13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í C-deild Alþingistíðinda. (1525)

194. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég held þetta sé í 14. skipti, sem hv. þm. Dal. kemur og kveinar yfir því, að við andstæðingar hans séum að reyna að spilla fyrir honum í kjördæmi hans. Þvílíkt ódæði, ef stjórnmálaflokkur safnar atkv. á móti andstæðing sínum! Ég held enginn þm. nema hv. þm. Dal. kvarti sérstaklega undan því, þó andstæðingar þeirra vinni á móti kosningu þeirra; flestir telja slíkt sjálfsagt. Það er því einsöngur hjá hv. þm. Dal. þessi sífelldi jarmur um það, að það sé verið að senda menn að spilla fyrir honum. Við hv. 1. þm. Skagf. höfum t. d. báðir ferðast hvor um annars kjördæmi og unnið hvor á móti öðrum, og hefir hvorugur kvartað undan því. (MG: Eigum við ekki að verða samferða um kjördæmin næst?). Mér væri það hin mesta ánægja, en af því ég get ekki heilsunnar vegna ferðast eins og aðrir menn, þori ég ekki að lofa því.

Þessi sérstaða hv. þm. Dal. í því, hvernig hann tekur því, að unnið sé á móti honum, hlýtur að stafa af óstyrkum taugum og sérstakri hræðslu um að missa kjördæmið.