11.04.1931
Neðri deild: 44. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í C-deild Alþingistíðinda. (1379)

38. mál, hafnargerð á Akranesi

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Ræða hv. frsm. minni hl. gefur í raun og veru ekki tilefni til langra andsvara. Hann hefir kannazt við og staðfest ummæli manna og álit um nauðsyn þessa fyrirtækis, og er því óþarfi að orðlengja um það. Einungis eru það nokkur ágreiningsatriði, sem ég vildi minnast á.

Hv. frsm. minni hl. vildi halda því fram að fjárveiting til hafnargerðar á Skagaströnd væri ekki stefnubreyting, heldur væri um undantekning að ræða, þar eð skoða mætti þá höfn sem neyðarlendingu fyrir miklu stærra svæði en Skagaströnd. Um þetta atriði vil ég þó ekki deila við hv. 1. þm. S.-M., og hverjir hafi afnot af þessari höfn, þar eð ég geri ráð fyrir, að hann sé kunnugri staðháttum en ég. En það haggar ekki neinu, hverjir nota höfnina; svo fremi ríkissjóður tekur þátt í kostnaðinum, þá er það gert með tilliti til sterkrar þarfar þess landshluta eða kaupstaðar, sem í hlut á, og í báðum tilfellum hlýtur það að verða alþjóð heillavænlegt.

Ég hefi nú ekki minnzt á annað fordæmi en Skagaströnd, en vil í þessu sambandi benda á Borgarneshöfn. Það á að vísu aðeins að heita bryggja, sem þar var gerð. En ég vona, að hv. frsm. minni hl. kannist við, að það skipti ekki miklu máli, hvort þessar umbætur og framkvæmdir eru nefndar lendingarbætur, bryggjugerðir eða hafnarbætur.

Ég vil benda hv. frsm. minni hl. á það, að ríkið styrkti aðeins um 1/4 kostnaðar t. d. Reykjavík 1911 og Vestmannaeyjar 1913. Það var rétt hjá honum, að Rvík þurfti ekki meira. En eins og reynslan hefir sýnt, risu Vestmannaeyjabúar eigi undir því að greiða þann hluta kostnaðarins, er þeim var ætlaður. Að vísu hafa Vestmannaeyjar fengið fé til hafnarbóta síðan, en aðalfjárveitingin og ríkisábyrgðin var samkv. l. 1913. Þær fjárveitingar, sem síðan hafa komið, hafa orðið smærri, veittar samkv. sérstökum lögum. En það sannar ekki, að ekki hafi verið þörf meiri fjárveitingar. Ég hefi áður lýst yfir því, að Vestmannaeyjar hafi orðið að leggja meira á sig í þessu efni en nokkur annar staður á landinu. Annars er það nú ekki til umr. hér. Þegar benda má á tvenn dæmi þess, að þingið álítur rétt að láta meira, þá sést, að staðhæfing hv. frsm. minni hl. um, að Skagaströnd sé undantekning, er ekki rétt, þegar þess er gætt, að stj. leggur sjálf til, að hækkuð séu tillög og ríkisstyrkir til slíkra framkvæmda. Að öllu þessu athuguðu vil ég ekki kannast við, að það hafi verið ofmælt hjá mér, að stefnubreyting hafi átt sér stað í þessu efni hjá Alþ. 1929.

Hv. frsm. minni hl. tók sérstaklega fram, hve rösklega og drengilega íbúar Akraness hafi gengið fram til þessa verks. Allir hljóta að kannast við það, þegar þeir lita á mannvirkin á Akranesi, að þau eru eins og sýnilegt tákn þess framtaks og dugnaðar, sem einkennir Akurnesinga. Þau eru eins og útrétt hönd frá einu efnilegasta fiskiveri þessa lands, hönd, sem við hér á þingi verðum að taka jafnfast og drengilega í og hún er rösklega útrétt.

Hv. frsm. minni hl. lét svo um mælt, að tekjuvon væri þetta ekki mikil fyrir ríkissjóð, því að komið gæti til greina brýnni þörf annara staða, þar sem enn væri hafnlaust. Ég fæ nú samt ekki séð, að annar staður sé öllu líklegri til að gefa ríkissjóði góðar og auknar tekjur vegna sinna hafnarbóta en einmitt Akranes, sem ég legg á borð við Vestmannaeyjar í þessu efni.

Þegar ríkið ætlar að takmarka eitthvað fjárframlög sín, þá má fyrst athuga það gaumgæfilega, hvort þetta geti ekki orðið til þess að draga úr möguleikunum fyrir auknum tekjum ríkissjóðs. Hér í þessu tilfelli held ég, að enginn vafi geti leikið á því, að árangurinn af styrk til hafnargerðar á Akranesi verði til aukningar tekjum ríkissjóðs.

Og ég held, að það sé ekki ofmælt, að ef höfnin á Akranesi væri bætt á þann hátt, að hún væri viðunandi fyrir bátaflotann, sem þar á heima, þá séu öll líkindi til þess, að flotinn tvöfaldist og aflinn og tekjur þjóðarinnar vaxi að sama skapi. Það má sem sé ekki missa sjónar á því, þegar ákveða á, hvert skuli veita því fé, sem ríkissjóður getur af mörkum látið til verklegra framkvæmda, hvar það muni koma að mestum notum fyrir þjóðina í heild. Ef litið er á málið frá þeirri hlið, hygg ég, að fjárveitingar til að bæta aðstöðu manna í helztu veiðistöðvum landsins, sem ríkissjóður fær árlega miklar tekjur frá, ættu að koma til greina á undan mörgum öðrum. Og mér fannst af niðurlagi ræðu hv. frsm. minni hl., að hann með sjálfum sér væri mér sammála um þetta.

Ég þarf svo ekki að hafa um þetta fleiri orð, hv. d. sker að sjálfsögðu úr, hvað hún álítur réttast í þessu máli. En ég vil undirstrika það, að með aðgerðum sínum viðvíkjandi hafnarbótum í Borgarnesi árið 1926 og viðvíkjandi hafnarbótum á Skagaströnd árið 1929, hefir þingið breytt um stefnu hvað snertir framlög til hafnarbóta. Og meðferð síðasta þings á þessu frv. og fleiri slíkum, þó þau næðu ekki endanlegri afgreiðslu, sýndi greinilega, að meiri hl. þingsins aðhylltist hina nýju stefnu, sem tekin var upp 1926.