13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í C-deild Alþingistíðinda. (1459)

194. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Gunnar Sigurðsson:

Eins og ég er vanur, skal ég halda mér við málið, en ekki ræða allt milli himins og jarðar, eins og gert hefir verið hér í d. nú. Ég mun halda mér við frumvarp til laga um fjölgun þingmanna í Reykjavík. Mér er ekkert gjarnt að skipta um skoðun á málum, og ég hefi lýst skoðun minni á kjördæmaskipuninni fyrr á Alþingi.

Það var fyrst árið 1920, að til umr. var þingmannafjölgun fyrir Rvík. Þá greiddi ég atkv. á móti því og „formúleraði“ það með því, að koma fram ásamt öðrum með þáltill. um að athuga og endurskoða alla kjördæmaskipun, en í öll þessi ár hefir ekkert verið gert í þá átt. Rvík verður hér fyrir hróplegu ranglæti. T. d. ætti Rvík að hafa c: 29 þm. miðað við einn á Seyðisfirði. Þetta getur ekki gengið lengur. Þess vegna, hvað sem skiptingu flokka líður, þá get ég ekki sem réttlátur maður staðið á móti því, að bætt sé svolítið úr þessum órétti, sem Rvík er ger.

Ég get ekki heldur séð, að það sé nein goðgá, þó að athugað sé, hvort breyta eigi kjördæmaskipuninni frá því, sem nú er. Mér kemur í hug það, sem kerlingin sagði, þegar breytt var um myntina, að sér fyndist ranglátt að breyta myntinni nú, það ætti að geyma það, þangað til gamla fólkið væri dáið. Mér virðist ýmsir þingmanna hafa líka skoðun. Ég sem óháður utanflokkamaður greiði því atkv. sem réttlátur maður með þessari fjölgun. Ég er þeirrar skoðunar, að bæta eigi úr ranglætinu smátt og smátt. Því lengur sem dregið er að gera einhverja réttláta breytingu, því krappari verður aldan, sem hlýtur að ríða yfir, ef höfðinu er barið við steininn og enginn breyt. gerð. Sú alda, sem rænir bændur að fullu og öllu þeirri hagstæðu sérstöðu, sem þeir nú hafa í kjördæmaskipuninni.