11.04.1931
Neðri deild: 44. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í C-deild Alþingistíðinda. (1445)

44. mál, hafnargerð á Dalvík

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Ég vil álíta, að umr. um þetta mál þýði helzt ekkert. í umr. þeim, sem fram hafa farið um tvö næstu mál á undan íhafnargerð á Akranesi og hafnargerð á Sauðárkróki), er í raun og veru búið að taka fram flest af því, sem minnast þarf á í sambandi við þetta mál. Ég ætla því að láta niður falla frekari umr. um málið. Ég verð þó að geta þess, sem ekki hefir áður nefnt verið, að á þessum stað, Dalvíkinni, er alls ekki sú aðkallandi nauðsyn á hafnargerð, sem er á hinum tveim stöðunum, Akranesi og Sauðárkróki, sumpart af því að góðar hafnir eru á næstu grösum við Dalvík, en sumpart vegna þess, að þar er ekki um verulegan eða mikinn útveg að ræða. Hann hefir sem sé dregizt að höfnunum í kring, eins og eðlilegt er, því að þar voru frá náttúrunnar hendi skilyrðin betri. En svo er líka á það að minnast, að þessi hafnargerð á Dalvík gerir langtum minni kröfur til ríkissjóðs en hinar hafnargerðirnar, og má teljast auðunnið verk. Vegna þess vill meiri hl. n. mæla með frv. svo breyttu sem tillögurnar á þskj. 216 sýna, en till. þær eru hliðstæðar þeim till., sem komu frá meiri hl. um hafnargerð á Sauðárkróki og frá minni hl. um hafnargerð á Akranesi. Þær miða við þá eldri reglu, að ríkið leggi fram 1/3 kostnaðar, en héruðin 2/3, og taki svo ríkið ábyrgð á nauðsynlegu láni héraðsins til hafnargerðar.

Fleiri orð hefi ég svo ekki um þetta og mun ekki fjölyrða frekar um það, nema gefið verði nýtt tilefni.