13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í C-deild Alþingistíðinda. (1454)

194. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég get verið sammála hv. 1. þm. Skagf. í því, að við geymum aðalatriðin í sambandi við þetta þangað til á morgun, en ég vil aðeins geta þess, að mér þótti sjálfsagt, að áður en þetta frv. færi héðan úr d., þá kæmi fram mín skoðun og vitneskja um það, hvað bak við þetta frv. er, hvað er bak við það samkomulag, að þm. Rvíkur skuli vera fimm. Það er nefnilega betra til þess, að samkomulag verði um kosningarnar milli Íhaldsins og jafnaðarmanna. Þetta verður vitanlega ekki þannig, að þeir spilli ekki hvorir fyrir öðrum sumsstaðar, en það verður óbein samvinna á mörgum sviðum, ráðin samvinna bæði fyrir, um og eftir kosningarnar til að koma fram stjskrbreyt. eins og nú liggur fyrir Ed., og stofna stór kjördæmi með hlutfallskosningu, en leggja niður hin einstöku kjördæmin. Ég get verið sammála um það, að umr. um þetta geti dregizt þar til við kosningarnar, en mér þótti rétt, að þetta kæmi fram nú.

Út af því, sem hv. 1. þm. Skagf. talaði um mök við jafnaðarmenn, þó þótti mér rétt að láta koma fram, hver mök Framsóknarflokkurinn hefir haft við jafnaðarmenn, og í hverju mök sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna eru nú fólgin. Mök okkar framsóknarmanna við jafnaðarmenn byggjast á málum, á því, að rétta ýmislegt ranglæti í löggjöf og framkvæmd laga frá tíð íhaldsstj. Þau hafa verið í því fólgin, að koma fram ýmiskonar löggjöf til réttarbóta, sérstaklega fyrir vinnandi fólk bæði til sjávar og sveita. Á þessu tímabili hafa komið til framkvæmda merkari lög á þessu sviði en áður í sögu þessa lands, og þó sérstaklega fyrir landbúnaðinn. Og ég vil við þetta tækifæri láta koma fram, þó að á morgun ætli jafnaðarmenn að greiða stj. vantraust, þakklæti til þeirra fyrir þá hjálp, sem þeir oft hafa veitt til að koma fram nauðsynjamálum landbúnaðarins, enda hafa þeir líka fengið miklar auknar réttarbætur á þessu kjörtímabili til bættrar afkomu verkamanna.

Mök sjálfstæðismanna við jafnaðarmenn eru vitanlega reist á málefnum líka, á þeim málefnum að flytja pólitíska valdið til þess hluta fólks, þar sem sjálfstæðismenn og jafnaðarmenn eiga aðalfylgi sitt. Þetta tengir þá saman og kemur þeim til að taka saman höndum til að koma fram stórfelldum breyt. á kjördæmum. Ég álít samstarf með jafnaðarmönnum engan glæp, og mér mun síðar á minni pólitísku æfi, ef hún verður lengri, ekki hrylla við að starfa með mönnum úr öllum flokkum, en þó skal ég taka það fram, að ég vil heldur hugsa til að vinna með þeim, sem eru til vinstri en hægri.

Mér þótti rétt, að það kæmi fram, í hverju þessi mök og þetta samstarf hafi verið fólgið, og það var tilgangur minn, er ég tók þetta fram í sambandi við málið, að líta yfir þá frjósömu og merkilegu löggjöf, sem orðið hefir fyrir þessa samvinnu, og benda á þá stórbættu aðstöðu, sem bændur landsins og annað fólk hefir fengið, og ég vildi gera grein fyrir, hvað tengdi þessa flokka saman. Nú stöndum við á þeim tímamótum, að jafnaðarmenn, sem staðið hafa með okkur framsóknarmönnum og unnið að framgangi áhugamála þeirrar stj., sem nú er í landinu, hafa tekið það fram, að þeir ætli nú að vinna með sjálfstæðismönnum, og ber að sjálfsögðu að taka afleiðingunum af þeirri breyttu aðstöðu.

Að endingu vil ég svo aðeins segja það, að mér þótti gott, að hv. 1. þm. Skagf. skyldi koma með þá játningu í þessu máli, að till. um afnám landskjörsins hefði komið þessu af stað. Hún hefði hreyft við kjördæmaskipuninni, og fyrst stj. hefði farið á þetta vað, þá hefðu aðrir farið á eftir. Þar hefir allur Sjálfstæðisflokkurinn gengið í bandalag við jafnaðarmenn að breyta kjördæmaskipuninni, en ég vona, að hv. 1. þm. Skagf. eigi eftir að standa örlagaþrunginn reikningsskap á því norður í Skagafirði, hvernig hann hefir breytt í því efni.