11.04.1931
Neðri deild: 44. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í C-deild Alþingistíðinda. (1382)

38. mál, hafnargerð á Akranesi

Frsm. minni hl. (Sveinn Ólafsson):

Mér skilst á umr. um þetta mál, að þær séu og muni verða ófrjótt erfiði og árangurslítið. Ég get ekki betur séð en að málið liggi svo ljóslega fyrir öllum þm., að þeir hljóti að vera við því búnir að greiða atkv. Ég þykist þess vegna ekki þurfa að svara orði til orðs því, sem fram kom í ræðu hv. frsm. meiri hl. og flm. frv., því flest af þessu er áður sagt, sumpart á síðasta þingi og sumpart við þessa unir. Ég vil þó leyfa mér að leiðrétta örfá atriði í ræðu hv. flm. Hann heldur því sem sé fram, að á þingi 1929 hafi verið tekin upp ný stefna í afgreiðslu hafnarlagafrv. og að þeirrar stefnu hafi jafnvel gætt í eldri ákvörðunum, svo sem í ákvörðuninni um Borgarnesbryggjuna frá 1926.

Að tala um Borgarnesbryggjuna í sambandi við hafnarlög er í rauninni fjarstæða, því að þessi bryggjugerð, sem um er að ræða, er ekki annað en hluti af vegargerð, aðallega vegna vegarins norður. Þá er þetta því ekkert fordæmi um það, að framvegis sé skylt að leggja 2/3 til hafnargerða. Ég hefi tekið það fram áður, og það hafa einnig fleiri gert, að afgreiðsla hafnarlaga fyrir Skagaströnd er ekki annað en venjuleg ákvörðun um lendingarbót, þó að fyrirsögnin sé eins og hún er. Annars get ég látið vera að svara öðrum eins firrum eins og þessum. En ég vil þó að því er snertir ummæli hv. flm. um Akranes annarsvegar og Skagaströnd hinsvegar, segja það, að þessir staðir eru ekki sambærilegir. Hv. flm. vill halda því fram, að þörfin sé jafnmikil á báðum stöðunum, og þess vegna ætti að fylgja sömu stefnu um framlagið úr ríkissjóði. Munurinn er þó mikill, þegar litið er á það, að skammt frá Akranesi er góð höfn, þar sem Reykjavíkurhöfn er, en hvergi nærri Skagaströnd er höfn, sem heitið getur. Þessir 2 staðir eru því alls ekki sambærilegir. En þetta skyggir þó ekki á nauðsynina fyrir Akranes að fá höfn, sem er sjálfsögð vegna útgerðarinnar. En ekki er á Akranesi sömu lífsnauðsyn til að dreifa til bjargar sjófarendum, þegar illa stendur á, sem á Skagaströnd, þar sem Reykjavíkurhöfn er svo nálæg. Þess verð ég að minnast í sambandi við þetta hafnarlagafrv. og önnur, sem fyrir liggja, að þó þau verði að lögum, er ekki líkt því lokið þeim hafnargerðum, sem verður að gera. Fjöldi staða mundi koma með óskir um hafnargerðir, og sumstaðar svo aðkallandi, að ekkert undanfæri væri að verða við þeim óskum.