05.03.1931
Neðri deild: 16. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (143)

79. mál, lögtak og fjárnám

Hákon Kristófersson [óyfirl.]:

Það er fjarri mér að vilja leggja á móti þessu frv., en ég álit bara, að það gangi of skammt. Ég er ekki fyllilega samþykkur því, að nauðsynlegt sé, að aðrar reglur gildi um þetta í kaupstöðum en í sveitum. Ég held, að það hljóti að stafa af ókunnugleika hv. þm., að hann heldur því fram, að innheimta í sveitum sé léttari en í kaupstöðum. Eftir mínum kunnugleika álít ég erfiðara að innheimta gjöld í viðlendum sveitum en í kaupstoðum. Ég vil því beina því til n. þeirrar, sem á að fá þetta frv. til meðferðar, að hún breyti frv. svo, að það komi að sömu notum fyrir sveitir og þá staði, sem frv. ætlast nú til, að þessi ákvæði gildi fyrir.

Um kostnaðarhliðina við innheimtuna vil ég segja það, að í sveitum hlýtur að vera meiri kostnaður af henni; ef kemur til birtingar lögtaks á eftir, þá getur kostnaðurinn orðið ferfalt meiri og tekur miklu meiri tíma.

Ég segi þetta ekki af því, að ég sé frv. mótfallinn, því að ég álít, að það feli í sér eðlilega breyt. En ég vildi aðeins benda n. á það, að í þessum efnum er nauðsyn sveita og kaupstaða alveg sú sama. Það getur því ekki á neinn hátt orðið málinu til skemmda, þó að þessi breyt. sé gerð á frv.