. febr. var nýbúið að moka snjó af veginum austur, svo að fært var um hann. En hinn 14. skóf svo snjó niður í allar traðir og tepptust þá allar samgöngur við mjólkurbúin í tvo daga. Þessi samgönguteppa kostaði mjólkurbúin geysimikið fé í þessa tvo daga. Sýnir þetta glöggt, hvílík þörf er á samgöngubótum við austursveitirnar.

Ég held, að lendingarbæturnar séu ekki svo vel undirbúnar sem skyldi og álít ég því, að rökstudda dagskráin sé mjög sanngjörn í þetta sinn. Ég vil þó siður en svo spilla fyrir þessum umbótum, en ég get ekki gengið fram hjá líkingu þessa fyrirhugaða verks og brimbrjótsins í Bolungavík. Eru þessi mál mjög sambærileg, því að aðstaðan á Eyrarbakka er mjög erfið, engu síður en í Bolungavík, og er það ekki aðallega vegna sandburðarins, heldur fyrst og fremst vegna skerjanna og brimrótsins.

Ég efast um, að hægt verði að koma þessu máli verulega áleiðis, nema með ærnum tilkostnaði. Ég er hræddur um, að 20 þús. kr. mundu hrökkva skammt til þess að gera nauðsynlegar og varanlegar umbætur á Eyrarbakka. Ætti heldur að verja þessu fé til vegarins og þó helzt til járnbrautar, sem ég er sannfærður um, að yrði langbezta lausnin á samgöngumálum okkar, sem búum fyrir austan fjall.

Ég mun því halda mér við dagskrána, eins og ég hefi áður sagt og vona ég, að hv. þm. Árn. skoði það ekki svo, að ég sé að leggja stein í götu þessa máls.