10.04.1931
Neðri deild: 43. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í C-deild Alþingistíðinda. (1437)

194. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Magnús Guðmundsson:

Ég þarf ekki miklu að svara hv. 2. þm. Árn. Hann virtist undra sig á því, að ekki skyldi vera beðið með þetta frv. þangað til útséð var um stjskr.breytinguna. Hann ætti þó að geta séð, að ekki dygði að taka þetta frv. þá fyrst til umr., er stjskr.breyt. væri útrædd, kannske ekki fyrr en síðasta þing daginn. Mér sýnist, að ekki sé hægt að fara sanngjarnari leið en að láta þessi mál ganga fram samhliða. Og ég býst ekki við, að nokkrum hafi dottið það í hug, að hv. 2. þm. Árn. ætlaði að rísa á móti stj.; hann er því ekki vanur, enda sagðist hann telja það sóma sinn að vera tryggur flokksmaður, og er langt frá mér að vilja bera nokkrar brigður á sauðtryggð hans. Hv. þm. hélt því fram, að þm. Reykv. væru slíkir afburðamenn, að þeir leiddu okkur hina. Ég vil mótmæla því, að hið síðara sé rétt, og mig furðar sannast að segja á því, að hv. þm. skuli gefa svona yfirlýsingu um sjálfan sig.

Þá var hann að ræða um þingfulltrúa á erlendum þingum og talaði þá aðeins um öldungadeildina. En það er vitanlega mjög villandi. Ef á að gera samanburð við þing annara ríkja, þá verður vitanlega að ræða um báðar deildirnar.

Það er rétt, að okkar stjskr. miðar ekki tölu þm. við mannfjölda, því hún segir ekkert um þá hluti. En okkar kosningalög byggjast á mannfjölda. Hin sögulega þróun í þessu máli er sú, að þegar kjósendum í einu kjördæmi hefir fjölgað mikið, þá hefir jafnan verið bætt við þingfulltrúa. Það er ekki til neins fyrir hv. þm. að neita þessum sögulega sannleika. Okkar kosningalög byggjast á tveim grundvallaratriðum; annað er mannfjöldi en hitt er aðstaða kjördæmanna. Ég verð að viðurkenna, að ég skildi ekki þá merkilegu setningu hv. þm., að stj. vissi ekkert, hvort hún væri eða yrði seld eða keypt fyrir smjör, svo ég sleppi að ræða um hana. Þá eru hinir stórpólitísku spádómar, sem þm. var að flagga með, nokkuð vafasamir og allt tal hans um varnaraðstöðu sveitanna gagnvart kaupstöðum. Ég ætla til gamans að minna þennan hv. þm. á það, þegar hann var þm. fyrir kaupstað þá talaði hann ekki sem verjandi sveitanna, heldur þvert á móti. Þá taldi hann, að sveitirnar væru mara á kaupstöðunum. Ég hefi gaman að því að minna hv. þm. á þetta seinna við betra tækifæri.