10.04.1931
Neðri deild: 43. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í C-deild Alþingistíðinda. (1436)

194. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Frsm. 2. minni hl. (Magnús Torfason):

Hv. 1. þm. Skagf. vildi snúa sér undir það, að fjölgun þm. í Rvík stafaði af því, að menn væru svo hræddir við, að frv. um stjórnarskrárbreytinguna, sem nú er fyrir Ed., gengi í gegn. Ef þetta er rétt hjá honum, þá get ég ekki skilið það mikla óðagot, sem á þessu máli hefir verið. Ég hélt, að málið mætti þá bíða, a. m. k. þangað til séð yrði, hvort stjskr.breyt. nær fram að ganga, sem og get vel hugsað að verði aldrei. Ég get í það minnsta sagt fyrir mitt leyti, að þótt ég teljist til stj.flokksins, þá efast ég um, að ég geti fylgt því frv. (HV: Stjfrv.?). Já, ég skammast mín ekkert fyrir það, þó að ég sé góður flokksmaður. Ég býst við, að margir trúi, að það verði aldrei til lykta leitt.

Það kom mér ekkert undarlega fyrir sjónir, að þessi hv. þm. (MG) skyldi standa upp og tala eins og hann væri fulltrúi Rvíkur. Hann sýndi það þá eins og oftar, að þeir, sem langdvölum eru í Rvík, verða smitaðir af Reykjavíkurloftinu. Ég lái þeim það ekki. Menn geta ekki að þessu gert.

Hv. þm. rengdi það, sem ég sagði, að hann hefði verið með því, að þm. Rvíkur skyldi fjölga um tvo, upp í sex. En nú stendur það á þskj. 331, að þessi brtt., 6 þm. í staðinn fyrir 9, sé frá minni hl. allshn., en þar eru þessir 3 hv. þm., hv. 2. þm. Reykv., hv. 3. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Skagf. Það eru þeir, sem mynda meiri hl. Það hlýtur því að vera annaðhvort, að hv. þm. hefir ekki sagt satt, að hann væri ekki með um þessa till., eða þá að þskj. hermir ekki rétt frá. Þá er þessi brtt. alls ekki frá meiri hl. n., heldur aðeins frá tveimur mönnum, eða minni hl. n. Ég fór eftir því, sem á þskj. stóð, og beiðist því ekki afsökunar á þessu, en hv. þm. hefir rétt til að leiðrétta þetta frá sínu sjónarmiði. Ef þskj. hermir ekki rétt frá, þá er það að kenna vangá þeirra, sem lögðu það inn í skrifstofuna.

Þá þarf ég ekki að hafa fleiri orð við þennan hv. þm. og vil þá snúa máli mínu til hv. l. þm. Reykv. Hann tók nokkuð oft fram í fyrir mér. Mér fannst það óþarfi af honum, þar sem hann átti tvær bunurnar eftir, og þær eru venjulega ekki svo stuttar. Hann var að bregða mér um, að ég hefði haldið ógurlega langa ræðu. Ég hefi ekki fengið orð fyrir það hér á þingi, að ég væri margmáll, og ég held, að þessi ásökun hafi komið úr þeim stað, sem sízt skyldi, þar sem þessi hv. þm. er landfrægur eða landræmdur fyrir sínar langlokur, (Forseti hringir) og svo hefir verið kveðið að orði, að seinni hlutinn af ræðum hans þurrkaði fyrri hlutann út.

Hv. þm. var að bregða mér um misskilning, staðleysur og fjarstæður, en ég tek mér það ekki nærri, þó að þau orð komi frá þeim hv. þm. Hann tilheyrir þeim flokki embættismanna, sem ekki er talinn að vera tiltakanlega vandur að röksemdum. Stéttarbræður þessa hv. þm. hafa ekki fengið orð fyrir að vera neitt sérstaklega rökvissir. Hér á landi hefir myndazt orðið „pokalogik“, og það sýnist einmitt eiga mjög vel við ræðu hv. þm. (MJ: Hver hefir myndað það?). Það er myndað.

Hv. þm. var að fimbulfamba um það, að ég hefði viljað meina úrvalsmönnum þjóðarinnar að senda fulltrúa á þing. Ég sagði ekki neitt, er gaf tilefni til slíkrar ályktunar, heldur þvert á móti, að Rvík væri líkleg aðstöðu vegna að hafa meira af úrvalsmönnum heldur en aðrir landshlutar. Þessar ályktanir hans eru því alveg út í hött. Þetta gæti því aðeins komið fyrir, ef í lögum stæði, að ekki mætti velja mann á þing nema hann ætti heima í sínu kjördæmi, en slíkt fyrirkomulag tíðkast ekki nema í bæjar-, hrepps- eða sýslumálum, en gagnvart þingmönnum gildir það ekki.

Þá kom hv. þm. með þá góðu setningu, sem ég gjarnan vil taka undir, að hver maður ætti að hafa áhrif á þingi að jöfnu við aðra, en með því er ekki sagt, að allir eigi að hafa þar jafnt atkvæðisvald. Eins og ég tók fram áðan, geta kjósendur í einu kjördæmi haft meiri áhrif á þingi heldur en kjósendur í öðru kjördæmi, þó fámennara sé, með jafnri fulltrúatölu. Ég hélt, að svo mikið gætti áhrifa þeirra 4 þm. Reykv. hér í þinginu, að ekki væri á það bætandi. Þá vildi hv. þm. ekki viðurkenna, að Rvík hefði fengið meira fé en aðrir landshlutar úr að spila. Ég held satt að segja, að ekki séu aðrir en guðfræðingar færir um að finna annað eins út.

Vilt hv. þm. segja, hvað þýddi stofnun fyrsta sparisjóðsins hér á landi fyrir Rvík, hvað þýddi stofnun Landsbankans fyrir Rvík, að bankinn dró allt peningavaldið til Rvíkur, hvað það þýddi fyrir Rvík, er tugir milljóna hafa verið veittir til veðdeildar bankans hér. Er það ekki Rvík, sem mestan hag hefir haft af því fé? Og á nú ekki ríkið ofan á allt að fara að ábyrgjast 7 millj. kr. fyrir Rvík eina saman?

Ég get minnt á það, svona meir til gamans, að ég var rétt áðan að gá að því í síðustu fjárl. hvert færu hinir svokölluðu bitlingar, og ég komst að þeirri niðurstöðu, að þeir færu aðallega til Reykvíkinga. Það var ekki ¼, ekki helmingur þeirra, það var mikill meiri hl. bitlinganna, sem Rvík fékk. Það er ekki svo, að ég sjái eftir þessu til Reykvíkinga, en á þetta er vert að líta.

Hv. þm. sagði, að ég hefði ekki fært rök fyrir því, að mannmargar stórborgir úti í heimi hefðu minna atkvæðamagn á þingum en aðrir landshlutar. Ég benti á Kaupmannahöfn sem dæmi og í nál. er vísað til New-York. Hann vildi nú segja, að ekki væri rétt skýrt frá um New-York. Ég veit að vísu, að hv. þm. hefði sællar minningar dvalið í Vesturheimi og er því máske kunnugri þar en ég; en svo mikið þori ég að fullyrða, að þungamiðja löggjafarinnar er hjá öldungadeild og forseta Bandaríkjanna, og úr öldungadeildinni eru flestir ráðh. teknir. Þm. vildi segja, að ýmislegt væri úrelt í stjórnskipunarlögum vestra og vildi líta á þau sem einskonar forngrip. Slíkt er nátturlega nokkuð mikið út í loftið. Vald New-York fór alltaf þverrandi eftir því sem ríkjunum fjölgaði í bandalaginu. Fyrst voru Bandaríkin 13 að tölu og þá voru í öldungadeildinni 26 fulltrúar, en þrátt fyrir það, þó að ríkjunum fjölgaði, þá var þm. New-York samt ekki fjölgað, og minnkaði því alltaf vald hennar, eftir því sem ríkið stækkaði. Nú eru Bandaríkin 48 að tölu, eins og kunnugt er, og enn hefir New-York sína sömu 2 fulltrúa. Og ég hefi ekki heyrt því hreyft, að breyta ætti þessu fyrirkomulagi, enda er það blátt áfram skilyrði fyrir samvinnu ríkjanna. Ef hv. þm. nægir ekki þetta, þá get ég svo sem bent honum á Lundunaborg sem dæmi. Af rúmum 500 fulltrúum í enska Parlamentinu hefir London ekki nema 30–40 fulltrúa, — mig minnir að þeir séu 32, en þori ekki að fullyrða það fyrir víst. En í Lundunaborg búa nál. 9 millj., og er það um 1/5 hluti allra landsmanna. Loks vil ég geta þess, að okkar stjskr. miðar tölu þingfulltrúa alls ekki við mannfjölda. Í öðrum löndum er kosning fulltrúa til Nd. eða almenns fulltrúaþings miðuð við mannfjölda, en í okkar stjskr. er það ekki gert, sem er þó sniðin eftir stjskr. Dana, sem miðaði einmitt við mannfjölda. Þá vildi hv. þm. segja, að ég hefði ekki komið auga á flokkaskiptinguna í Rvík. Nál. mitt ber það þó með sér, að ég hefi komið auga á hana. Ég hefi bent á það, hvernig fara mundi við þingmannakjör hér í Rvík, ef þessir tveir flokkar, sem berjast hér um völdin, hnigu að einu ráði, að þá gæti farið svo, að bændaflokkurinn næði hér engu sæti til landkjörs. Ég þykist vita, að hv. þm. vilji láta það líta út sem svo, að milli þessara tveggja flokka sé svo mikið djúp staðfest, að það geti ekki komið fyrir, að þeir renni saman. Í öðrum löndum eru þó dæmi til þess, að Íhaldsflokkur og jafnaðarmannaflokkur renna saman.

Allir vita, að íhaldið hér í Rvík er að verða íhaldssamara með hverju árinu. Hinsvegar hafa menn orðið varir við það, að sameignarstefnan er meir og meir að grípa um sig hér. En einmitt eftir því sem andstæðurnar verða meiri, þá er eins og flokkarnir að vissu leyti nálgist meir hvor annan í andstöðunni gegn miðflokknum. Og hv. 2. þm. Reykv. getur ekki neitað því, að það hefir komið til mála, að þessir tveir flokkar fallist í faðma; a. m. k. hefi ég þetta eftir Alþýðublaðinu, og við getum gengið lengra. Það lítur út fyrir, að þessir flokkar séu þegar að fallast í faðma. Við vitum það allir vel, að stj. veit ekki, hvort hún er nú seld eða keypt fyrir smjör. Við skulum athuga það, að bak við þetta frv. er pólitík, fyrst og fremst Reykjavíkur pólitík. Og það er hér annað frv. fyrir þinginu, annað Reykjavíkurmál. Bæði þessi mál eru þannig löguð, að þau ganga ekki í gegnum þingið nema jafnaðarmenn og íhaldsmenn Rvíkur fallist í faðma.

Þetta kann nú að þykja spádómur, en þeir spádómar munu ekki reynast langt frá sanni.

Ég skal enda ræðu mína með því að benda á það, að ef þetta frv. nær fram að ganga, þá lenda sveitirnar algerlega í varnaraðstöðu, þar með Framsóknarflokkurinn og allir þeir, sem unna málefnum sveitanna. Hér er blátt áfram um tilveru þeirra að tefla. Hvað lítil sem fjölgun Reykjavíkurþingmanna verður þá þýðir hún það, að sveitirnar verða framvegis að sækja hvað lítið sem er til Reykjavíkurvaldsins.