13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í C-deild Alþingistíðinda. (1453)

194. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Magnús Guðmundsson:

Mér þykir leitt, ef ég hefi gert sessunaut mínum, hv. 2. þm. Árn., mikið ómak með því að láta hann leita og lesa í gegn allar gamlar ræður mínar. En mér datt ekki í hug að segja þetta, nema ég hefði eitthvað fyrir mér.

Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa hér upp nokkur orð úr þingtíðindunum 1919. Þar er hv. sessunautur minn að tala um aðflutningsgjald af salti og kemst svo að orði um sjávarútveginn: „Hann hefir greitt svo mikið fé í ríkissjóð umfram það, sem til hans hefir verið veitt, að það má segja, að hann eigi allan ríkissjóð, og meira að segja allt landið, þ. e. a. s. hinar opinberu eignir þess, því að hann hefir greitt það allt og meira til“.

Þetta læt ég nægja í bili til þess að sýna hv. 2. þm. Árn., að einu sinni áttu sveitirnar ekki upp á háborðið hjá honum. En mér dettur ekki í hug að neita því, að traust hans í bændaflokknum er mikið.

Hæstv. forsrh. fór að segja hér mikil pólitísk tíðindi um samband Sjálfstæðisfl. og Jafnaðarmannaflokksins. Sagði hann, að það væri meiningin að taka allt valdið af bændaflokknum, sem farið hefði með það undanfarið. Það kom fljótt fram rödd á móti þessu, en ég skildi það vel, að hæstv. forsrh. var sár yfir því, að sá flokkur, sem stutt hefir stj. hans í 3–4 ár, skuli nú hafa snúizt á móti honum. Og þetta er mannleg tilfinning, sem ég skal ekki lá honum. En jafnvel þó að þetta væri allt rétt, þá stendur hann illa að vígi, þegar hann er að halda því fram, að það sé einhver glæpur að hafa pólitísk mök við jafnaðarmenn, þar sem hann sjálfur hefir stjórnað landinu með þeirra aðstoð í þrjú eða fjögur ár, og sumir segja, að það hafi aðallega verið þeir, sem hafa stjórnað. Annars er það rétt, sem ég segi, að þetta mál um fjölgun Rvíkurþm. er ákaflega mikið smámál. Ég hefi enga tilhneigingu til að blása þetta mál upp meira en það á skilið, og því finnst mér réttara að draga þessar stórpólitísku umr. þangað til á morgun, því að þá býst ég við, að menn leiði saman hesta sína hér í eldhúsdagsumræðum. Það er engin ástæða til að vera svo bráður að eta af réttunum, að fara til þess í dag.

Út af því, sem hæstv. ráðh. var að tala um breyt. á kjördæmaskipun, þá vil ég benda á það, að þar steig hann fyrsta sporið sjálfur með því að koma fram með till. um afnám þeirra landsk. þm. Þeim flokki, sem ég heyri til, dettur ekki í hug að horfa á það aðgerðarlaus, að hann sé sviptur þingsætum án þess að nokkuð komi í staðinn og þannig aukið ranglætið í kjördæmaskipuninni. Fyrst hæstv. forsrh. vildi ríða á þetta vað, þá getur fleirum dottið í hug að fara á það sama vað.

Út af orðum hans um, að við vildum taka það pólitíska vald af bændum, þá vil ég spyrja: Heldur hann, að það sé okkar meining, að bændur eigi að hætta að fá að hafa kosningarrétt? Hann segir, að í vor kjósi Strandasýsla og Skagafjarðarsýsla í síðasta sinn. (Forsrh: Sem sérstök kjördæmi). Hvar stendur það? (Forsrh: Í samningunum milli íhaldsins og jafnaðarmanna). Það er ekki rétt, eða ekki þekki ég til þess.

Hæstv. ráðh. segir, að þetta sé aðalkosningamálið. Ég skal ekki dæma um það, en ég get trúað, að eitthvað verði minnzt á gerðir hæstv. stj. í kosningabardaganum, a. m. k. hefi ég hugsað mér að gera það.

Hann hafði nokkuð stór orð um þessi óeðlilegu faðmlög. Eins og hv. 2. þm. Reykv. hefir tekið fram, þá er þar um engin faðmlög að ræða, og þar að auki stendur hæstv. forsrh. illa að vígi að vera að lasta þessi faðmlög, sem hann hefir sjálfur verið í, í 3 eða 4 ár.