11.04.1931
Neðri deild: 44. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í C-deild Alþingistíðinda. (1376)

38. mál, hafnargerð á Akranesi

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Það varð að samkomulagi við 2. umr. að geyma til 3. umr. ágreining þann, sem er á milli meiri og minni hl. sjútvn. um tillög til þessarar hafnargerðar. Öll nefndin er á einu máli um það, að styrkja beri hafnargerð á Akranesi. Ágreiningurinn er um það, eins og álit nefndarhlutanna bera með sér, hve miklum hluta! kostnaðar ríkissjóðsstyrkurinn skuli nema.

Þetta mál var flutt hér í fyrra af hv. þm. Borgf., og var grg. hans þá svo ítarleg, að ekki er þörf á að endurtaka hana nú. Fullt útlit var fyrir, að málið næði samþykki síðasta þings, en það varð ekki útrætt sem kunnugt er. En þá hófust Akurnesingar sjálfir handa og hafa þegar gert mikið mannvirki, sem er byrjun á varnargarði fyrir væntanlega bátahöfn í Krossvík. Sjútvn. hefir átt kost á að kynna sér þetta mannvirki og alla aðstöðu þar efra. Nefndin fór upp á Akranes til að kynna sér byggðarlagið, útveginn og þessa byrjun á hafnargerðinni. Það var einróma álit allra nm., að hér væri um hið mesta framtíðarpláss að ræða, ef aðstaða væri bætt. Það er kunnugt, að í fyrra nam fiskútflutningur frá Akranesi 11 þús. skippundum. Fyrir páska frétti ég, að meiri afli væri kominn þar á land nú, og hefir þó eigi nema annar gufubáturinn, sem gerður er út þaðan, lagt þar upp. Í stuttu máli sagt hefir Akranes verið eitt hið allra blómlegasta pláss undanfarin ár hér sunnanlands, og þótt viðar væri leitað. Það er einnig talandi vottur um þrótt og dugnað íbúanna, að þeir skyldu sjálfir hefjast handa og reisa 1/3 varnargarðsins, enda þótt frv. næði ekki samþykki þingsins í fyrra. Það er augljóst, að þegar þessi garður er fullbyggður, er komin hin bezta höfn fyrir alla vélbáta. Þeir eru þar í ágætu skjóli fyrir sunnan og suðaustanátt, og um það er mest vert þar; þar eru aðaláttirnar. Það virðist því ekkert áhorfsmál að styrkja þá viðleitni, sem Akurnesingar hafa sjálfir sýnt í verkinu. Einkum virðist þetta sjálfsagt, þegar tekið er tillit til atkvgr. í næsta máli hér á undan. Úr því að menn sjá sér fært að eyða svo miklu fé til hafnarbóta á þeim stað, þar sem aflabrögð eru lítil, ættu menn ekki að skera slík fjárframlög við neglur sér þar, sem um mikinn afla og ágæt framtíðarskilyrði er að ræða og hafnarbæturnar hafa fljót og góð áhrif á framleiðsluna. Ríkissjóður hefir aðaltekjur sínar af sjávarframleiðslunni, og hann hefir mesta von um endurgreiðslu á því fé, sem lagt er fram til hafnarbóta í efnilegustu framleiðsluplássunum.

Þá vík ég að ágreiningnum um tillagið. Meiri hl. vill fallast á að veita 2/5 hluta, gegn 3/5 frá hafnarsjóði Akraness, en minni hl. vill veita 1/3 gegn 2/3. Við, sem erum í meiri hl., höfðum það fyrir augum, sem áður hefir átt sér stað um önnur hafnarmannvirki hér á landi, einkum um hafnargerðina á Skagaströnd. Á þinginu 1929 var samþ., að ríkissjóður legði fram 2/5 kostnaðar og ábyrgðist ennfremur 350 þús., sem sýslan átti að leggja fram. Og þó var gert fyrir miklu ríflegra framlagi úr ríkissjóði í frv. því, er stj. flutti. Stj. leit svo á, að rétt væri að styrkja þessa hafnargerð að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu með láni úr viðlagasjóði. Hér hefir ef til vill verið of langt gengið, enda breytti Ed. þessu í 2/5 á móti 3/5, og þar við sat, því að brtt. í Nd., um að færa tillag ríkissjóðs niður í 1/3, var felld. Ég hefi drepið á gang þessa máls til að sýna, að þingið virðist hafa velt því vandlega fyrir sér, hvað það teldi hæfilegt, að ríkissjóður legði fram til slíkra mannvirkja. Ég lít svo á, að niðurstaða þingsins 1929 og aðstaða stj. marki nokkra stefnubreytingu um það, hvaða upphæð sé rétt að leggja fram af ríkisins hálfu. Fyrri þing hafa ekki gengið svo langt. Þannig var framlagið til Reykjavíkurhafnar 1/4, og til hafnargerðar í Vestmannaeyjum var framlagið ávallt miðað við 1/4 frá 1913–1923, en hinn hlutann var hafnarsjóði ætlað að bera. En það hefir sýnt sig í Vestmannaeyjum, og myndi sýna sig víðar, að þetta er allt of lítið, þar sem um dýrar hafnargerðir er að ræða, sem kosta hundruð þúsunda eða jafnvel milljónir kr. Greiðslur á vinnulaunum og efni verða að fara fram löngu áður en hafnarmannvirkin eru farin að gefa nokkurn arð. Stefnubreytingin 1929 hefir ef til vill komið af því, að þá var ljóst, hvað hlytist af því fyrir ríkissjóð, ef slík framlög væru skorin við neglur sér í upphafi. Héruðin geta ekki risið undir sínum hluta af byrðinni og ríkissjóður verður að taka hana á sig. Reynslan hefir sýnt, að það var rétt stefna, sem tekin var 1929, að ákveða framlögin svo ríflega úr ríkissjóði, en svo hóflega úr hafnarsjóði, að við það verði staðið.

Ég hefi þá lýst afstöðu meiri hl. til þessa frv. og þeim ágreiningi, sem er á milli meiri og minni hl. um framlag úr ríkissjóði. Hinsvegar er enginn ágreiningur um það, að málið eigi fram að ganga, eins og bæði nál. bera með sér.