28.02.1931
Neðri deild: 12. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í C-deild Alþingistíðinda. (1488)

54. mál, ábúðarlög

Einar Jónsson:

Ég hefi ekki þekkt það fyrr, að hv. þm. Dal. talaði af þekkingu og reynslu um búskap framar búand körlum úr sveit. Og ég hefi ekki heldur þekkt það fyrr, að hv. 1. þm. Árn. (JörB) talaði af ofsa og miklum móði um þá hluti — en svo má lengi læra sem lifir. Það má hv. 1. þm. Árn. eiga, að hann vill starfa að þessu máli með áhuga, kannske líka af því, að hann er búinn að fá nokkrar krónur fyrir vikið, en það vill fara fyrir honum eins og fleiri nefndarskipuð um áður, að lítið varð úr störfum nefndarm., þegar til kastanna kom og þingið fékk plöggin á hönd. Ég get ekki annað en undrazt, að þegar sveitabóndi er settur til að semja lög handa sveitafólki — og það við sæmileg daglaun —, þá skuli þau (t. d. ábúðarlögin) vera það afhroð, að ekki skuli vera fært fyrir nokkurn einasta mann á landinu að eiga jörð í annars manns ábúð, vilji hann sjá sér sjálfum farborða, og ausa eigi fé í ábyrgðarleysi á annara hönd.

Ég held ég verði að leyfa mér að fara ögn út í einstök atriði frv., úr því að hv. þm. Dal. og sjálfur hv. frsm. hafa leyft sér það, — þó að þetta sé fyrsta umr. Það er t. d. 9. gr., sem ákveður, að öll ábúð skuli vera eilíf (þ. e. lífstíðarábúð), og 11. gr., sem skyldar landsdrottin til að byggja upp öll hús, sem ábúandi finnur ástæðu til að heimta, jafnvel hvort þau eru nauðsynleg eða eigi, og svo kemur 12. gr., sem segir, að aldrei skuli metið álag á jarðarhús, og beri landsdrottinn alla fyrningu. Þetta er vitanlega alófært ákvæði. Ég skil ekkert í, að jafnreyndur bóndi og hv. 1. þm. Árn. skuli láta sér detta aðra eins firru í hug. Hann mun nú hafa á búi sínu eitthvað um 500 ær, og hefir búið í sveit ein 7–8 ár a. m. k., og ætti því að vera kominn að raun um það, hvað húsabyggingar og búskapur á öðrum sviðum gildir, á hvern hátt landsdrottni og leiguliða er hentast að semja, o. s. frv. Það er því undarlegt, að hann skuli ekki enn vera búinn að læra að semja lög fyrir bændur. Ætlar hann að láta hv. þm. Dal. verða á undan sér með það? — Ég vorkenni honum og vona að hann taki þetta frv. aftur, en láti landbn. í friði fyrir aukastarfi viðkomandi því.