27.02.1931
Neðri deild: 11. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í C-deild Alþingistíðinda. (1476)

48. mál, fasteignaskattur

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Það er sama um þetta frv. að segja og frv. um tekju- og eignarskatt, að það er aðallega borið fram með það fyrir augum að lækka tollana á nauðsynjavörum. En að óbreyttri tekjuþörf ríkissjóðs verður það ekki gert, nema með því að sjá ríkinu fyrir öðrum tekjum í staðinn.

Helztu breyt., sem farið er fram á í frv., eru þessar:

Fasteignir eru flokkaðar til skattgreiðslu í fjóra flokka, í stað tveggja áður.

Skatturinn er hækkaður á landi og lóðum, en lækkaður á húseignum.

Ákveðnar reglur eru settar um það, hversu háan skatt sveitar- og bæjarfélög mega leggja á fasteignirnar.

Ákvæði sett um það, hvað teljast skuli byggingarlóðir.

Skýr ákvæði skulu sett um það, hvenær eigandi og hvenær leigjandi skuli greiða fasteignaskattinn.

Þá er og lagt til, að fasteignir ríkissjóðs og sveitar- og bæjarsjóða skuli undanþegnar fasteignaskatti, nema lönd og lóðir, sem leigð eru með alveg sérstaklega lágum leigumála og góðum kjörum. Ennfremur skulu verkamannabústaðir, sem ríkið eða bæjarfélög hafa styrkt, vera undanþegnir fasteignaskatti fyrstu 10 árin eftir að þeir eru reistir.

Skal ég svo víkja að þessum atriðum nokkru nánar.

Viðvíkjandi flokkun fasteignanna er þess að geta, að aðalmunurinn er gerður á húseignum annarsvegar og lóðum og lendum hinsvegar. Lóðir og lendur ganga frá kynslóð til kynslóðar og hækka í verði smátt og smátt og verðskattur af þeim lendir jafnan á eigendum meðan ódýrara land er laust til notkunar. Aftur á móti endast húsin ekki nema takmarkaðan tíma. Húsaskatturinn er ekki ósvipaður tollum, að því leyti, að mjög örðugt hefir reynzt að stemma stigu fyrir, að húseigendur færðu hann yfir á leigjendur. En eins og öllum er ljóst, er húsaleigan hér óhæfilega dýr, og því óvit að hækka hana með háum húsaskatti.

Í núgildandi lögum er enginn munur gerður á rándýrum byggingarlóðum í kaupstöðum og jarðeignum og beitilöndum í sveitum hvað fasteignaskatt snertir. Það er ljóst, að þetta er mjög óréttlátt. Í þessu frv. er öllum lóðum og lendum skipt í þrjá flokka:

1. Ýmsar jarðeignir, þurrabúðir, lendur til ræktunar o. þ. h. Af þessum fasteignum skal skatturinn aðeins vera 8%, átta af þúsundi. Þar er minnst verðhækkun fyrir tilverknað hins opinbera fram komin og því eðlilegt að skattleggja þær minnst. Enda er á þeim byggður atvinnurekstur landsmanna.

2. Byggðar byggingarlóðir í kaupstöðum og kauptúnum með yfir 500 íbúa. Af þeim skal skatturinn vera 1%. Þessar lóðir eru notaðar til gagnlegra hluta, en hafa stigið mjög í verði fyrir opinberar aðgerðir og eiga því að lenda í hærri skattflokki en ræktunarlönd.

3. Óbyggðar byggingalóðir á sömu stöðum. Af þeim skal greiða 11/2% í ríkissjóð.

Það hefir löngum verið allálitlegur gróðavegur að kaupa óbyggðar lóðir, eiga þær í nokkur ár og selja þær síðan aftur fyrir hærra verð. Tilgangurinn með ákvæðum frv. er sá, að reyna að fyrirbyggja slíkt lóðabrask og koma í veg fyrir óeðlilega verðhækkun á lóðunum, auk þess sem ríkissjóði á þennan hátt er séð fyrir tekjuauka. Til viðbótar ríkissjóðsskattinum er svo bæjar- og sveitarsjóðum heimilt að taka jafnháan lands- og lóðaskatt til sinna þarfa í stað fasteignagjalda þeirra, er þeir nú taka. Getur því skattur af óbyggðum lóðum komizt upp í 3%, 3 kr. af 100 kr.

Húsaskattur til ríkisins er nú 11/2%. En með því er lítið sagt, því að auk þess taka bæjarfélögin nær öll og mörg sveitarfélög viðbótarskatt af húsum, sem oftast er margfalt hærri. Samanlagður húsaskattur hér í Reykjavík er t. d. 91/2‰, 11/2‰ til ríkis og 8‰ til bæjarsjóðs, en samkv. mínu frv. verður hann 5‰ samanlagt til ríkis og bæjar, að viðbættu hreinsunargjaldi, 3‰., eða 8‰ alls. En það er 16% lægra en nú er. í sveitum má leggja mest á fasteignir til sýsluvegasjóða, 6‰, auk 11/2‰ til ríkissjóðs. Hreinsunargjald kemur þar ekki til greina. Þar getur skatturinn því orðið 71/2‰. En samkv. frv. verður skatturinn mest 21/2‰ til hvors aðila eða 5‰ samtals. Hér er því um 331/3‰ lækkun að ræða, þótt sveitirnar noti rétt sinn til að taka húsaskatt að fullu.

Á húsaskatti eru þeir agnúar, að hann nálgast mjög tolla. Húsaleigan hækkar, skatturinn lendir á leigjanda og verður til að auka dýrtíð og framleiðslukostnað. Því er lagt til í frv., að hann sé hækkaður yfirleitt og lögbundið, hvað hann megi vera hæstur.

Jarðaskattur í sveitum, þar sem sýsluvegasjóðsgjald er tekið, er nú 9‰, en verður eftir frv. mínu 8‰, og getur orðið 1,6%, ef sveitirnar nota að fullu heimildina til að leggja jafnmikið á og ríkissjóður.

Lóðagjald af byggingarlóðum í Rvík er nú 6‰ í bæjarsjóð og 3‰ í ríkissjóð. Eftir frv. myndi þið hækka um rúmlega helming af byggðum lóðum, ef bærinn neytti heimildar sinnar að fullu, og þrefaldast af óbyggðum byggingarlóðum, sem helzt og mest er braskað með.

Á Akureyri er enginn húsaskattur, en bærinn hefir heimild til að leggja allt að 2% skatt á byggingarlóðir og 1% á aðrar lóðir, auk 3‰ skatts til ríkissjóðs. Sama er um Seyðisfjörð og Húsavík. Hér myndi samþykkt frv. því hafa nokkra lækkun á hámarki skatts af byggðum lóðum í för með sér, en aftur hækkun á óbyggðum lóðum.

Óbyggðar byggingarlóðir eru skattlagðar á sama hátt og jarðir eftir núgildandi lögum. Ætti eigi að þurfa um það að deila, að sjálfsagt er að skattleggja þær miklu hærra. Þar er gróðavonin öll bundin við verðhækkun, sem það opinbera skapar. Samkv. frv. verður skattur af þeim um 100% hærri en af jörðum og 50% hærri en af byggðum lóðum.

Ég álít sjálfsagt, hvað sem um þetta frv. er sagt, að settar séu nú þegar fastar reglur um, hvað sveitar- og bæjarfélög mega leggja á fasteignir, og séu þær reglur í samræmi við álögur ríkissjóðs.

Ákvæðið um það, hvað teljast skuli byggingarlóðir, byggist á því, að byggingarlóðir eru skattlagðar á annan veg en aðrar lóðir.

Eftir núgildandi lögum greiðir leigjandi skatt af leigujörð og leigulóð. í frv. er svo ákveðið, að eigandi greiði skatt af lóðinni, ef leigan er 6% af lóðarverði eða þar yfir, en leigjandi, ef hún er 4% eða þar undir. Sé leigan þar á milli, skiptist skatturinn á þessa tvo aðilja.

Í frv. er gert ráð fyrir, að fasteignir bæjar- og sveitarfélaga séu undanþegnar skatti eins og fasteignir ríkissjóðs. Þar sem sveitar- og bæjarfélög fá ekki skatt af fasteignum ríkissjóðs, virðist ekki sanngjarnt, að ríkissjóður fái skatt af þeirra fasteignum. Ákvæðið um, að verkamannabústaðir skuli undanþegnir fasteignaskatti, byggist á því, að þeir eru styrktir af opinberu fé, og sama er að segja um jarðabætur, sem styrktar eru af ríkinu. Ætlazt er til, að hvorttveggja sé skattfrjálst um 10 ára skeið, þar sem hér er um að ræða alveg nauðsynleg mannvirki, sem hið opinbera leggur fram fé til.

Þetta er nú um einstök atriði frv. Aðaltilgangur þess er að sjá ríkissjóði fyrir tekjum í stað tolla og leggja hömlur á brask með fasteignir og skaðlega verðhækkun. Ég vil benda á þá staðreynd, að síðustu 23–24 árin hefir verð landsins hækkað um h. u. b. 50‰ . Þetta er gífurleg hækkun. Þeir, sem nota landið til ræktunar og húsabygginga, verða að standa straum af henni. Hún kemur niður á framleiðslunni í hækkaðri leigu eða hækkuðum vaxta- og afborganagreiðslum. Og vonin um fyrirhafnarlausan verðhækkunargróða verður til að auka fasteignabraskið. Landskatturinn dregur úr þessu hvorutveggja. Auk þess hefir þessi skattur það sér til ágætis, að hann lendir ekki á framleiðslunni sjálfri, heldur á þeim stofni, sem framleiðslan byggist á. Bóndi, sem býr góðu búi og notar vel jörð sína, greiðir ekki meira en hinn, sem notar hana illa. Skatturinn er því hvöt til að nota landið til hins ítrasta. Skatturinn verður því léttari sem eignin er betur notuð. Hinsvegar borgar sig ekki að eða ónotaðar eignir til að braska með.

Í áætlun þeirri, sem fylgdi frv. í fyrra, var gert ráð fyrir, að fasteignaskatturinn yrði eftir frv. 850 þús. kr. Það er 600 þús. kr. meira en nú er í fjárl. og 570 hærra en áætlað er í fjárlfrv. Áætlun þessi er þó líklega heldur of lág. Hún er miðuð við, að fasteignamatið á skattskyldum fasteignum verði 180 millj. kr., en líkur eru til, að það verði nokkru hærra. Þennan tekjuauka má nota til að lækka tollana. Ef þetta frv. mitt og frv. um tekju- og eignarskatt næði fram að ganga, yrði tekjuaukinn 1,6 millj., og það er talsvert meira en allur verðtollurinn. Tekjur sveitar- og bæjarfélaga, ef heimildin er notuð um land allt, yrðu skv. frv. 1105 þús. kr. Það er 650 þús. kr. meira en fasteignagjöldin þar samkv. síðustu reikningum sveitarsjóða frá 1926 og 1927, og mætti verja þeirri upphæð til útsvaralækkunar. Og ef sveitar- og bæjarfélög notuðu sér þá einnig heimildina að leggja 50% á tekjuskattinn til sinna þarfa og taka til sín 1/3 eignarskattsins, eins og heimilað er í tekju- og eignarskattsfrv. mínu, yrði sveitar- og bæjarsjóðum séð fyrir 1600 þús. kr. auknum tekjum.

Auk þess er það mjög veigamikið atriði, að skattstofninn, sem þessi skattur hvílir á, fasteignin, er viss og tekjur ríkissjóðs yrðu því jafnari frá ári til árs.

Ég mun þá láta útrætt um þetta mál að sinni og mælist til, að frv. fari til 2. umr. og fjhn.