25.02.1931
Neðri deild: 9. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í C-deild Alþingistíðinda. (1358)

38. mál, hafnargerð á Akranesi

Flm. (Pétur Ottesen):

Þetta frv. er flutt í sama formi og ég bar það fram í Nd. á síðasta þingi, og eins og hún gekk frá því. En eins og kunnugt er, dagaði það ásamt öðrum hliðstæðum frv. uppi í Ed.

Ég gerði í fyrra grein fyrir, hvaða ástæður lægju því til grundvallar, að þetta frv. er fram komið, og ég mun ekki fara út í það nú nokkru nánar. Ég vil aðeins benda á það, að það, sem knýr svo á um framkvæmd þessa verks, er, að allur útvegur kauptúnsins, sem er 20 stórir vélbátar, er í mikilli hættu staddur á bátalegunni, þegar stórbrim er og útsynningur. Og í öðru lagi er það, að sá hluti útgerðarinnar á Akranesi, sem rekinn er með gufu-línuveiðiskipum, hefir ekki aðstöðu til að leggja aflann á land á Akranesi, og verður því að leggja upp á öðrum stöðum, svo sem hér í Reykjavík og í Hafnarfirði. Það er ekki hægt, nema þegar góð veður eru og brimlítið, að skipa upp í Krossvík.

Þegar stórbrim kemur upp á, meðan bátar eru í róðri, geta þeir oft ekki komizt inn í bátalegur og verða þess vegna að leita nauðhafnar annarsstaðar, í Reykjavík eða í Hafnarfirði, því að um aðrar öruggar hafnir á næstunni er ekki að ræða.

Ennfremur skortir mjög á, eins og nú er, að bátar hafi aðstöðu til þess að leggja aflann á land eins fljótt og nauðsyn krefur, því að það er aðeins ein bryggja, sem þessi skipastóll getur lagt aflann á land við. Þegar lágt er í sjó, fljóta þar í mesta lagi tveir bátar í einu, en þegar hásjávað er, geta komizt þar fjórir að. En eins og áður er frá skýrt, eru á Akranesi yfir 20 bátar. — Nú er það svo í samþykktum þeirra þar, að allir bátar róa á sama tíma og koma því að landi um mjög svipað leyti. Þess vegna tekur það langan tíma fyrir bátana að fá nauðsynlega aðbúð, og það hefir komið fyrir oftar en einu sinni á þessari vertíð, að seinustu bátarnir hafa tapað af róðri næsta dag, vegna þess hve seint þeir fengust afgreiddir.

Það er þetta með öðrum ástæðum, sem hefir knúð þá til að ráðast þegar í framkvæmd, þótt ekki hefðu enn fengizt samþ. hafnarlög fyrir staðinn. Á síðastliðnu vori var byrjað á þessu verki, og því hefir skilað það áfram í sumar, að búið er að byggja 72 metra langan garð, auk þess sem mikið hefir verið unnið að umbúnaði í landi, svo sem að slétta klappir o. fl.

Það er í raun og veru ósköp lítið, sem ennþá hefir unnizt með þessari byrjun. Það er aðeins þegar kyrrt er í sjó, að stærri bátar geta lagzt að, og verða þeir þá að leggjast þvert fyrir endann á garðinum. Þess vegna veitir hann ekkert hlé og notin eru bundin við það, að logn sé og ládeyða.

Tvö gufu-línuveiðiskip frá Akranesi fluttu ísfisk til Englands í vetur, og í 2–3 skipti gátu þau lagzt að garðinum og skipað þar upp kolum. Suðurlandið hefir líka getað lagzt þarna upp að í tvö eða þrjú skipti.

Þetta, sem búið er að gera, kostaði 120 þús. kr., og kauptúnsbúar hafa alveg orðið að standa straum af því. Það, sem unnið hefir verið, er allt gert eftir uppdráttum og áætlunum frá vitamálastjóraskrifstofunni, og hefir Finnbogi R. Þorvaldsson séð um verkið. Ég vil geta þess, að kostnaðurinn varð nokkuð neðan við það, sem verkfræðingurinn hafði áætlað.

Hver viðbót, sem gerð er við garðinn, veitir þegar nokkurt hlé fyrir stormum og brimi, þannig að þótt ekki væri um mikla viðbót að ræða, greiðir hún töluvert úr þeim vandræðum, sem eru við afgreiðslu báta.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta mál, en ég vil beina þeim tilmælum til sjútvn., sem ég geri ráð fyrir að fái málið til meðferðar, að hún bregðist vel við því og afgreiði það fljótt inn í deildina, eins og ég vona og óska, að þingið vikist vel við þessu máli og það fái hér skjóta afgreiðslu.