13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í C-deild Alþingistíðinda. (1444)

194. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Frsm. 2. minni hl. (Magnús Torfason):

Það er nú stilla á undan storminum, og skal ég því ekki með því, sem ég segi um þetta mál, verða til þess að rjúfa lognið og spilla þessu góða veðri.

Ég hefi leyft mér að bera fram till. á þskj. 390, sem er þess efnis, að í stað þess að fjölga þm. í Rvík um 1, þá fái Siglufjarðarkaupstaður 1 til viðbótar. Þetta er ekki mín uppáfinning, því þetta frv. lá fyrir í fyrra, og var þá borið fram af hv. 2. þm. Reykv., og af því dreg ég þá ályktun, að hv. þm. hafi þá álitið, að Siglufjörður ætti ekki síður rétt á að fá viðbótina en Rvík.

Samkv. því, sem ég hefi sagt í nál. mínu, þá er þetta frv., sem borið var fram í fyrra, alveg í samræmi við þá skoðun, sem þar kemur fram, að það eru héruðin úti um land, sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta, sem brýnustu þörf hafa fyrir að fá fulltrúa. Siglufjörður hefir t. d. sérstakra hagsmuna að gæta hér á þinginu, og þarf ég ekki að benda ár annað en síldarútveginn, sem allt þeirra líf og öll þeirra velferð er undir komin, og við þekkjum það allir, að það eru aðeins fá önnur héruð, sem hafa þessara hagsmuna að gæta.

Vitanlega eru slík lög sem þessi alltaf að nokkru leyti pólitísk. Því er ekki að neita, að hv. jafnaðarmannaflokkurinn hefir meðfram flutt þetta frv. í von um að styrkja aðstöðu sína á þingi, en það hefir þann rétt á sér, að þessi flokkur hefir tiltölulega færri þm. en hann ætti að hafa, svo að hér mætti tala um réttlætiskröfu. Og virðist þá, að jafnaðarmannaflokkurinn væri eins vel sæmdur með slíkri breyt. sem þessari.

Ég þarf ekki að fara fleiri orðum um þessa brtt. mína, en vil aðeins lýsa því yfir, að ég hefði ekki komið fram með þessa brtt., ef frv. um þingmannakosningar í Rvík hefði ekki komið fram og séð væri fyrir, að það myndi komast í gegnum þingið. Ég hefði litið svo á, að þetta mál hefði mátt bíða þangað til á næsta kjörtímabili.

Þá verð ég því miður að víkja nokkrum orðum að sessunaut mínum, hv. 1. þm. Skagf. Hann sendi mér kveðju í umræðulok, þegar þetta mál var til 2. umr., og finnst mér, að ég megi ekki láta henni ósvarað.

Ég skal þá fyrst geta þess, að ég hefi einmitt í nál. mínu tekið fram, að ég sé alls ekki móti þm.fjölgun í Rvík út af fyrir sig, ef trygging er fyrir því, að sveitakjördæmin verði ekki ofurliði borin. Hv. þm. brá mér um það, að ég væri sauðtryggur flokksmaður, og tel ég það miklu frekar lof en last. En ef það hefir átt að vera hnífilyrði hjá hv. þm., þá má áreiðanlega segja það sama um hann. Ég hefi aldrei verið svo sauðtryggur við minn flokk, að ég hafi borið út mitt eigið barn, en það hefir hv. 1. þm. Skagf. gert. Hann réð því nefnilega, að tóbaksverzlunin var lögð niður, en hann gat ráðið því, að hún stæði, og það enn þann dag í dag.

Þá gat hv. þm. þess, að ég hefði átt að hafa ill og óviðeigandi orð um bændastétt landsins. Hv. þm. hefir og dróttað þessu að mér áður. Ég fór þá að leita í ræðum mínum frá því er ég var þm. Ísaf.

Ég leitaði og gat ekki fundið þetta þá. Ég varði nokkrum tíma til að glugga þetta upp, en gat ekki fundið það. En ég er viss um, að ég hefi aldrei sagt, að sveitirnar væru eins og mara á kaupstöðunum. — Samvinna mín við bændaflokkinn á þingunum 1916–1919 var sú æskilegasta, bæði frá minni hendi og þeirra. Það kom fram á sérstakan hátt. Bændaflokkurinn setti mig í eina af virðingarstöðum þingsins, og þeirri stöðu hélt ég allt kjörtímabilið út, og sýnir það, að bændurnir höfðu fullt traust á mér.