13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í C-deild Alþingistíðinda. (1461)

194. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Frsm. 2. minni hl. (Magnús Torfason):

Ég vil að því er þetta mál snertir aðeins leggja áherzlu á það, sem ég líka drap á við 2. umr., að þótt ekki sé hér að ræða um nema eins þm. fjölgun fyrir Rvík, þá bætir það aðstöðu Rvíkur stórkostlega til að koma ár sinni þannig fyrri borð, að vald hennar aukist mikið. Þetta, að þeir fá einn þm. til viðbótar, þýðir það, að þeir fá þar nýtt vígi til að berjast úr. Þess vegna bætir þetta mikið þeirra aðstöðu. Það er til málsháttur, sem segir, að maður eigi ekki að rétta einni ónefndri persónu litla fingurinn, en það er einmitt þetta, sem verið er að gera með þessu frv.

Hv. 1. þm. Skagf. gat ekki sannað, að ég hafi farið neinum óviðurkvæmilegum orðum um bændurna, enda ekki við því að búast, þar sem ég hefi sjálfur verið bóndi í tíu ár. En hann drap á, að ég hefði einu sinni býsnast yfir því í ræðu, hvað þungar byrðar væru lagðar á sjávarútveginn. Þá var ég þm. Ísaf. Um það var að ræða, að lagður væri skattur á salt, til að bæta upp með töpin á landsverzluninni. Á þessu þingi voru tollar og skattar hækkaðir yfirleitt, og kom það mest niður á sjávarútveginum, því bændur bjuggu mjög að sínu og notuðu litlar útlendar vörur. Þegar svo leggja átti þar að auki þennan skatt á þá vöru, sem sjávarútvegsmenn verða nauðsynlega að nota við framleiðslu sína, saltið, þá var ekki nema eðlilegt, að mér gremdist og tæki þá fram allt það, sem máli mínu gat verið til stuðnings.

Eitt atriði enn tel ég rétt að minnast á í sambandi við þessa umr. Af hverju stafar það, að þm. Alþýðuflokksins hafa nú horfið frá stuðningi við Framsókn? Vitanlega af því, að þeim hefir ekki fundizt þeir fá þar nægilega aðstoð til að koma fram sínum málum. Þetta er einn hinn bezti vitnisburður, sem Framsóknarflokkurinn getur fengið. Það sýnir, að jafnaðarmenn hafa ekki getað fengið hann til að kvika frá sinni stefnuskrá, þó þeir hafi aðstöðu til að fella stj. Framsóknarflokkurinn hefir ekki viljað vinna það til stuðnings jafnaðarmanna að koma fram þeirra málum nema að því leyti, sem þau hafa samrýmzt hans eigin stefnu. Þau mál jafnaðarmanna, sem þeir hafa fengið samþ. á síðasta kjörtímabili, eru yfirleitt mannúðar- og mannréttindamál, svo sjálfsögð, að engum dettur í hug að hafa á móti þeim, eftir að þau hafa, einu sinni verið samþ. Það er alveg víst, að margir kjósendur Alþýðuflokksins eru óánægðir yfir því, að þingflokkur þeirra hefir ekki komið fleirum af málum sínum áleiðis heldur en raun ber vitni um. Um það, hvort jafnaðarmönnum verður betur ágengt í samvinnunni við Sjálfstæðisflokkinn, er ekki þörf á að deila um nú. Það mun sýna sig á næstunni, hvort sjálfstæðismönnum tekst að fá hlutleysi eða stuðning jafnaðarmanna með ódýrari kostum heldur en Framsókn.