28.02.1931
Neðri deild: 12. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í C-deild Alþingistíðinda. (1503)

56. mál, lax- og silungsveiði

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Þetta frv. birtist hér í sama búningi og á síðasta þingi. Þá var orðið svo áliðið, er frv. kom fram, að eigi var tími til að ræða það til hlítar. Urðu samt um það nokkrar umr. og kom flest það fram, sem athugavert þótti.

Nefndin hugðist að bera fram nokkrar brtt. við frv. En henni vannst ekki tími til að ljúka störfum, svo ekki var hægt að fella þær inn í frv. Ég geri ráð fyrir, að innan skamms verði þessar brtt. tilbúnar, og verða þær þá afhentar n. þeirri, sem málið fær til meðferðar. Þessar brtt. eru að mestu í samræmi við till. hv. þm. Borgf. í fyrra. Þó eru fleiri atriði tekin þar til greina.

Ég vona, að þótt þessar brtt. liggi ekki fyrir nú, þá lofi deildin máli þessu að ganga til n. Þegar brtt. eru tilbúnar, verður þeim útbýtt meðal þm. áður en n. sú, er fær málið til meðferðar, skilar áliti.