10.04.1931
Neðri deild: 43. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1077 í C-deild Alþingistíðinda. (1431)

194. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Frsm. 2. minni hl. (Magnús Torfason):

Ég get að mestu leyti látið mér nægja að vísa til nál. á þskj. 354, sem ég hefi leyft mér að bera fram. Eru þar teknar fram þær ástæður, sem ég hefi fram að færa gegn fjölgun þm. hér í Reykjavík, og þá fyrst og fremst gegn þeirri gífurlegu fjölgun úr 4 upp í 9, eins og frv. gerir ráð fyrir. Get ég því fremur verið stuttorður, þar sem hv. frsm. meiri hl. hefir ekki í einu né neinu hnekkt þeim rökum, sem ég hefi sett fram í nál. mínu gegn þingmannafjölgun hér í bæ.

Mín skoðun er sú, að vald Reykjavíkur hér í þinginu sé svo mikils, að ekki megi við það auka, svo fremi sem aðrir landshlutar eiga að einhverju leyti að vera sjálfráðir gerða sinna hér á þingi. Þingsagan, ekki hvað sízt eftir 1920, er þm. Reykv. síðast var fjölgað, ber það með sér, að vald Reykjavíkur er þegar orðið æðimikið, fyrst og fremst að l., en þó tekur út yfir þetta, að þm. Reykv. standa að öllu leyti betur að vígi en aðrir þm. um að koma fram málum sínum og hafa áhrif hér í þinginu. Það er ekki lítið varið í það fyrir þm. Reykv. að hafa þennan stóra her, þar sem er fjórðungur allra landsmanna, á bak við sig í hverju máli, sem þeir flytja. Er ekki svo að skilja, að hér í Reykjavík búi rýrasti hl. þjóðarinnar, þó að æ sé rýr sauður í mörgu fé. heldur er það að vonum, að úr svo miklu fjölmenni verði fleiri þingskörungum á að skipa en úr öðrum kjördæmum. Vita allir, hversu persónumáttur manna má sín mikils, og þá kemur að því, sem drepið er á í nál., að Reykjavík þarf ekki þessarar fjölgunar við. Reykvíkingar hafa í engu verið kúgaðir hér á þingi. Hygg ég, að ekki verði sýnt neitt dæmi þess, að gengið hafi verið á rétt þeirra. Þvert á móti. Sé litið í Stjórnartíðindin eða athugað það fé, sem veitt hefir verið til Reykjavíkur til eins og alls, kemur berlega í ljós, að Reykjavík hefir ekki borið skarðan hlut frá borði Alþ. Sé ég ekki ástæðu til að fara nánara út í það. Við vitum allir, að hér í Reykjavík hefir verið um meiri og stærri framfarir að ræða en í nokkru öðru kjördæmi á landinu. Satt er það, að Reykjavík hefir sjálf lagt mikið til þessara framfara, en þó er það svo, að henni hefir æ beint og óbeint komið styrkur frá öðrum landshlutum. Þarf ekki annað í því sambandi en að henda á það, að svo má heita, sem hér hafi safnazt saman allir helztu menntamenn landsins, og samtök þeirra eru öflugri en þó að einstakir menntamenn séu að rolast út af fyrir sig úti um land, enda fylgir þeim meiri kraftur. Reykjavík má ekki vera svo vanþakklát, að hún telji einskis virði það mikilsverða tillag, sem hún fær beint og óbeint frá þeim menntamönnum, sem hér eru niður komnir. Eins og ég hefi drepið á í nál. mínu, getur fjölgun þm. því aðeins komið til greina, að viðkomandi kjördæmi sé í þörf fyrir aukninguna. Hygg ég, að erfitt verði að sanna, að svo sé hér, auk þess sem þetta fer þvert við þá stefnu, sem ríkt hefir hér í þinginu undanfarið í þessum efnum. Stefnan hefir verið sú, að skipta tvímenniskjördæmunum í einmenniskjördæmi smátt og smátt, eftir því sem þörf hefir þótt á. Þegar hagsmunir þeirra, sem í tvímenniskjördæmi eru, fóru að rekast á, komu fram raddir um það, að kjördæminu væri skipt, og þá alltaf frá þeim hluta kjördæmisins, sem minni máttar var. Þarf ekki annað en að minna á skiptingu Ísafjarðarsýslu í 2 kjördæmi, Þingeyjarsýslu og Húnavatnssýslu. Fór slík breyt. fram í þessum sýslum, af því að hagsmunir hinna sérstöku hl. kjördæmisins fóru ekki saman. Ég lít svo á, að þetta sé sú rétta stefna. því að hún hnígur í þá átt, að hver sá landshluti, sem sérhagsmuna hefir að gæta, fái sinn fulltrúa hér á þingi. Ef litið er á þingið eins og það nú er skipað, eiga 20 Reykvíkingar sæti á því, og virðist þetta sæmileg aðstaða fyrir Reykjavík og nægileg trygging þess, að hlutur hennar verði ekki fyrir borð borinn. Þó að þeir þm., sem hér eru búsettir, þótt fulltrúar séu annara kjördæma, fylgi að sjálfsögu málum kjördæma sinna, leggur það sig sjálft, að þeir muni ekki standa á móti þrifamálum Reykjavíkur, ef þau fara ekki í bága við hagsmuni kjördæma þeirra, enda sannar öll reynsla þetta. Enginn hatar sinn eiginn líkama, og því hafa Reykvíkingar nóg bolmagn í þeim þm., sem þeir nú þegar hafa, til þess að koma fram hverju því nytjamáli, sem þeir hafa fram að bera og hefir fengið sæmilegan undirbúning. — Vita allir, að Reykjavík er stærsta höfuðborg eins lands, þar sem hér býr fullur fjórðungur allra landsmanna. Og eins og ég tók fram áðan, fylgir því mikið bolmagn. Hefir engin höfuðborg tiltölulegt magn á borð við Reykjavík, og þó verður ekki bent á dæmi þess, að nokkur stórborg í víðum heimi hafi þingmannafjölda að tiltölu við það, sem Reykjavík hefir. (MJ: Veit hv. þm. dæmi þess, að þær hafi færri þm.?). Ég bæði veit það og get bent á það. Það er ekki langt síðan Kaupmannahöfn hafði 9 þm. af 102. (MJ: En nú?) Nú hefir hún 24 þm. af 149. — Er frá því að segja, sem ég hélt reyndar, að hver menntamaður ætti að vita, að I. C. Christensen réð þar um, þó að móti harðvítugum þingflokki væri að etja. Hann sá um það, að hinn fámennari landshluti, þar sem var Jótland, hefði betri aðstöðu en Kaupmannahöfn. Fylgdi slíkur kraftur till. hans, að þm. féllust á þær.

Þetta var nú í Fólksþinginu, en í Landsþinginu var hlutfallið, ennþá verra fyrir Kaupmannahöfn.

Ef fjölgað verður þingmönnum í Rvík eins og frv. fer fram á, er auðsætt, að Reykjavík ræður stjórn landsins. Afleiðingin af fjölgun þm. fyrir Reykjavík upp í 9 getur ekki orðið önnur.

Ég hefi bent á það, að Kaupmannahöfn hefir hlutfallslega færri fulltrúa í Fólksþinginu en önnur kjördæmi, og er þó hlutur hennar verri í Landsþinginu. Slíkt og þvílíkt viðgengst alstaðar. Samvinna milli hinna ýmsu hluta landsins getur ekki tekizt með þeim hætti, að sumra landshlutanna gæti ekki á fulltrúasamkomunni. En það, sem felst í frv., er að koma hér á hlutafélagsfyrirkomulagi, þannig að atkvæðamagn fari eftir upphæð hlutafjárins. (HV: Eða samvinnufélagafyrirkomulag). Nei, þar hefir hver einstaklingur sitt atkv. Þegar fyrst voru stofnuð mjólkursamlög í Danmörku, vildu sumir stórbokkar ekki ganga í þau. nema atkvæðamagnið færi eftir kúafjöldanum. Þeir vildu, að kýrnar hefðu atkvæðisrétt, en hér vilja menn að þorskarnir hafi hann.

Í þeirri stjórnarskrá, sem elzt er og merkilegust og kallast má móðir allra stjórnarskráa þar sem þingræði ríkir, er gert við þessum leka. Þeir Franklin og Washington höfðu vit á því að gera við honum í upphafi. Þeir sáu, að samvinna milli hinna smáu og stóru fylkja gæti aldrei tekizt, nema tryggt væri, að réttur hinna smáu væri ekki fyrir borð borinn. Því settu þeir það ákvæði í stjórnarskrá Bandaríkjanna, að stóru fylkin skyldu ekki hafa fleiri fulltrúa í öldungadeild en hin smáu. Hér er engin trygging fyrir slíku. Reykvíkingar geta stillt valdi sínu þannig, að þeir myndi mundangið á vogarskálinni.

Kem ég þá að því, sem drepið er á í niðurlagi nál., að héðan af megi ekki koma með neinar breyt. á þingmannafjölgun fyrir Rvík, nema sett sé trygging fyrir því, að menn hafi þar einhverja vörn. Ég fer ekki fram á, að þvert nei sé sett við því, að breyting geti átt sér stað, heldur að tryggt sé, að hinir landshlutarnir hafi neitunarvald.

Síðan 1874 hefir verið borið svo mikið fram af stjórnarskrárbreytingum, að tala þeirra er legió, en fæstar hafa þær náð fram að ganga. Einkum hafa þessar till. um breytingar verið kák eitt síðan síðasta stjskrbreyt. fór fram. Sum frumvörpin hafa ekki einu sinni komizt út úr deildinni, hvað þá verið samþykkt. Ein lög náðu að vísu samþykki, en svo fór að enginn maður í landinu vildi líta við þeim.

Þetta hnígur að því, að ef gera ætti eitthvað í þessu máli, þyrfti miklu meiri undirbúning en hægt er að búast við af stjórninni einni. Hér er um svo mikið stórmál að ræða, að þeir, sem vilja breyta á einhvern hátt því stjórnarfyrirkomulagi, sem nú er og vissulega hefir sína galla, hefðu átt að koma fram með till. um skipun mþn. í málið. Mörg ný ríki hafa risið upp eftir styrjöldina og skipað málum sínum öðruvísi á ýmsan hátt en áður tíðkaðist. Enginn maður hér á landi hefir kynnt sér þau mál að ráði. Ef gera skal þýðingarmiklar breyt. á stjskr., eins og hér er um að ræða í sambandi við kosningalög og kjördæmaskipun, þyrfti um leið að athuga stjórnarfarið yfirleitt og skipa til þess nefnd, er hefði sérfróða ráðunauta sér til aðstoðar, og gera almenningi fært að kynna sér málin og fylgjast með þeim. Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að hér væri aðeins um einn þm. að tefla. Hann hefir þó skrifað undir nál., sem fer fram á fjölgun um tvo, en hefir síðar flutt till. um einn í viðbót við þá, sem fyrir eru. Þetta er að vísu góðra gjalda vert, en að því verður að gæta, að hve lítið sem þingmönnum Reykjavíkur er fjölgað, verður öðrum landshlutum erfiðara að gæta réttar síns á eftir. Ef Reykjavík fær einn þm. nú, eykst bolmagn hennar svo, að hægt verður að fjölga þm. hennar um einn eða jafnvel fjóra á næsta þingi.

Stefnan er því augljós, jafnvel þótt aðeins sé litið á brtt. hv. l. þm. Skagf. Ég hygg, að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um þetta mál að sinni, en vil leyfa mér að ráða hv. deild til að fella þetta frv., og það nú þegar.