10.03.1931
Neðri deild: 20. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í C-deild Alþingistíðinda. (1513)

58. mál, útsvör

Hákon Kristófersson:

Ég verð að segja, að ég er þakklátur n. fyrir afgreiðslu þessa máls, enda þótt ég hafi búizt við, að hún sæi sér fært að leggja til, að um leið og breyt. væri gerð á gjalddögum útsvara, ákvæði þingið sjálft þá breyt., án þess að fela það sýslunefndum.

Gjalddagarnir eru óhæfilegir, eins og hv. frsm. tók fram, því með því fyrirkomulagi, sem er, er það útilokað, að hreppsnefndir geti staðið í skilum með nokkuð af sýslugjöldum á manntalsþinginu þegar að vorinu, og verður þá um samkomulag að fara eftir góðu hjartalagi viðkomandi sýslumanna, og um það er náttúrlega ekki að efast.

Ég vænti ekki, að það sé til neins að fara fram á við hv. n., að hún geri nú betri skil og breyti frv. í viðunanlegra horf, þannig, að í því séu ákveðnir gjalddagar, t. d. sá fyrri í maí og sá síðari í júlí eða ágúst.

En það er góðra gjalda vert, að hún hefir komizt til þeirrar niðurstöðu, að lagfæringar þyrfti við á því fyrirkomulagi sem er.