28.02.1931
Neðri deild: 12. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í C-deild Alþingistíðinda. (1504)

56. mál, lax- og silungsveiði

Pétur Ottesen:

Ég gerði á síðasta þingi ýmsar aths. við allmörg ákvæði frv. Ég skal ekki endurtaka það, sem ég sagði um málið þá, en ég vil mælast til þess við hv. landbn., að hún athugi þessar aths. mínar. Ég get verið þakklátur hv. flm. og mþn., að hún hefir að einhverju leyti tekið till. mínar til greina og séð ástæður til breytinga. Ég tel það þó mikinn galla á gjöf Njarðar, að mþn. skyldi ekki koma fram með frv. í því formi nú þegar, sem hún óskar að það verði í, heldur ætlar hún sér að koma fram með brtt. síðar. Það er aðeins til að draga á langinn, að þdm. geti kynnt sér, hvað um er að ræða, fyrr en máske undir þinglok. Ég vil því skora á hv. flm. að afhenda landbn. þessar brtt. sem fyrst, og jafnframt vil ég ítreka þá ósk til landbn. að athuga till. mínar síðan í fyrra.