11.04.1931
Neðri deild: 44. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í C-deild Alþingistíðinda. (1383)

38. mál, hafnargerð á Akranesi

Pétur Ottesen:

Ég get vel tekið undir það með hv. frsm. minni hl., að þetta sé ófrjó deila og tilgangslítil. En því miður er hann höfundurinn að því, að verið er að vinna þetta ófrjóa verk hér, því ef hann hefði ekki komið með þessa brtt., sem hann veit er tilgangslaus, þá hefðum við ekki þurft að vinna þetta ófrjóa verk. Hann er höfundurinn að því, að komizt var út á þessa leiðinlegu braut. (SvÓ: En ekki flm. sjálfur?). Ég skal ekki fara út í það við hv. þm., að deila frekar um stefnuna. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. að tala um það, því þessi stefna var tekin upp 1929 og var endurnýjuð 1930 með samþ. d. og Ed. á þessu frv. eins og það nú liggur fyrir. Út af því, sem hv. frsm. minni hl. var að tala um hafnargerð á Skagaströnd og Akranesi, þá er skemmst frá að segja, að þar eru verkin, framkvæmdirnar, sem skera úr um það, hvar nauðsynin er meira aðkallandi. Það voru samþ. lög um hafnargerð á Skagaströnd 1928. En þar hefir ekkert verið aðhafzt. En engin lög hafa verið samþ. um hafnargerð á Akranesi. En þó er búið að vinna þar verk, sem hefir kostað 120 þús. kr. Ég ætla að þetta sé talandi vottur, hvar nauðsynin er meira aðkallandi. Og þeir, sem vilja líta á nauðsyn hvers verks, geta ekki hjá því komizt að líta á nauðsyn þessa verks, sem svo er komið. Að hafnargerðin á Skagaströnd sé lendingarbót, bað má náttúrlega segja um allar hafnarbætur. Því eins og ég hefi oft sagt, þá hefir hafnargarður á Akranesi t. d. tvöfalt hlutverk, fyrst og fremst skjól fyrir væntanlega höfn og líka lendingarbót til að afgreiða skip. Svo ef við viljum fara út í þá sálma, þá er hafnargerðin á Akranesi eins lendingarbót og væntanleg hafnargerð á Skagaströnd. En hér er ekki um það að deila, að mikil þörf er á hafnargerðum víðsvegar um landið. En hv. þm. og samherji hans í því að lækka styrki til hafnargerða, hv. 4. þm. Reykv., vilja verja það með því, að nauðsynin sé svo viða fyrir hendi. Við neitum því ekki. En það er heppilegra og praktískara að veita ekki fleiri fyrirtækjum stuðning en bolmagn er hjá ríkissjóði á hverjum tíma til að inna af hendi og koma í framkvæmd. því það, sem hér um ræðir samkv. frv., er hvorki meira né minna en 720 þús., sem gert er ráð fyrir, að Akranes leggi fram af eigin rammleik til þessarar hafnargerðar. Ég býst við, að mönnum hljóti að vera ljóst, að þetta er ekkert smáræðisfé fyrir eitt hreppsfélag að leggja af mörkum og að það sé því þörf á þessum styrk til að ná þeim mikla árangri, sem leiðir af hafnargerðinni á þessum stað. Út af því, sem hv. frsm. minni hl. var að tala um, að höfnin á Skagaströnd væri nokkurskonar nauðleitarhöfn, því ekki væri nein höfn þar nálægt, sem hægt væri að leita til, ef illa stæði á, en því væri ekki til að dreifa á Akranesi, vildi ég benda hv. frsm. á, að honum hlýtur að vera ljóst sem gömlum sjómanni, að riðið getur á lífi þeirra manna, sem stunda sjó á Akranesi og sækja um langan veg í háskammdeginu, að þeir eigi að að hverfa sæmilega tryggri höfn heima þar, í staðinn fyrir það, að þurfa að leita til Reykjavíkur eða kannske alla leið til Hafnarfjarðar.

Þar sem hv. 4. þm. Reykv. vill gera mér tilboð, þá verð ég að segja, að það hefir unnizt seint upp fyrir honum þetta. (SÁÓ: Betra er seint en aldrei). En ég vil nú bara segja hv. þm. það, að mér virðist hann vera búinn að gera nóg að verkum með að tefja fyrir og spilla þessu máli, með því að vilja lækka styrkinn til hafnargerðarinnar, þó hann nú á síðustu stundu fari ekki að reyna að fleyga málið. En hv. þm. getur átt það víst, að ég skal gefa honum tækifæri til að greiða atkvæði með fjárframlagi til hafnargerðarinnar, því að ég ber bráðlega fram till. um að taka upp í fjárl. 1932 nokkrar fjárupphæðir til hafnargerða, og ég vænti þess, að hann sýni þá, að einhver hugur fylgir máli hjá honum um stuðning við þetta verk.

Um eignarnámstill. vil ég aðeins bæta því við, að ég tel, að samkomulag milli hlutaðeigenda sé miklu heppilegra en eignarnám og sé því óþarfi að gera ráð fyrir því í l.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, enda álít ég, að fullvíst sé um afdrif þessa máls hér í d., eftir þeim undirtektum, sem það fékk í fyrra.

Ég vænti svo þess, að þessu máli verði lokið hér í kvöld, svo að ég geti miðað till. mínar um fjárframlög við afgreiðslu þess hér.