10.04.1931
Neðri deild: 43. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í C-deild Alþingistíðinda. (1434)

194. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Magnús Jónsson:

Hv. þm. V.-Sk. hélt fram þeirri fögru skoðun, sem náttúrlega er rétt sem grundvallaratriði, að í raun og veru væru þm. kosnir fyrir allt landið. Ég hygg, að flestir þm. líti þannig á, að þeir séu þm. fyrir allt landið og eigi að gæta hagsmuna landsmanna hvar sem er á landinu, fyrir hvaða kjördæmi sem þm. er. En eigi að nota það sem rök á móti þessu frv., þá reynist það sem skýjaborg. Hv. 1. þm. Skagf. dró skarplega fram eitt atriði til að sanna hv. þm. þetta. Hann minnti á það tilfelli, ef farið yrði fram á að afnema það, að Vestur-Skaftafellssýsla kysi sinn þm. Hvað gerði það til, ef þm. væru kosnir fyrir allt landið, þó að hún fengi engan þm.? Ef hv. þm. hefði einhverjar mótbárur á móti þessari kröfu, þá mundu þær alveg eins gilda á móti því, að Reykjavík hefði svo fáa þm. sem nú er. Hvernig stendur á því, að tveir þm. skuli vera hafðir í þeim kjördæmum, sem eru fólksmörg? Það er auðséð, að um leið og þeir eru fulltrúar fyrir alla þjóðina, þá er ætlazt til, að þeir séu fulltrúar fyrir þá kjósendur, sem á bak við þá standa heima í kjördæmunum.

Ef maður athugar málið frá þessu sjónarmiði, þá er ekki hægt að komast í kringum það, að þessi kjördæmaskipun er úrelt, en þetta eina tilfelli er þó þar alveg einstakt. Það gnæfir upp úr þessum glundroða, sem er á kjördæmaskipuninni. Reykjavík, sem telur meira en ¼ hluta allra landsmanna, hefir aðeins 4 af þessum 36 þm. Það sjá allir, að þetta er ótækt. Eftir þeim grundvallarreglum, sem annars eiga að gilda um kjör þm., þá er þetta ekki nokkurt réttlæti.

Hv. þm. V.-Sk. dró líka fram það, sem oft hefir verið minnzt á áður, að svo margir þm. væru búsettir í Reykjavík. Hann sagði, að þeir væru 20. Þeir eru nú reyndar 21, helmingur allra þm. En það er hvergi trygging fyrir því, að svo margir þm. verið búsettir í Reykjavík framvegis. Það getur jafnvel farið svo, að ekki verði einn einasti þm. búsettur í Reykjavík. Það er hvergi tryggt með lög um. Og þar fyrir utan er enginn þm. svo einfaldur, að hann viti ekki, að hann á að standa kjósendum sínum reikningsskap ráðsmennsku sinnar, en ekki þeim, sem hann af tilviljun gengur fram hjá á götunni í Reykjavík. Sumir þm., sem búsettir eru í Reykjavík, eru andvígir málefnum Reykjavíkur. Ég ætla ekki að benda þar á einstök tilfelli, en það þyrfti ekki annað en fara yfir atkvgr. á undanförnum árum um mikið áhugamál Reykjavíkur, stækkun lögsagnarumdæmis bæjarins. Ég held, að það ætti að sannfæra menn um það, að Reykjavík hefir ekki alveg óskipt fylgi þeirra manna, sem þar eru búsettir. Fulltrúi Gullbringu- og Kjósarsýslu, sem er búsettur í Reykjavík, hefir þar barizt fyrir hagsmunum síns kjördæmis, en á móti áhugamálum þeirra manna, sem eru í sama bæ og hann, af því það kemur málinu ekkert við. Nei, þau einu rök, sem þessir hv. þm. hafa á móti frv., eru þessi: „Við viljum ekki láta Reykjavík fá meira pólitískt vald en hún hefir nú“, — ekkert annað.

Ég veit ekki, hvort ég á að fara inn á ræðu hv. 2. þm. Árn., þessa ógurlega löngu og ítarlegu ræðu. Ég hefi áður haft tækifæri til að deila við hann um mál sem þetta. Hann sagði, að af því að Reykjavík hefði svo mikið mannval, ætti hún að hafa færri þm., því að það megi búast við, að þeir duglegri beri þá ofurliði, sem minni eru fyrir sér, og því heimskari menn, því fleiri þingmenn. Ef einhversstaðar væri fábjánahæli, þá ættu þeir allir að vera þingmenn, en ef úrval þjóðarinnar væri saman komið á einum stað, þá ætti þaðan enginn þm. að koma, því að ef einhver kæmi þaðan, mundi hann alveg geta ráðið yfir hinum. Þetta er skoðun hv. 2. þm. Árn., dálítið betur útfærð en hann gerði. En ég geng aldrei inn á það, að því meira sem mannvalið er, því minna eigi þeir að ráða, og því meiri asnar, því meiru eigi þeir að ráða.

Auðvitað er það ráðlegra að láta þá ráða meiru, sem vit hafa til þess. En ég vil ekki fara að gera mun á þessu, því að kosningarrétturinn. byggist á almennum mannréttindum, og hver maður á að njóta jafnmikils kosningarréttar, hvar sem hann er á landinu.

Hv. þm. sagði, að Reykjavík færi með meira fé úr ríkissjóði tiltölulega en aðrir landshlutar. Ég veit ekki, hvernig hann hefir reiknað þetta. Ef talað er út frá venjulegri málvenju, þá hefir Reykjavík yfirleitt dregið til sín minna fé úr ríkissjóði en aðrir hlutar landsins. Það er sjaldgæft, að stórar fjárveitingar fari til Reykjavíkur. Menn voru alveg hissa, þegar 100 þús. kr. voru veittar til þess að koma upp sundhöll hér í Reykjavík. Ef á að telja, að allt það fé, sem farið hefir til hinna ýmsu stofnana landsins, fjárveitingar til Reykjavíkur, þá er þetta satt, en það eru ekki Reykjavíkurstofnanir, heldur alls landsins. Vill hv. þm. telja t. d. laun ráðherra styrk til Reykjavíkur, eða kostnað við hæstarétt og yfirleitt allar þær opinberar stofnanir, sem hér eru, vegna þess eins, að það er ómögulegt að hafa þær neinstaðar annarsstaðar á landinu? Ég held, að það væri alveg einsdæmi, ef ætti að telja sérstaklega styrk til höfuðborgarinnar allt það fé, sem gengur til þeirra stofnana, sem ríkið hefir þar.

Það er óhrekjanlegt, að Reykjavík hefir ekki verið frek á fjárframlögum úr ríkissjóði, heldur þvert á móti, eins og er líka eðlilegt. Reykjavík hefir svo mikið fjárhagslegt bolmagn, að það er ekki ástæða til þess. Það er ekki svo að skilja, að ég sé að kvarta yfir því, að aðrir landshlutar skuli fá meira fé úr ríkissjóði heldur en Reykjavík. Það er ekki nema rétt, að sá, sem má sín meira, verði að miðla til þess, sem á erfitt með að koma einhverju upp hjá sér.

Það var ýmislegt í ræðu hv. þm., sem ég skildi ekki, t. d. þetta hlutafélagsfyrirkomulag, sem hér væri stungið upp á. Ef hér væri um það að ræða, að kosningarrétturinn færi eftir því, sem hver maður greiddi í ríkissjóð, þá væri það líkt því, sem á sér stað í kaupfélögum. En nú er ekki því til að dreifa, heldur er farið eftir almennum mannréttindum. Hver maður á að hafa jafnan rétt til kosningar, alveg í mótsetningu við hlutafélagafyrirkomulagið. Það er miklu líkara samvinnufélagafyrirkomulagi.

Eins var það, sem hv. þm. sagði um kýrnar. Mér er óskiljanlegt, að hér eigi að gefa kúm kosningarrétt. Ég vil segja það, að eins og nú er, þá hafa þær miklu fremur kosningarrétt. Það er a. m. k. ekki fólkið, sem ræður nú; það er eitthvað annað, sem ræður, þegar menn í Reykjavík hafa ekki nema 1/3 hluta kosningarréttar móts við það, sem menn utan Reykjavíkur hafa. Þar er það eitthvað annað, sem ræður, hvort sem það eru kýrnar eða eitthvað annað. Annars get ég huggað hv. þm. með því, að ef kýrnar fá kosningarrétt, og þá sennilega kjörgengi líka, þá er engin hætta á því, að Reykjavík aukist mikið vald við það, því að í Reykjavík er ekki mikið af kúm. En af því að þetta liggur ekki fyrir hér nú, þá ætla ég að geyma frekari umr. um það þar til seinna.

Hv. þm. vitnaði í Bandaríkin. Hann sýndi fram á, að Washington og Franklín hefðu ekki viljað, að kosningarrétturinn væri svona jafn. Hann sagði, að engin höfuðborg í heimi hefði eins marga þm. hlutfallslega og aðrir hlutar þess lands. Mér þætti gaman, að hann vildi lána mér skrá yfir það. Ég held, að hann tali hér alveg út í bláinn. Mér virðist það víðast vera svo, að höfuðborgunum sé skipt niður í fjölda kjördæma og býst við, að þau kjördæmi hafi sumstaðar færri, en víða tiltölulega alveg eins marga þm. og aðrir landshlutar.

Hér er ekki verið að ræða um fulltrúa á Kongress Bandaríkjanna. Það er sjálfstæð stofnun, ekki þing, heldur öldungaráð, og í það ráð kjósa öll ríkin jafnháa tölu fulltrúa, tvo fyrir hvert ríki. Það er alls ekki venjulegt þing, nema að því leyti, að fulltrúarnir eru kosnir af fólkinu. Um Bandaríkin er annars það að segja, að þá álíta menn, sem hafa skoðað stjskr. þeirra, að þar sé margt úrelt, t. d. hvernig forsetakosningunni er þar hagað. Fyrir New-York-ríki eru kosnir 48 kjörmenn, en ef einn flokkurinn hefir einu atkv. fleira, þá fær hann alla kjörmennina fyrir það ríki. Það er ómögulegt að vitna í þetta sem fyrirmynd; jafnvel þó að einhverjir mætir menn eins og Washington hafi sett slík ákvæði, þá geta þau verið úrelt nú.

Þá var það ein grýla enn, sem hv. þm. var að mála á vegginn. Hann sagði, að ef Reykjavík hefði svo marga þm. sem gert er ráð fyrir í frv., þá mundu þeir alveg ráða, hvernig stj. yrði skipuð. Hv. þm. gekk meira að segja út frá því, að Rvíkurþm. mynduðu flokk út af fyrir sig. En nú veit hann, að í Reykjavík eru menn af öllum flokkum. Þó að frá hans sjónarmiði séu hans flokksbræður sorglega fáir, þá er Reykjavík þó skipt milli tveggja andstöðuflokkanna. Það er því firra, að Reykjavíkurþm. mundu sameiginlega halda uppi einhverri Reykjavíkurstjórn, þó að þeir yrðu fleiri en þeir eru nú.

Það mætti halda lengur áfram að ræða málið, en það er einfalt og í raun og veru um ekkert að ræða annað en það, hvort menn vilja unna Reykjavík þess réttlætis, að hún megi kjósa fulltrúa til Alþingis að tiltölu við aðra landshluta. Um þetta er að ræða, hvernig sem menn annars klæða skoðanir sínar í annan búning og reyna þannig að finna skoðunum sínum einhvern stað.