11.04.1931
Neðri deild: 44. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í C-deild Alþingistíðinda. (1353)

35. mál, lendingarbætur á Eyrarbakka

Magnús Torfason:

Ég hugði, að hv. 1. þm. Rang. væri ekki búinn að gleyma því, að ég veitti minn stuðning til að Rangárvallasýslu væri gefinn eftir vegaviðhaldskostnaðurinn og einmitt á þessu sama þingi, sem ég nefndi. En hitt er satt, að ég var á móti till., eins og hún var fyrst borin fram. Það var líka ég, sem átti þá símtal við sýslumanninn í Rangárvallasýslu og vildi hann ekki sinna till., eins og hún var fram borin. Um það átti ég einnig tal við báða hv. þm. Rang. og benti þeim á að lækka upphæðina. En þeir sátu fastir við sinn keip og till. féll. Enda var engin ástæða til, að Rangárvallasýsla fengi hærri upphæð eftirgefna að tiltölu en Árnessýsla. Þegar svo upphæðin var lækkuð greiddi ég henni atkvæði og hélt ég að við skildum þar með sáttir að viðskiptum, hv. 1. þm. Rang. og ég. Öðru þarf ég ekki að svara honum um þetta atriði. Hann telur þá höfninni á Eyrarbakka bezt borgið, þegar þar er kominn ægisandur fram í skerjagarð, eins og fyrir allri Rangárvallasýslu. Kemur þar fram jafnaðarstefna í honum, hrein og ómenguð.

Hv. frsm. meiri hl. tók að nokkru leyti í sama streng, en þó ekki með jafnmikilli fjarstæðu. En vitanlega verður að færa þeim til afsökunar, að báðir eru jafn ókunnugir á staðnum og ekki að vænta, að þeir geti byggt álit sitt og till. á þeim rökum, sem gild verði talin. í því efni skal bent á, að fyrir austan eystri leguna er skerjagarður þvert fyrir, er stöðvar sandburðinn, og kennir þar ókunnugleika þeirra á staðháttum.