11.04.1931
Neðri deild: 44. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í C-deild Alþingistíðinda. (1354)

35. mál, lendingarbætur á Eyrarbakka

Hákon Kristófersson [óyfirl.]:

Ég tek ekki til máls vegna þess að mér finnist að hjálpa þurfi hv. frsm. meiri hl. n., enda hefir ekki verið hrakið neitt af því, sem hann hefir sagt fyrir nefndarinnar hönd.

En mér hefir verið tjáð, að frsm. minni hl., hv. 4. þm. Reykv., hafi sagt áðan, að sú leið, sem valin hefir verið um afgr. þessa máls af meiri hl. n., mundi ekki hafa verið farin að vilja hv. frsm. meiri hl., heldur hafi annar nefndarmaður ráðið þar mestu um. (SÁÓ: Ekki var það nú orðað svo). En ef ekki er raskað efni, er sama máli að gegna, og verð ég því að álíta, að getsökum þessum hafi verið beint til annars hvors okkar, hv. þm. Vestm. eða mín. En sá, sem sagði mér þetta, segir að orðum þessum hafi verið sérstaklega beint að mínu sæti og þess vegna fannst mér ástæða að taka til máls.

Ég man nú ekki gerla, hvernig þessu var háttað, þegar n. tók þetta mál til meðferðar, en þó vil ég undanfella mig því, að hafa átt frekar í þessari till. en aðrir meðnefndarmenn mínir.

En ef taka á orð hv. 4. þm. Reykv., sem ekki var á þessum fundum, trúanleg, vill hann þá halda því fram, að mín till. hafi haft þann kraft, að ég hafi getað teymt þá hv. þm. N.-Þ. og hv. þm. Vestm. án vilja þeirra? Nú skal ég að gefnu tilefni lýsa yfir því, að eftir að n. hafði heyrt till. vitamálastjóra og athugað þau gögn, sem fyrir lágu, þá gat hún ekki annað en lýst yfir, að undirbúningur málsins væri ekki nógu góður til þess að hún treysti sér að mæla með því, að frv. yrði að lögum á þessu þingi, og skal það ennfremur tekið fram, að dagskrártill. meiri hl. er alls ekki fram komin af neinum illvilja til málsins. Frv. er, sem sagt, ekkert annað en léleg uppskrift af Þorlákshafnarlögunum, en það mál var á sínum tíma betur undirbúið en hafnarbætur þær, sem frv. þetta gerir ráð fyrir. Ég held því, að það verði að byggjast á einhverjum dularfullum ástæðum, ef beina á til mín, að ég hafi lokkað meiri hl. til þess að afgr. málið á þann hátt, sem lagt er til.

Hv. 2. þm. Árn., sem er aðalflm. þessa máls, segir í „leiðréttingu“ sinni á þskj. 253 við nál. meiri hl., þessu makalausa skjali, sem ég minnist ekki að hafa séð áður á þingi, því að flm. máls hafa hingað til látið sér nægja, að bera fram leiðréttingar sínar í heyranda hljóði í deildinni, að Landsbankinn eigi landið, en minnist ekkert á það, hve mikið hann muni leggja fram til mannvirkjanna. Landsbankinn ætti þó að geta lagt eitthvað fram. (MT: Hv. þm. getur verið viss um, að hann gerir það). — Já, ég tek trúanleg orð hv. þm. En fallvalt er veraldarlán og vil ég þá segja, að þar sem ekki liggur fyrir yfirlýsing frá þessum aðilja um fé til mannvirkjanna, þá verður heldur ekkert á því byggt, hvers vænta megi.

Mér er sagt, að mikill áhugi sé fyrir þessu máli á Eyrarbakka og furðar mig sízt á því. En hér á við sem víðar: „Varðar mest til allra orða, að undirstaðan rétt sé fundin“.

Hv. 2. þm. Árn. segist hafa talað við vitamálastjóra og fengið hjá honum aðrar upplýsingar en meiri hl. n. fékk hjá þessum sama manni. Þó vill hann ekki gefa í skyn, að meiri hl. hafi rangfært umsögn vitamálastjóra, enda var hv. þm. mjög kurteis og orðaði þetta fallega. Hann fór líka góðum orðum um vin minn, Finnboga Rút verkfræðing, og er ég honum þakklátur fyrir, því að Rút þekki ég vel og að góðu einu. (SÁÓ: Honum má trúal). Já, honum má trúa, það er víst og satt, og vil ég þar með undirstrika það, sem báðir þessir hv. þm. hafa sagt um þennan unga heiðursmann.

Ég talaði við Rút, og hann viðurkenndi, að sig vantaði nægilegar upplýsingar til þess að geta ráðið til, hvað gera skuli. Enda fór hv. 2. þm. Árn. mjög gætilega með þau orð, sem hann hafði eftir Rúti, eins og hans var líka von og vísa, — sagði aðeins, að Rútur hefði ekkert dregið úr þessu.

Þegar meiri hl. fór þessa leið um afgr. málsins, sem nál. á þskj. 225 sýnir, þá gerðum við það með ráðnum hug. Við vildum ekki rasa að neinu, heldur taka málið upp aftur, þegar vel er til þess vandað og á þeim grundvelli, sem hagkvæmast er fyrir alla. (MT: Þ. e. a. s.: hengja málið upp á snaga). Ekki vil ég nú orða það svo, enda hefir þetta tíðkast um mörg mál, og hv. þm. sjálfur borið fram slíkar till. Ég get ekki skilið, að það sé að hengja mál upp á snaga, þó að þm. af góðum hug til þess vilji freista að fá það sem bezt undirbúið.

Ef hv. d. álítur dagskrártill. meiri hl. óframbærilega, þá hlýtur hún að hníga að öðru ráði og samþ. þá frv. eins og það liggur fyrir.