13.03.1931
Neðri deild: 23. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

79. mál, lögtak og fjárnám

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Þetta frv. er borið fram af hv. þm. N.- Ísf. Er þar gert ráð fyrir, að breyt. sú, sem farið er fram á í frv., skuli aðeins ná til kaupstaða og kauptúna með yfir 300 íbúa. Það er efni frv., að eigi þurfi að birta lögtak með stefnuvottum, þegar um opinber gjöld er að ræða, heldur skuli nægja að auglýsa það á venjulegan hátt. Við 1. umr. málsins óskaði hv. þm. Barð. eftir því, að ákvæði þessi væru látin gilda um land allt. Hefir allshn. fallizt á það. Leggur n. því til, að frv. sé samþ. með þeim einum breyt., að þau ákvæði, sem hingað til hafa gilt í kaupstöðum, skuli framvegis gilda um land allt. Eftir því sem opinberum gjöldum fjölgar, verður lögtak tíðara. Er það ekkert annað en óþarfa kostnaður að láta stefnuvotta birta, ef um slík gjöld er að ræða, og alveg nóg að auglýsa á venjulegan hátt. Myndi þetta spara talsverðan kostnað. Vona ég svo, að hv. d. fallist á þessar tillögur.