13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í C-deild Alþingistíðinda. (1464)

194. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. 1. þm. Skagf. kvað Sjálfstæðisflokkinn ekki geta verið með því að minnka áhrif atkvæðanna í sveitakjördæmunum, þar sem hann hefði helming af atkvæðamagninu í sveitunum. Þetta hlýtur að vera sagt gegn betri vitund. Hv. þm. veit vel, að þó Sjálfstæðisflokkurinn hafi meiri hluta í nokkrum sveitakjördæmum, þá hefir hann hlutfallslega miklu minna fylgi þar en í kaupstöðunum. Það er vitanlegt, að Framsóknarflokkurinn hefir hverfandi lítið fylgi í kaupstöðunum. Að hann hefir þrátt fyrir það 19 þingsæti á móti 17 þingsætum Sjálfstæðisflokksins, stafar af því, að bændur hafa enn mikið að segja um skipun Alþ. Þess vegna er það eina, sem Sjálfstæðisflokkurinn getur gert til að tryggja sig gegn vaxandi fylgi Framsóknar, að skerða áhrif bændaatkvæðanna. Hv. þm. sagði, að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði ekki að gera sveitaatkvæðin áhrifalaus. Auðvitað dettur engum í hug að taka atkvæðisréttinn alveg af bændum. En mér þótti vænt um, að hann viðhafði þetta orðalag. Það bendir á, hver ætlunin er.

Ég get bætt því við, að það er fleira, sem stuðlar að samvinnu sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna heldur en stjórnarskrármálið. Það er fyrst og fremst sameiginleg hræðsla þeirra við Framsókn. Hræðslan eða nærri því vissan um það, að hún komist í meirihlutaaðstöðu upp úr næstu kosningum. Fyrsta árangur þessarar samvinnu fáum við væntanlega að sjá nú næstu daga, en víðtækari afleiðingar af henni koma vonandi síðar í ljós, bæði norður í Skagafjarðarsýslu og víðar.